Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 22:17:12 (6367)


[22:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nokkuð sérkennilegt satt best að segja að vera hér á kvöldfundi þar sem ekki er annað mál á dagskrá en þetta litla frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og samkvæmt starfsáætlun skilst mér að áformað sé að funda til miðnættis. Svo mikið liggur við að ræða þetta mál. Maður skyldi því ætla að það væri á ferðinni eitthvað sem munaði um og þyrfti alveg afdráttarlaust að afgreiða fyrir vorið. Þjóðarheill, liggur mér við að segja, í veði.
    Þeim mun sérkennilegra er það að áhrifin af afgreiðslu þessa frv. verða ekki nein fyrir utan það að taka á 200 millj. frá sjávarútveginum til þess að fjármagna ríkisrekstur í framhaldi af frv. Lögin sem hér á að fella úr gildi eru í reynd óvirk í dag eins og háttar til í íslenskum sjávarútvegi. Það er ekki þar með sagt að þau séu gagnslaus og eigi ekki að vera fyrir hendi. Það er svo önnur saga og verður vikið að því betur síðar. En það verður ekki rökstutt í öllu falli með brýnum hagsmunaástæðum sjávarútvegsins að það þurfi að koma þessum lögum út úr heiminum nú og það liggi svo mikið við að hér skuli fundað nætur og daga um það mál. Nei, því er ekki að heilsa. Og ég segi það, hæstv. forseti, stóru málin þvælast ekki fyrir ríkisstjórninni, að hún skuli ekki hafa meira að gera en svo að láta tímann á síðustu starfsdögunum fara í hluti af þessu tagi.
    Þetta frv. er í fyrsta lagi óþarft í þeim skilningi að lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins eru ekki virk eins og stendur. Það er í öðru lagi vitlaust að fella þessi lög úr gildi án þess að eitthvað annað hafi verið lögfest í staðinn. Það eru í raun og veru alveg furðuleg vinnubrögð að leyfa ekki þessum lögum, jafnvel þó menn séu orðnir þeirrar skoðunar að þau séu ekki heppileg og þeim eigi að breyta, a.m.k. að halda gildi sínu þangað til annað hefur verið lögfest. Ég fullyrði að það væri venjan við hvort heldur er lagasetningu almennt séð, stjórn efnahagsmála eða önnur sambærileg atriði í störfum þingsins og í stjórnsýslunni. Þetta er mjög óvenjuleg aðgerð, ekki síst þegar það er haft í huga að enginn mælir á móti því að það sé nauðsynlegt að hafa kerfi af þessu tagi í gangi. Það eru allir sammála um það, bæði þeir sem eru andvígir því að fella þessi lög úr gildi og hinir sem mæla með því. Þeir eru líka sammála því. En þeir segja bara: Ekki þetta. En það verður að vera verðjöfnun, það verður að vera sveiflujöfnun og það verður að vera afkomujöfnun í íslenskum sjávarútvegi.
    Hvernig er það hæstv. forseti? Er ríkisstjórnin bara gufuð upp? Það sést hér ekki nokkur sála, sem ber þann titil að vera hæstv. ráðherra. Þetta eru að vísu alveg snillingar sem hér eru, fjórir hv. þm. stjórnarandstöðunnar, ég og forseti, en það er nú bara þannig að ég held að það sé ástæða til að hafa svo sem einn vesælan stjórnarsinna í salnum á meðan við ræðum þetta. (Gripið fram í.) Þannig að ég er bara að hugsa um að gera hlé á máli mínu þangað til hefst upp á einum réttlátum í borginni. --- Þarna er sjútvrh., það er gott. ( Gripið fram í: Ætli hann sé sá eini sem er réttlátur?) Hann er alla vega viðstaddur hvort sem hann er réttlátur eða ekki.
    Sem ég segi, hæstv. forseti, þá er það eiginlega dapurlegt að þetta skuli vera málið sem hæstv. sjútvrh. er með hér á dagskrá og varðar svo ríka hagsmuni sjávarútvegsins að hann lætur Alþingi leggja nótt við dag að ræða þetta. Það er nú það. Þetta er ekki sú heildstæða og myndarlega sjávarútvegsstefna sem átti að móta í tíð þessarar ríkisstjórnar. Nei. Þetta eru ekki lögin um stjórn fiskveiða. Þetta er ekki þróunarsjóðurinn eða aðrir slíkir hlutir sem maður hefði haft skilning á að eitthvað væri lagt á sig með að afgreiða. Nei, þetta er um það að ná 200 millj. í ríkissjóð, í kassann hjá Friðrik, hæstv. fjmrh., og leggja svo bara niður í blindni lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, segja að vísu: Það þarf að vera verðjöfnun, en við höfum ekki hugmynd um hvað eigi að koma í staðinn. Það verður bara að skoða það í framhaldinu. Það verður að vísu að koma eitthvað í staðinn en við vitum bara ekki hvað og þess vegna er best að gera þetta svona, leggja þetta niður, henda þessu og sjá svo til.
    Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð. Ef ég hefði verið sjútvrh. hefði ég rekið þessa skýrslu ofan í þessa ágætu menn og sagt: Þið eruð ekki hálfnaðir. Þið hafið að vísu komist að því, sem allir vita, að það er nöldur í sjávarútveginum út í þennan Verðjöfnunarsjóð og það eru misstemningar í kringum hann. En þá er bara hálf sagan sögð. Ef þið teljið ekki að leggjandi sé upp með hann þá skuluð þið halda uppi starfinu og finna annað í staðinn sem er þá meiri sátt um. Ef menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að sveiflujöfnun væri óþörf, það væri þannig komið í sjávarútveginum að hún væri óþörf, þá er það allt annað mál. En það er ekki svo. Nei, nei, nei. Það kemur rækilega fram bæði í greinargerð með frv., sem er að uppistöðu til álit nefndarinnar. Eins og hér hefur verið bent á er mestöll grg. rökstuðningur fyrir því að viðhalda þessari sveiflujöfnun. Þar er t.d. á bls. 8 og 9 rætt um sveiflujöfnun og opinbera verðjöfnun. Það er farið yfir það, sem rétt er, að íslenski þjóðarbúskapurinn er mjög sveiflukenndur. Það hefur ekki breyst. Sveiflurnar eiga að langmestu leyti uppsprettu sína í tvennu, þ.e. annars vegar mismunandi afla í sjávarútveginum og hins vegar mismunandi afurðaverði. Hvort tveggja er mjög sveiflukennt eins og við þekkjum. Og nærtæk dæmi núna á þessum síðustu mánuðum og missirum þar sem, eins og stundum áður, hvort tveggja hefur því miður gerst í nokkrum mæli, er að aflinn hefur dregist saman og verðið hefur farið niður og verða þá sveiflurnar þegar þær leggjast saman miklu stórkostlegri en ella eins og kunnugt er.
