Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 22:13:13 (6365)


[22:13]
     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er eitt og annað hægt að segja um þróunarsjóðinn. Við getum tekið langt mál um það en ég hef ekki nema rúma mínútu til þess. Hitt er annað mál að Verðjöfnunarsjóðurinn var ágætt hagstjórnartæki á sínum tíma þegar litið er til þess að togarar á suðvesturhorninu sóttu þá ævinlega í karfa og héldu erlendum ferskfiskmörkuðum lifandi sem kannski Íslendingar hafa einna mest stundað. Sunnlenskir togarar seldu þá karfa við mjög vægu verði, ef svo má segja, á mörkuðum erlendis, tóku þar súru og sætu. Og þegar þeir lönduðu innan lands, þá var hin svokallaða verðjöfnun notuð til að bæta þeim upp þann verðmismun sem var annars vegar á karfa og hins vegar á þorski sem bæði Vestfjarðaskip og Norðlendingar sóttu mjög til.
    En nú er öldin öll önnur. Nú er karfinn ekki síður eftirsóknarverður en þorskur og ég sé ekki ástæðu til þess að það sé haldið áfram að byggja upp einhvern Verðjöfnunarsjóð með það í huga að það er orðið styttra á erlendu markaðina en var áður. Það er annar flutningsmáti á ferskum fiski. Togararnir eru ekki að sigla eins og áður var gert og fiskmarkaðir hér eru komnir upp og eins og ég sagði áðan eru þeir sem stunda sjó tilbúnir til þess að mæta þeim sveiflum sem eru í verðlagningu sem auðvitað fer fyrst og fremst eftir framboði og eftirspurn.