    Hvað segir svo í fskj. I með frv. á bls. 9 um frv. sem kemst að þeirri furðulegu niðurstöðu að

leggja niður Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Hvað segir þar? Það segir, með leyfi forseta:
    ,,Hér á landi virðist það sjónarmið njóta nokkuð almennrar viðurkenningar að nauðsynlegt sé að reyna að draga úr áhrifum sveiflna í ytri skilyrðum sjávarútvegsins. Þetta kemur m.a. fram í þeim álitum, samþykktum og yfirlýsingum sem nefndinni bárust frá hagsmunaaðilum . . .  ``
    Hvernig stendur á þessu? Nefndin er hér að rökstyðja akkúrat það að það sé algerlega nauðsynlegt og það sé tiltölulega óumdeilt sjónarmið á Íslandi að það verði að vera tæki til sveiflujöfnunar. Og hvers vegna skyldi það vera? Það er af því að menn hafa áttað sig á því að við höldum ekki uppi á Íslandi stöðugleika í okkar efnahagskerfi, við höldum ekki stöðugu gengi, við höldum ekki lágri verðbólgu, við höldum ekki fullri atvinnu og öðrum slíkum lykilþáttum nema geta jafnað einhvern veginn þessar sveiflur. Það eru auðvitað til a.m.k. fræðilega ýmsar aðferðir til þess. Í hagfræðinni er það. Ein væri sú ef íslenska þjóðarbúið væri svo lítið skuldsett að við gætum reiknað með því að taka bara lán og sveifla okkur þannig í gegnum dýfurnar og greiða þær svo niður þegar betur áraði o.s.frv. og við hefðum bein í nefinu til að gera það þannig. Þá væri þetta hugsanlegt en því er ekki til að heilsa, ekki í dag. Við höfum ekki mikið þanþol í því. Ég held að því sé ekki heldur til að heilsa við getum að einhverju leytinu með genginu hreyft þetta til eða er það? Eða er þetta ekki allt orðið frjálst, hæstv. sjútvrh.? Er það ekki þannig? Nema í gegnum markaðsaðgerðir sem ég með fullri virðingu fyrir íslenska Seðlabankanum er ekki viss um að hann tommi mikið með. Möguleikarnir til þess að ákvarða gengið eru nú að verða litlir ef menn ætla að taka mark á því að við séum komin í frjálst umhverfi með frjálst flæði fjármagns út og inn úr landinu og allt það.
    Hvaða aðferðir eru þá aðrar til í þessu? Það er hugsanlegt að reyna með einhverjum öðrum hætti að afkomujafna eða sveiflujafna í sjávarútveginum en þeim að beita verðjöfnun. Hvernig gengur það? Hvernig hefur t.d. gengið að fá menn innan núverandi kvótakerfis til að nota það til að jafna? Það hefur ekkert gengið. Nánast ekki neitt. Menn hafa mylgrað út þessum tonnum úr Hagræðingarsjóði, sem á að heita svo að séu merkt honum, en að öðru leyti hafa einstakar útgerðir, einstök fyrirtæki, mátt taka á sig sveiflurnar sem leiða af mismunandi gengi einstakra fiskstofna. Það hefur ekki verið vilji fyrir því, t.d. að jafna afkomu fyrirtækjanna að þessu leytinu til sem nemur aflabresti og mismunandi viðgangi einstakra stofna með einhvers konar sveiflujöfnun t.d. í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er ekki heldur. Ég hlýt því að spyrja að því hér: Hvað ætla menn þá að nota? Hvaða fyrirkomulag ætla menn að hafa á þessu ef hefðbundnar efnahagsstjórnunaraðferðir eru sumar hverjar orðnar a.m.k. erfiðari en þær áður voru og ekki er lengur til að dreifa hvorki þeim tækjum, nema menn taki þau þá upp á nýjan leik, né heldur væntanlega pólitískum vilja til að grípa til miðstýrðra ákvarðana á nýjan leik um vexti, gengi og aðra slíka hluti? Hæstv. sjútvrh. getur e.t.v. upplýst það en það væru þá nýjar upplýsingar inn í umræðuna.
    Hvað er þá eftir, hæstv. forseti, í þessu annað en einhvers konar verðjöfnun, a.m.k. að verulegu leyti sem annist þessa sveiflujöfnun? Ég kem ekki auga á það í fljótu bragði. Og það er alveg ljóst að menn hafa enga leið fundið til þess að gera þá verðjöfnun að því tæki sem hún þarf að vera nema gegnum einhvers konar sameiginlegan sjóð þó svo að innstæðurnar kynnu að vera meintar einstökum fyrirtækjum eins og var og er í tíð núgildandi Verðjöfnunarsjóðs. Það kemur berlega fram í grg. og í álitum þeim sem sjútvn. aflaði frá t.d. Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og fleiri aðilum. Þeir sjá enga leið í land með þessa margtuggnu klisju um að æskilegt væri að skoða möguleikana á verðjöfnun innan fyrirtækja. Vegna hvers? Vegna þess að að það liggur þannig að ef reikningarnir verða úti í fyrirtækjunum, þá eru þeir eign fyrirtækjanna. Þeir verða skattalega og efnahagslega meðhöndlaðir sem slíkir og þá er ekki vafi á því að það verður nánast formsatriði að nafninu til taka einhverja peninga þannig úr umferð og geyma þá á reikningi viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Það þjónar orðið afar litlum tilgangi. Þeir peningar fara ekki út úr hagkerfinu og þeir mynda stofn hjá viðkomandi fyrirtæki til þess að fá lán á móti ef svo ber undir. Þetta sjá allir. Og fram hjá þessari klemmu hafa menn ekki komist. Hvað þýðir þá að tala og tala og tala í einhverri rósrauðri framtíð um sveiflujöfnun innan fyrirtækjanna þegar engin útfærsla á því hefur litið dagsins ljós ekki einu sinni hjá þeim sem það hafa skoðað mest, sem eru væntanlega til að mynda nefndarmenn í starfshópnum eða sérfræðingar Seðlabankans, sem hefur haft yfirumsjón með þessu á undanförnum árum? Því er ekki líklegt að einhverjir minni spámenn komi með það alskapað eftir sínu höfði. Það er a.m.k. mín skoðun.
    Ég held líka, hæstv. forseti, að reynslan hafi sýnt okkur hvers virði það er að geta átt svona tæki. Ég nefni, eins og hér hafa reyndar fleiri gert, tilvist Verðjöfnunarsjóðsins á árinu 1990 og 1991. Það er ekki nokkur vafi á því að þá hjálpaði Verðjöfnunarsjóður verulega til að hlutirnir færu ekki úr böndunum þegar veruleg kom innspýting inn í sjávarútveginn og verðið hækkaði um líklega fjórðung eða svo á réttu ári, líklega á svona 12--15 mánuðum. Svo ekki sé minnst á það hvers virði það var síðan fyrir hæstv. núv. sjútvrh. að eiga um 3 milljarða kr., eða hvað það nú var, í sjóði, sem fyrri ríkisstjórn hafði safnað í handa honum, til að halda sjávarútveginum lifandi og fleyta honum í gegnum árið 1992. Þá var ástandið þannig í ríkisstjórn landsins, atvinnuleysisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, að menn komu sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut. Þingið var að fara heim á vordögum 1992 og það hafði ekkert verið gert fyrir sjávarútveginn sem var að lenda í miklum þrengingum eins og allir sáu og vissu. Þá varð það að ráði og stjórnarandstaðan hvatti til þess og studdi það að frekar en ekki yrði gripið til þessara innstæðna og þær greiddar út á grundvelli sérstakra laga.

    Auðvitað var það bölvað að þurfa að nota þann sparnað allan upp til þess að halda sjávarútveginum á floti eitt ár. En það var betra að gera það heldur en láta hann hrynja í ljósi þess að ríkisstjórnin kom sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut. Auðvitað var það kaldhæðnislegt að stjórnin undir forustu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, sem hefur talað meira og lengur um sjóðasukk, spillingu og annað því um líkt, skyldi þurfa að grípa til þess haldreipis að tæma skyldusparnaðinn frá tíð fyrri ríkisstjórnar til að halda sér og sjávarútveginum á floti út árið 1992. En þetta dæmi sýnir þó að þarna virkaði sjóðurinn. Það var greitt í sjóðinn á uppgangstíma í greininni sem leiddi til þess að þensla varð minni og verðspenna í þjóðfélaginu varð minni. Það hljóp síður kapphlaup í greinina í sambandi við hráefni og annað því um líkt og þeir peningar komu mönnum svo að góðum notum þegar aftur hafði syrt í álinn.
    Það eru mýmörg dæmi um það úr sögu fyrri Verðjöfnunarsjóðs þegar komið er að einstökum greinum að þetta kerfi virkaði mjög vel. Ég nefni saltfiskinn sem dæmi. Það er enginn vafi á því að í gegnum tíðina var verðjöfnunarkerfið í saltfiskinum tiltölulega virkt og þjónaði sínum tilgangi vel. Það var því miður ekki svo í sumum öðrum deildum. Sérstaklega mun það hafa átt við um frystinguna sem var í nokkru uppnámi meira og minna frá byrjun vegna þess að strax í upphafi var gripið inn í eðlilega starfsemi sjóðsins og má segja að verðjöfnunargildi sjóðsins hafi aldrei náð sér eftir þá íhlutun strax á fyrstu árum hans í kringum 1970.
    En dæmi bæði frá seinni tímum og eldri sýna og sanna gildi svona sveiflujöfnunar, enda liggur það í hlutarins eðli þegar maður hugsar um þá ótrúlegu staðreynd að hér er verið að halda uppi sjálfstæðu þjóðríki með sjálfstæðan efnahag og það byggir á þeirri ótrúlegu staðreynd að 80% útflutningsteknanna koma frá sjávarútvegi þar sem undirstaða efnahagslífsins, eins og stundum hefur verið sagt, getur þess vegna synt í burtu einn góðan veðurdag og menn eru undirorpnir mjög miklum sveiflum, bæði um aflabrögð og verðlag. Þau er því fá dæmin um þjóðir sem búa við annað eins. Þá hljóta menn að taka mið af því og láta reynsluna og skynsemina ráða en ekki einhverjar kreddur. Ég held að það sé afar vanhugsað að rjúka nú til og fella þessi lög úr gildi með þessum hætti. Mér liggur við að segja að það hefði verið skárra ef einhver ástæða hefði verið til að taka þau úr sambandi með tilteknum hætti, t.d. bæta við lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins ákvæði til bráðabirgða um að ekki skyldi koma til inngreiðslna eða útgreiðslna úr sjóðnum næsta árið eða svo meðan endurskoðun stæði yfir, það væri allt önnur aðgerð. Út af fyrir sig þarflaus vegna þess að sjóðurinn er ekki í sambandi. Hann er að mestu leyti tómur eftir að núv. ríkisstjórn gekk í hann og tæmdi hann, jós út úr honum öllum peningunum, 3 milljörðum á árinu 1992. Í dag hefur hann minni háttar áhrif þó að hann sé sambandi.
    Það er næsta óvenjulegt, hæstv. forseti, að fletta í gegnum nál. minni hluta sjútvn. á þskj. 914 og fletta í gegnum fylgiskjölin sem eru umsagnir einstakra aðila, hvert á fætur öðru og þau mæla öll eindregið gegn því að þetta frv. verði afgreitt. Og hverjir skyldu það vera sem þarna eru að gefa álit sitt og umsögn? Það er ekki eins og það séu einhverjir aðilar sem engu máli skipta svona dags daglega og venjulega. Það er ekki svo. Þarna eru á ferðinni stofnanir í þjóðfélaginu og samtök sem yfirleitt hefur verið tekið talsvert mark á, a.m.k. þegar svo ber undir. Fyrsta skal fræga telja Þjóðhagsstofnun. Hún leggst algerlega gegn því að þetta sé gert. Þjóðhagsstofnun telur afar óskynsamlegt að afnema þessi lög fyrr en gerðar hafa verið aðrar ráðstafanir sem þjónað gætu sama tilgangi en Þjóðhagsstofnun er jafnframt þeirrar skoðunar eins og fleiri að það sé hægara sagt en gert að finna það fyrirkomulag.
    Hver er númer tvö? Það er Seðlabankinn. Nú er það svo að í Seðlabankanum er samansöfnuð mesta þekkingin í landinu um þessi mál því það er Seðlabankinn hefur annast um framkvæmd þessara hluta á undanförnum árum og haft yfirumsjón með þeim. Og hvað segja þeir menn? Jú, helstu ráðgjafar ríkisstjórna á hverjum tíma í efnahagsmálum, þeir sem fara með gjaldeyrisforðann, þeir sem eiga að tryggja hérna stöðugt gengi, Seðlabankinn, telja það alveg fráleitt að fara svona að þessu. Þeir mæla eindregið með áframhaldandi verðjöfnun í sjávarútvegi og leggja til að frv. verði dregið til baka. Það er Seðlabankinn.
    Samtök iðnaðarins, sem auðvitað er málið skylt og þarf ekki að fara út í langar rökræður um það, allir vita um samspil afkomu í sjávarútvegi, gengisskráningar og svo aftur samkeppnisstöðu annarra greina atvinnulífsins, telja það sömuleiðis ótímabært að leggja niður Verðjöfnunarsjóð meðan ekki liggi fyrir hvað eigi að taka við af honum. Reyndar bæta þeir því svo við til aðvörunar að verði það gert, þá megi gera ráð fyrir því að aukinn kraftur færist í umræðuna um að tengja upptöku auðlindaskatts eða gjalds fyrir veiðiheimildir við sveiflujöfnun í hagkerfinu. Með öðrum orðum draga þeir samasemmerki milli þess að leggja Verðjöfnunarsjóð niður og að vaxandi kraftur verði í umræðunni um auðlindaskatt.
    Vinnuveitendasamband Íslands, það eru einhver smásamtök úti í bæ sem einn og einn maður hefur heyrt nefnd, leggst eindregið gegn þessu. Það telur frv. ótímabært og það megi ekki kasta þessu hagstjórnartæki á glæ.
    Verkamannasambandið og Alþýðusambandið eru sömuleiðis andvíg breytingunni. Og ég fullyrði það sem nefndarmaður í efh.- og viðskn. auk sjútvn. og hafandi þar með fengið allmörg álit og allmargar umsagnir í gegnum tíðina á síðustu árum frá hinum ýmsu samtökum að þess eru afar fá dæmi að allir þessir aðilar í einum kór séu sammála um mál af þessu tagi. Það er frekar óvenjulegt. Og enn óvenjulegra að ekkert skuli með það gert, ekki neitt. Það er eins og það skipti engu máli að Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki, Vinnuveitendasambandið, Alþýðusambandið og fleiri aðilar séu allir sammála um að þetta sé vitlaust.
    Hvaðan kemur þá hæstv. sjútvrh. sú speki að það sé rétt að gera þetta? Eða er honum ekki

sjálfrátt? Er það hugsanlega þannig, hæstv. forseti, að hæstv. sjútvrh. sé ekki sjálfrátt í málinu og það sé kassahirðirinn mikli, hæstv. fjmrh., sem ráði ferðinni, sé orðinn einhver yfirfrakki á hæstv. sjútvrh. og segi honum til í þessum efnum? Og allt út af skitnum 200 millj. sem á að krækja í, sem er auðvitað eign sjávarútvegsins, sem er upptaka á eignum sjávarútvegsins, og ráðstafa í rekstur ríkissjóðs. Auðvitað er það eins og hver annar skollaleikur að eyrnamerkja það Hafrannsóknastofnun. Það mætti alveg eins eyrnamerkja það hvaða öðru apparati sem er sem ríkið greiðir, þess vegna Tryggingastofnun ríkisins eða einhverjum öðrum aðila. Það kæmi út á eitt.
    Þetta er mjög sérkennilegt, hæstv. forseti, svo ekki sé meira sagt, og afar óvenjulegt að svona skuli takast til. Það furðulega kemur nefnilega í ljós, eins og hefur komið fram í umræðunni, að þessi nefnd virðist ekkert hafa rætt þetta eða skoðað gagnvart öðrum aðilum. Það er eins og menn hafi litið á það sem hreint einkamál sjávarútvegsins hvernig sveiflujöfnun og jafnvægisstillingu í íslensku efnahagslífi væri fyrir komið. Þetta er alveg ótrúlegt.
    Ég vil segja nokkur orð, hæstv. forseti, um ráðstöfun þessara peninga ef ske kynni að svo ógæfulega tækist til að þetta frv. yrði svo afgreitt, sem ég reyndar geri mér góðar vonir um að ekki verði því að ég er bjartsýnismaður og trúi á það að batnandi mönnum sé best að lifa og allt það. Vonandi rennur ljósið upp fyrir hæstv. sjútvrh. og fleirum hér á næstu sólarhringum að menn sjá að þetta er hið mesta óráð. (Gripið fram í.) Það eru mörg mál sem meira liggur á heldur en að skaka í þessu hér. En ef svo ógæfulega tekst til að svo verður ekki þá hlýt ég að mótmæla alveg sérstaklega og harðlega áformaðri ráðstöfun þessara peninga. Ég verð að segja alveg eins og er að mig undrar að það skuli ekki hafa orðið að meira hitamáli í samtökum sjávarútvegsins hvernig hæstv. sjútvrh., eða reyndar hæstv. fjmrh., ætlar að ræna þessu fé sem er eign sjávarútvegsins, hefur myndast með inngreiðslum og iðgjaldagreiðslum sjávarútvegsfyrirtækja gegnum tíðina og væri lágmarkskrafa að væri ráðstafað í samráði við helstu hagsmunaaðila sjávarútvegsins, samtök útgerðarinnar, sjómanna og annarra slíkra aðila. Það er lágmarkskrafa. Það er nóg með þessa peninga að gera í þörfum verkefnum á því sviði. Það er hægt að nefna þar mörg viðfangsefni sem eru svo þörf og brýn og tiltölulega óumdeilt að ráðist skuli í að ég hef ekki trú á að neinn ágreiningur yrði um það.
    Við 1. umr. málsins kom ég með þá hugmynd að þessir peningar yrðu að mestu eða jafnvel öllu leyti notaðir til að mynda sjóð til að endurnýja skipakost Hafrannsóknastofnunar. Það á sér m.a. rót í því að þegar sjútvn. var að fara yfir tekjuhlið fjárlagafrv. á sl. hausti, þá fór hún alveg sérstaklega yfir rannsóknaþáttinn, stöðu hafrannsóknanna, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og fleiri slíka hluti. Eitt af því sem kom í ljós þegar spurt var um möguleika og áform Hafrannsóknastofnunar varðandi djúphafsrannsóknir var einfaldlega þetta að þau skip sem stofnunin núna ræður yfir duga ósköp einfaldlega ekki til rannsókna við þær aðstæður. Stofnunin hefur reynt á undanförnum árum að fá leigð stærri skip en það er dýrt og tókst t.d. ekki á síðasta ári sökum fjárskorts Hafrannsóknastofnunar að ráðast í þau rannsóknaverkefni á dýpra vatni sem stofnunin ætlar sér. Nú er eins og dæmin sanna og víðfrægt er orðið hægt að fá stór og myndarleg skip fyrir lítið verð víða í útlöndum og öll ástæða til að ætla að Hafrannsóknastofnun gæti orðið sér út um stórt togskip sem mætti nota a.m.k. til þessara rannsóknaverkefna og gert það út til nokkurra leiðangra á hverju ári á dýpri mið hér, ekki síst suður af landinu, suður, suðaustur og suðvestur af landinu en þar eru ærin verkefni óunnin.
    Ef þessar 200 millj. rynnu í þennan sjóð, en þar munu vera fyrir einhverjir fjármunir frá því að gamli Hafþór var seldur, væri þarna kominn allmyndarlegur stofn til að ráðast í þetta brýna verkefni, endurnýjun eða viðbót á skipakosti Hafrannsóknastofnunar þannig að hún gæti sinnt rannsóknum á þessum slóðum en vaxandi áhugi er á því og þörfin ærin.
    Ég hafði látið mér detta í hug að þessi tillaga mundi eignast stuðningsmenn. Mér datt t.d. í hug hæstv. utanrrh. sem kom heim einu sinni sem oftar frá útlöndum. Það eru nú einu sinni örlög hæstv. utanrrh. að vera af og til að koma heim frá útlöndum. Hann var hróðugur mjög og þóttist hafa samið við Evrópubandalagið um veiðar á langhala. Langhalinn breyttist svo að vísu í karfa á einni nóttu, 3.000 tonn, og er þá hæstv. utanrrh. farinn að slaga upp í frelsarann í kraftaverkum að framkvæma slíkar stórfelldar breytingar á einni nóttu. En þá var því borið við að það vantaði rannsóknir á langhalanum. Það væri ekki hægt að benda Evrópubandalaginu á nein mið eða veiðislóðir þar sem sannanlega væri langhala að hafa og þess vegna yrðu þeir að fá karfa í bili. Það væri ástæðan fyrir því að langhalinn breyttist í karfa. Og þá spyr ég: Hvar eru rannsóknirnar? Hvar eru leiðangrarnir? Hvar eru skipin sem eiga að fara og finna langhalann þannig að nú sé aftur hægt að skipta á karfa og langhala? Þau eru hvergi vegna þess að okkar litlu, íslensku skip, svo ágæt sem þau eru, ráða alls ekkert við aðstæður á því djúpa vatni sem er suður af landinu en mikil nauðsyn er á að rannsaka. Þau ráða illa við að toga á meira en 400--700 metra dýpi eins og skuttogarar af sambærilegri stærð, með sambærilegum spilabúnaði. Það sem vantar hér auðvitað er öflugt skip sem ræður við aðstæður alveg niður á a.m.k. niður 1.200--1.500 metra og helst meira.
    Menn eru ekkert að gera í þessum efnum, ekki neitt. Hæstv. sjútvrh. er ekki með tillögur hér og frumvörp í gangi sem kosta næturfundi til að koma einhverju svonalöguðu í gegn, ekki aldeilis. Nei. Hann brýtur sig í stykki hér fyrir hæstv. fjmrh. að troða þessu í gegn til þess að hægt sé að tæma gömlu innstæðurnar í Verðjöfnunarsjóði sjávarúvegsins í kassann á þessu ári og leggja sjóðinn niður, fella lögin úr gildi án þess að hafa hugmynd um hvað eigi að koma í staðinn. Þetta er ekki merkileg frammistaða, hæstv.

forseti.
    Hugmyndir um að fjármununum skuli ráðstafað í annað og þeir ekki gerðir upptækir með þessum hætti heldur ráðstafað til verkefna til einhvers konar nýsköpunar og uppbyggingarverkefna af því tagi innan greinarinnar sem menn verða sammála um hafa að sjálfsögðu fengið stuðning allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi og ég hef ekki nokkra trú á öðru en það verði auðvelt mál að ná góðri samstöðu um í hvað þetta verði sett. Menn eru að vísu með mismunandi hugmyndir. Sumir nefna Hafrannsóknastofnun, aðrir skipakaup, aðrir nefna bara sérstök hafrannsóknaverkefni. Enn aðrir minna á Lífeyrissjóð sjómanna o.s.frv. Maður hefur jafnvel heyrt hugmyndir um að setja þetta í björgunar- og slysavarnir og allt er það þarft. Vandræðaganginn um björgunarþyrluna er ekki hægt að nefna hér ógrátandi. Það er svo hörmulegt hvernig það hefur tekist til hjá hæstv. ríkisstjórn. Öll þjóðin hefur horft upp á þann farsa agndofa undanfarin ár eða svo og það er ekkert lát á því, ekki neitt. Það eru bara nýir og nýir kaflar að skrifast í þeirri sögu. En í öllu falli er ég sannfærður um að það stæði ekki lengi fyrir mönnum að ná samstöðu um ráðstöfun til þessara fjármuna til einhverra brýnna verka.
    Ég reyndar hallast að því að það ætti að skoða vandlega hvort rétt væri, m.a. með vísan til þess að auðvitað hefur það varðað kjör sjómanna á undanförnum árum og haft viss áhrif á þau þegar inngreiðslur hafa verið í Verðjöfnunarsjóð. Það er ljóst, eins og hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, var m.a. að víkja að, að það mætti gjarnan skoða það að t.d. um helmingur af innstæðunni gengi til Lífeyrissjóðs sjómanna. Það hefur áður verið gert við skyldar aðstæður, má segja, að taka eitthvað af fjármunum sem eru til ráðstöfunar og styrkja með þeim Lífeyrissjóð sjómanna, enda ljóst að hann þarf á stuðningi að halda til þess að geta innt skuldbindingar sínar af hendi. Ef það yrði niðurstaðan, segjum svo, að verja helmingnum, 100 millj. kr., til að styrkja eiginfjárstöðu Lífeyrissjóðs sjómanna og afganginum t.d. í skipabyggingarsjóð Hafrannsóknastofnunar, þá er ég alveg sannfærður um að um slíka ráðstöfun gæti tekist mjög góð samstaða.
    En því er ekki að heilsa. Það hefur verið talað fyrir algerlega daufum eyrum hvað það snertir og mig satt best að segja undrar það geðleysi manna að láta þetta yfir sig ganga.
    Hvar er hv. 16. þm. Reykv.? Hann sást hér í mýflugumynd í kvöld. ( Gripið fram í: Það er enginn stjórnarliði hér.) Það er enginn stjórnarliði hér, það er rétt, þeir sjást ekki orðið hér. Það hlýtur að vera búið að leggja þá niður. ( JGS: Þeir eru tveir í húsinu.) En staðreyndin er sú að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson ætti að vera hér og hann ætti að vera stuðningsmaður þess að þessir fjármunir a.m.k. að einhverju leyti væru settir í Lífeyrissjóð sjómanna. Hann montar sig af því á tyllidögum að vera mikill stuðningsmaður sjómanna og taka þeirra málstað hér og á sjómannadaginn er hann ,,fír og flamme``. En hvar er hann í svona tilvikum? Hann sést ekki þó að hér hafi komið fram hugmyndir um svona lagað. Þær komu fram í sjútvn., samtök sjómanna minntu m.a. á sinn lífeyrissjóð þegar þeir heimsóttu nefndina.
    Nei, því er ekki að heilsa. Það er búið að lemja þetta allt saman niður, hæstv. fjmrh. skal fá sínar 200 millj. í kassann hvað sem tautar og raular, hvernig sem þeirra er aflað og hvernig sem þeir eru tilkomnir. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt.
    Eitt af því versta, hæstv. forseti, við þetta mál eins og það ber að okkur er sú staðreynd að þetta er undirstrikun þess, einhver sú allra skýrasta sem við höfum verið með hér í höndunum, að ríkisstjórnin er gersamlega stefnulaus í þessum málum. Það vottar ekki fyrir einhverri framtíðarsýn um það hvernig ríkisstjórn Íslands, atvinnuleysisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, ætlar að hafa þessa hluti til frambúðar.
    Hvar er framtíðarstefna hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar varðandi sveiflujöfnun eða afkomujöfnun í sjávarútvegi? Hvar er hún? Hún er ekki til. Hann segir bara pass, skilar auðu. Ég vil bara fella lögin um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins úr gildi og svo sjáum við til, svo hefur þetta sinn gang, svo lifum við frá degi til dags eins og stjórnin hefur yfirleitt gert í þessum efnum. Hæstv. forseti. Er sjútvrh. sofnaður? Ætli hægt sé að kanna það hvort hann hafi farið heim og lagt sig eða eitthvað annað.
    ( Forseti (VS): Hæstv. sjútvrh. er í þinghúsinu og forseti mun gera ráðstafanir til þess að fá hann í þingsalinn.)
    Mér finnst það satt best að segja algert lágmark að hæstv. sjútvrh. --- mér liggur við að segja, með þínu leyfi, forseti --- bjálfist til að vera hérna í salnum einn stjórnarliða. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á að . . .  
    ( Forseti (VS): Forseti gerir athugasemd við þetta orðalag.)
    Já, enda hikaði ég við að nota það. En ég segi það samt í fullri alvöru að mér finnst það algert lágmark að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur. Okkur er sagt að það séu tveir stjórnarliðar í þinghúsinu og þá er væntanlega hæstv. sjútvrh. annar þeirra. Hann hefur verið talinn stuðningsmaður stjórnarinnar þó einstöku menn hafi látið sér detta í hug að hann væri stundum svolítið blendinn í trúnni en það er annað mál. Það væri gaman að vita hver hinn er. Hver er hinn stjórnarliðinn sem er skráður í hús? ( Gripið fram í: Árni Mathiesen.) Það er merkismaður. Við verðum auðvitað að votta honum virðingu okkar að hann skuli vera viðstaddur.
    Þetta er heldur dapurlegt, hæstv. forseti, allt saman. Þar sem ég var að byrja ræðu og ætlaði þess vegna að hafa hæstv. sjútvrh. einhvers staðar nærstaddan, var að þetta mál er kannski einhver skýrasta undirstrikun á því sem við höfum lengi haft í höndunum að ríkisstjórnin er gersamlega stefnulaus í þessum efnum. Hæstv. sjútvrh. þar með talinn, ætti náttúrlega að vera sá sem færi fyrir í því að móta hér einhverja stefnu. Hvar er stefna atvinnuleysisstjórnar hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar í þessum málum? Hvaða framtíðarplön hefur ríkisstjórnin um að stjórna jafnvægi íslenskra efnahagsmála, að sveiflujafna í íslensku efnahagslífi? Hvar eru þau? Hvar liggja þau? Upp á hvað er boðið? Fella Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins niður, leggja hann niður og sjá svo til. Þó er það þannig að allar helstu efnahagsstofnanirnar ráða eindregið frá því að gera þetta fyrr en búið er að ákveða hvað komi í staðinn. Þær benda jafnframt á að það sé ekkert einfalt mál að sjá hvað það eigi þá að vera.
    Þetta er auðvitað alveg furðuleg frammistaða, hæstv. sjútvrh., alveg ótrúleg. Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir því hvernig hann sér fyrir sér að sveiflujöfnun og afkomujöfnun verði fyrir komið í sjávarútveginum í kjölfarið á því að svona breytingar eru gerðar. Er hann svona gersamlega ósammála Þjóðhagsstofnun, Seðlabankanum og öðrum slíkum aðilum? Hefur hæstv. sjútvrh. einhver snilldarráð á hendi sem þeim yfirsést öllum, til að mynda öllum helstu sérfræðingum landsins í þessum efnum sem starfa í Seðlabankanum og hafa haft yfirumsjón með þessum málum undanfarna áratugi og hafa það jafnframt sem lögbundið hlutverk að eiga að tryggja hér stöðugleika, gengisfestu og annað því um líkt? Eru þeir svona gersamlega heillum horfnir og úti að aka að það sé ekkert mark á þeim takandi? Ég held að þeir ættu þá að fá sér eitthvað annað að gera? Verður þá ekki að skipta um áhöfn þarna uppi í Seðlabanka? Það að vísu stendur til einhver endurmönnun þar en ég veit ekki hvort það sé alveg öruggt að hún heppnist svo vel að þar verði . . .  ( Sjútvrh.: . . .   hefur meira traust á ríkisstjórninni en Seðlabankanum.) Ég er bara að spyrja, hæstv. sjútvrh., um þær mótsagnir sem í þessu máli birtast. Er það ekki þannig að í 2. eða 3. gr. seðlabankalaganna standi eitthvað um það að bankinn skuli vera ríkisstjórn til ráðuneytis og Seðlabankinn skuli umfram allt vera trúr þeim markmiðum að varðveita hér stöðugleika og ríkisfestu? Mig minnir það. En er það þá bara ekkert að marka? Kemur honum þá ekkert við mál af þessu tagi? Og á þó í hlut sú atvinnugrein sem skaffar 80% gjaldeyristekna. Og er það þá bara ekkert mál? Er það bara grín þó að þeir leggist gegn því að þetta sé fellt niður?
    Ég skil satt best að segja ekki almennilega hvað veldur því að hæstv. ríkisstjórn hangir svona á þessu. Mér finnst það alveg með ólíkindum ef það er svo sem manni býður í grun að það hafi verið ákveðið í einhverju bríaríi, niðurskurðarfári þegar verið er að rimpa saman fjárlögunum, að þarna væri hægt að krækja í 200 millj. í ríkissjóð og það skipti þá máli og það ráði ferðinni. Finnst hæstv. sjútvrh. þetta engin niðurlæging fyrir sig? Eða er það þannig að hæstv. fjmrh. eigi að segja hæstv. sjútvrh. fyrir verkum í svona löguðu? Ég spyr. Ég bara fæ ekki botn í það hvernig í ósköpunum stendur á því að hæstv. sjútvrh. stillir sér svona upp í málinu. Ég bara skil það ekki. Það er alveg furðulegt. Ég held að við verðum að fá einhver svör um þetta, hæstv. forseti, frá hæstv. sjútvrh. hvernig þeir sjái það fyrir sér að þetta verði haft.
    Ég vil líka spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort hann væri tilbúinn til að það yrði skoðað, t.d. milli 2. og 3. umr. að sjútvn. velti upp þeim möguleika og skoðaði að flytja frekar ákvæði til bráðabirgða við lögin, leyfa þeim að halda gildi sínu en flytja ákvæði til bráðabirgða um að þau skuli vera óvirk, það skuli engar inngreiðslur og útgreiðslur verða úr sjóðnum ef svo ber undir, t.d. á 18 mánaða tímabili. Og það 18 mánaða tímabil yrði tekið í að vinna það verk sem menn eru að tala um að þurfi að vinna en hafa engan botn fengið í, þ.e. fara með tæmandi hætti í gegnum það hvort sú leið með einhvers konar innri sveiflujöfnun í fyrirtækjunum sé fær og skili einhverjum árangri eða hvort það sé þannig, eins og allar fyrri tilraunir manna til að útfæra hana hafa á endanum falið í sér, að menn hafi gefist upp. Menn hafi ósköp einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að það næði ekki tilgangi sínum, þjónaði ekki neinum markmiðum að fara að eyrnamerkja einhverri sveiflujöfnun innstæður á reikningum fyrirtækjanna sem væru geymdar í þeirra viðskiptabönkum, teldust til þeirra eigin fjár og efnahags og mynduðu stofn hjá fyrirtækjunum til þess að slá lán o.s.frv. ef svo bæri undir. Mér finnst, hæstv. sjútvrh., að við þurfum að hljóta að fara yfir þetta mál og ræða það. Og ef ekkert kemur fram um það hvað eigi að taka við, þá er það alveg yfirgengilegt að ætla að afgreiða málið svona.
    Ég vil að hæstv. sjútvrh. svari því hvort hann sé tilbúinn til að láta það gott heita að sjútvn. líti á þetta svona með þessu hugarfari. Við fengum engin slík skilaboð. Okkur var bara sagt að stjórnin vildi afgreiða þetta, hæstv. fjmrh. vildi fá peningana og þetta skyldi út úr nefndinni. Það var aldrei minnst neitt á hæstv. sjútvrh. í þessu máli, bara eins og hann væri ekki til og kannski er það þannig að hann er ekki til í þessu máli nema bara af formsástæðum. Af formsástæðum verði hann að flytja frv. fyrir hæstv. fjmrh. af því að Verðjöfnunarsjóðurinn er samkvæmt stjórnarráðslögunun málefni sjávarútvegsins og heyrir undir hæstv. sjútvrh. Ég hef enga aðra skýringu fundið sem ég tek neitt mark á en að það sé græðgin í þessa peninga og græðgin ein sem reki hæstv. ríkisstjórn áfram út á þessa ógæfubraut þvert gegn ráðleggingum og skoðunum og áliti allra helstu sérfræðinga þjóðarinnar á sviði efnahagsmála og atvinnumála.
    Að bera það fyrir sig að vegna þess að ekki sé almenn ánægja og hamingja í greininni með starfrækslu verðjöfnunarkerfisins nú eða hafi verið áður og þess vegna þýði ekkert nema hætta þessu er dálítið skrýtið satt best að segja. Hv. formaður sjútvn., hv. þm. Matthías Bjarnason, notar þetta sem aðalröksemdina. Hann er stuðningsmaður verðjöfnunar í sjávarútvegi. Það hefur margoft komið fram í ræðum hér og í sjútvn. En hann segir þetta: Af því að útvegsmenn eru á móti þessu og eru ekki sáttir við þetta þá þýðir ekkert annað en hætta þessu.
    Hvernig skyldi þetta hafa verið þegar viðreisn kom þessu á á sínum tíma? Og hvernig skyldi þetta

hafa verið í gegnum 25 ára sögu verðjöfnunar í sjávarútvegi? Ætli það sé ekki þannig að menn hafi alltaf verið eitthvað að nöldra yfir þessu, a.m.k. þegar þurfti að borga inn. Svo voru þeir oft fegnir þegar þeir fengu peninginn. Það var t.d. óvenjulítið um mótmæli í íslenska sjávarútveginum seinni hluta ársins 1992. Ég man ekki eftir því að Kristján Ragnarsson hafi komið í sjónvarpið og kvartað alveg sérstaklega yfir Verðjöfnunarsjóðnum meðan 3.000 millj. kr. voru að streyma út úr honum til sjávarútvegsfyrirtækja. Reyndar ekki inn til þeirra því að þetta fór í afborganir og skuldajöfnun en kom þeim til góða samt. Þá held ég að menn hafi ekki verið mikið að mótmæla. En menn nöldruðu á árunum 1990 og 1991 meðan var verið að borga inn og þannig mun það auðvitað verða áfram. Menn verða nöldrandi ef þeir þurfa að láta eitthvað af peningunum sem þeir gætu annars fengið í svona sjóð. Það er miklu meira gaman að mega bara fá þetta í hendur og það er allt skiljanlegt. En auðvitað skilja menn þetta. Þegar menn komast aðeins upp úr hjólförum sinna eigin þrengstu hagsmuna þá skilja þeir að það er öllum fyrir bestu að reyna að taka á málunum. --- Ég býð hv. þm. Árna Mathiesen velkominn. Hann heiðrar okkur hér með nærveru sinni, annar stjórnarliðinn sem hér sést í kvöld. Ég sé ástæðu til að koma því inn í þingtíðindin að hér eru nú hvorki meira né minna en tveir stjórnarliðar í salnum og það er algert nýmæli frá því sem verið hefur í kvöld. ( Gripið fram í: Það eru heldur ekki fleiri í húsinu.) Nei, þeir eru þá líka upp taldir og væntanlega ekki von á fleirum.
    Hæstv. forseti. Það hefði verið gaman út af fyrir sig að hv. 1. þm. Vestf. hefði verið viðstaddur umræðuna því að hann sem þingreyndur maður og fyrrv. sjútvrh. og maður með miklar skoðanir oft á málefnum þeirrar atvinnugreinar þekkir vel til þeirrar hliðar sem snýr að því að nauðsynlegt er að geta með einhverjum hætti mætt þeim miklu sveiflum sem ganga yfir þessa atvinnugrein, eru náttúrlega alveg óhjákvæmilegur fylgifiskur hennar og hafa þar með sín miklu áhrif á allt íslenskt efnahagslíf. En af einhverjum ástæðum hefur hann tekið þátt í því að ýta þessu máli áfram og það veldur mér vonbrigðum. Það veldur mér miklum vonbrigðum.
    Ég hafði reyndar hugsað mér, hæstv. forseti, að gera í lokin smáúttekt á frammistöðu ríkisstjórnarinnar almennt í þessum sjávarútvegsmálum. En það er farið að líða dálítið á kvöldið og ég veit ekki hvað ég á að þreyta menn með miklum ræðuhöldum um það. ( JGS: Þú hefur í það 50 mínútur.) Ég hef smástund, fram að miðnætti, það er rétt. Það hefur leitað svolítið á huga minn síðustu daga að nú sígur sem betur fer og allir fagna mjög á síðari hluta þessa kjörtímabils. Bjartsýnir menn spá því kampakátir að því muni ljúka í haust. Ég tek það fram að það eru ekki mínar spár en þetta hef ég heyrt. Ef svo skyldi fara, sem guð láti gott á vita, að ekku væru nema nokkrir mánuðir eftir af starfstíma ríkisstjórnarinnar og þetta væri síðasta þingið sem haldið yrði undir atvinnuleysisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, þá fer að verða tímabært að velta því aðeins fyrir sér: Hver er nú uppskeran? Hverju hefur ríkisstjórnin áorkað, t.d. hæstv. sjútvrh.? Hvar er uppskera hans? Það er kannski ekki alveg útséð um það enn þá hvað verður á næstu dögum eða það sem eftir lifir þessa þinghalds, en enn sem komið er er það nú harla magurt satt best að segja og ótrúlega lítið sem ríkisstjórnin hefur, sumir segja sem betur fer, framkvæmt af því sem hún ætlaði sér eða talaði um að hún mundi gera samkvæmt stjórnarsamningi eða yfirlýsingum á fyrstu dögum.
    Mest af því sem ríkisstjórnin hefur verið að baksa við í þessum efnum hefur haft tilhneigingu til að snúast upp í einhvers konar harmleikakennda farsa. Heita það ekki ,,tragikómedíur`` á útlendum málum, ef hér eru einhverjir menn vel að sér í bókmenntum sem gætu staðfest það? ( Sjútvrh.: Skírt það upp á íslensku.) Já. Svona grátbroslegir atburðir eða grátbrosleg atburðarás. Ef við tökum t.d. hvernig ríkisstjórnin hefur vandræðast með veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs, þá er það alveg dæmigert mál. Búvörudeiluna þekkir öll þjóðin. Hún er dæmigerð ,,tragikómedía``. Þyrlumálið. ( JGS: Kómedía.) Nei, hún er dapurleg líka. Þyrlumálið. Ég mundi jafnvel bæta við t.d. hinum einstæða málatilbúnaði varðandi Vestfirði og þessu frv. Það er alveg grátbroslegt að sjá þennan málatilbúnað hér og er reyndar þegar orðinn skrípaleikur. T.d. var gert ráð fyrir þessum peningum í síðustu fjárlögum. Það varð aldrei neitt úr því. Og það er kostulegt að lesa greinargerð með síðasta fjárlagafrv. í ljósi þess sem við erum að ræða hér og nú þegar komið er langt fram í apríl 1994.
    Hins vegar er ekki gert ráð fyrir þessum peningum, ef ég man rétt, sérstaklega á fjárlögum yfirstandandi árs svo skrýtið sem það nú er. A.m.k. lá það mál þannig í desember þegar við vorum að skoða það.
    Þannig er það, hæstv. forseti, að þessi mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að baksa með í sjávarútvegsmálum, efnahags- og atvinnumálum, hafa meira og minna endað í langdregnum, grátbroslegum försum. Hver vitleysan og endaleysan á fætur annarri þannig að það tekur engu tali. Ein ástæðan er náttúrlega sú að stjórnin hefur aldrei komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Menn hafa verið þar alveg eins og hundur og köttur í hverju málinu á fætur öðru og auðvitað eru það ekki aðstæður til að vinna að framgangi neinna mála. Það er manni alveg ljóst. Og auðvitað hefur maður haft samúð með ýmsum einstökum hæstv. ráðherrum í því sambandi út af fyrir sig, en þeir bera ábyrgðina engu að síður að sitja í þessari súpu, láta hvert árið líða á fætur öðru þar sem ekkert er gert og uppskeran er jafnraunalega rýr og raun ber vitni. E.t.v. hillir undir það núna að frv. til endurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða nái einhverri lágmarksafgreiðslu, trúlega þá svona 28. apríl eða svo 1994. Því átti að ljúka í desember 1992, í síðasta lagi. Þannig er það og það þætti víða nokkuð mikill dráttur á verktöku t.d. sem er nú í tísku ef þetta hefði verið boðið út, þá er ég hræddur um að dagsektirnar væru orðnar háar hjá hæstv. ríkisstjórn að vera

að slefa þessu frá sér í lok aprílmánaðar ef hún nær því að koma því í land, auðvitað með harmkvælum eða minni háttar plástrum á þetta kerfi sem fyrst og fremst er þá til þess fallið að lægja eitthvað öldur óánægjunnar sem kringum það rísa.
    Þannig er þetta nú, hæstv. forseti, og mætti auðvitað ýmislegt um þetta segja en ég ætla að fara að láta hér staðar numið. Mér fannst kominn tími á það eins og maður segir að gera smáyfirferð á því hvernig ríkisstjórninni hefur vegnað í þessum málum á sínum starfstíma. Það er raunaleg saga svo ekki sé meira sagt.
    Að lokum set ég fram þá frómu ósk mína að menn hugsi alvarlega sinn gang hvort sem það verður hér á eftir, í nótt, á morgun eða næstu daga hvort það er ekki hægt að ná samkomulagi um að láta þetta mál liggja, a.m.k. afgreiða það ekki í þessari mynd að fella lögin úr gildi. Gera þau óvirk frekar með einhverjum öðrum hætti. Ég held að ef menn á annað borð hafa einhvern áhuga á því að ræða hérna einhverja skynsamlega lendingu á málum almennt, þá hljóti menn að taka pappíra af þessu tagi inn í þá mynd og til skoðunar. Og hvers vegna finnst mér eðlilegt og sanngjarnt að gera það? Það er í fyrsta lagi vegna þess að öll stjórnarandstaðan leggst eindregið gegn afgreiðslu þessa plaggs. En hún er ekki ein á ferðinni. Hún hefur stuðning allra helstu sérfræðistofnana og heildarsamtaka annarra en þá hagsmunaaðilanna í sjávarútvegi fyrir því sjónarmiði. Það er því ekki eins og það sé greiði við þessa 26 eða hvað þeir nú eru þingmenn sem skipa stjórnarandstöðuna eina og sér. Ég held að það sé bara einfaldlega þannig að það séu mjög sterk rök fyrir því að gera það sem njóti víðtæks stuðnings úti í þjóðfélaginu og hæstv. ríkisstjórn væri það sjálfri fyrir bestu að hugleiða það mjög vandlega hvort hún ætti nú ekki, ef hún gæti þá í leiðinni liðkað eitthvað fyrir skynsamlegri lendingu mála hér, að taka þá til skoðunar að vera ekki að þráast við með fullkomlega óþarft og meira en óþarft mál af þessu tagi.