Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

132. fundur
Fimmtudaginn 14. apríl 1994, kl. 23:13:42 (6368)


[23:13]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það veldur mér ákveðnum vonbrigðum að ég hafi þurft að hlaupa svona snögglega upp í ræðustól núna. Ég hafði gert mér vonir um að hv. 4. þm. og samþingmaður minn í Norðurl. e. ætti eftir nokkuð af sinni ræðu ( Gripið fram í: Það þraut ræðuna.) ( SJS: Seinni ræðan er eftir.) en hann á seinni ræðuna eftir.
    Virðulegur forseti. Ég hafði í upphafi þessarar umræðu ekki hugsað mér að halda hér ræðu. En eftir að ég fór að fletta þingskjölum og hafði áttað mig á því að nánast öll stærstu hagsmunasamtökin í íslensku atvinnulífi, verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur, samtök iðnrekenda, Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun vara mjög harðlega við því að þetta skref sé stigið sem nú er verið að stíga eða ríkisstjórnin ætlar að stíga, en ég hlýt að gera mér vonir um að takist að koma í veg fyrir, þá hlýtur maður að spyrja: Hvað er að gerast? Og það næsta sem vaknaði í mínum huga var þetta: Það hlýtur þá að vera þannig að mennirnir hafi eitthvað annað í bakhöndina og þeir séu búnir að leggja niður fyrir sér hvað eigi að koma í staðinn til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Ég hef því spurt stjórnarliða í hliðarsölum og göngum hvað eigi að koma í staðinn. Það eru engin svör. Og ég hlýt að varpa þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh.: Hvað á að koma í staðinn? Því að eitt eru allir þessir aðilar sammála um: Það verður að vera einhver sveiflujöfnun í okkar sveiflukennda atvinnulífi. Svörin eru eitthvað á þá leið að það verði að byrja þetta alveg frá nýjum grunni, það verði að beita nýjum og ferskum aðferðum, en það virðist enginn geta svarað því hvaða aðferðir það eigi að vera. Hér stendur maður því og spyr: Hverju á þetta að sæta? Hvernig ætla menn að bregðast við?
    Manni verður það fyrst á að hugsa: Er meiningin að jafna þetta út með gengissveiflu? Með hækkun gengis á þeim tímum þegar vel gengur í sjávarútvegi? Svarið við þessu hlýtur að vera nei því að það getur ekki verið að menn ætli á þann hátt að láta uppsveifluna í sjávarútveginum ganga út yfir aðrar atvinnugreinar. Ég trúi því ekki að það sé meiningin að láta söguna frá miðjum og fyrri hluta síðasta áratugs endurtaka sig þar sem hækkað og hátt raungengi krónunnar gerði það að verkum að ýmsum greinum iðnaðar blæddi út á örfáum árum. Þetta getur ekki verið meiningin í dag á þeim grunni sem lagður var í tíð fyrri ríkisstjórnar með þjóðarsáttarsamningunum og þeim stöðugleika sem síðan hefur vissulega ríkt að nokkru leyti í íslensku efnahagslífi. Það getur ekki verið að það sé meining manna að eyðileggja þann árangur fyrir 200 millj. í ríkissjóð á árinu 1994.
    Þá verður manni næst á að spyrja: Stendur til að jafna þetta út með veiðileyfagjaldi, með auðlindaskatti? Er hægt að hugsa sér að þetta óskabarn kratanna verði notað til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi? Sjá menn það fyrir sér að það verði hægt að vera með í gangi breytilegt verðjöfnunargjald eftir því hvernig kaupin ganga á eyrinni í sjávarútveginum og jafna sveiflurnar út á þann hátt? Það getur vel verið að einhverjir hugsi á þann hátt. En við skulum aðeins skoða það dæmi betur. Hvernig kæmi það út fyrir ríkissjóð því að væntanlega reikna menn með að þessar tekjur renni í ríkissjóð? Það mundi þýða það að tekjur ríkissjóðs mundu lækka á samdráttartímum og hækka samsvarandi þegar þensla ríkti í þjóðfélaginu. Það getur vel verið að einhverjum fyndist að þetta væri bara allt í lagi. En hvernig kemur þetta út miðað við aðrar hagfræðikenningar sem segja okkur það að það sé skynsamleg hagfræði að ríkið dragi úr sínum umsvifum þegar þensla er í þjóðfélaginu en auki þau að einhverju leyti í lægðinni og menn beiti þannig í raun

ríkissjóði til þess að draga úr sveiflunum? En ef menn ætluðu að fara þessa leið með mishátt veiðileyfagjald til þess að draga úr hagsveiflum sem stafa m.a. af misháu hitastigi sjávarins þá eru menn farnir að vinna þvert á móti þessari stefnu og manni verður þá næst á að spyrja: Er þá meiningin að hækka aðra skatta þegar samdráttur er í þjóðfélaginu á sama tíma og tekjur einstaklinganna væru að dragast saman? Ég hef ekki trú á að menn hugsi sér það. Ég held að það væri pólitískt algerlega ófær leið þannig að þá stæði bara eftir að menn yrðu að jafna þetta út með mikilli lántöku ríkissjóðs á móti þessum sveiflum.
    Ég dreg þá niðurstöðu af þessum hugleiðingum mínum og tek ég þá enga efnislega afstöðu í þessum málum til veiðileyfagjalds, mín afstaða er reyndar ljós hvað það snertir að ég tel að við núverandi aðstæður sé það fráleitt, en af þessu hlýt ég hins vegar að draga þá ályktun að jafnvel þó að óskabarn kratanna kæmist til framkvæmda, veiðileyfagjaldið, þá væri eftir sem áður full nauðsyn á að hafa tæki eins og Verðjöfnunarsjóðinn til þess að draga úr sveiflum sem stafa af því hvað þessi aðalatvinnuvegur okkar er sveiflukenndur og það af náttúrulegum ástæðum sem við ráðum illa við. Þetta gæti gengið upp ef menn væru að leggja auðlindaskatt á auðlind sem væri þekkt og mæld, ef það væri námugröftur, og menn gætu áætlað fram í tímann nákvæmlega hvað þeir ætluðu að taka á hverju ári og sjálfsagt nánast í hverjum mánuði. Mér sýnist því augljóst út frá þessu að menn hafi ekki eina einustu hugmynd um hvað þeir ætla að láta taka við og það eigi bara að láta skeika að sköpuðu.
    Þetta leiðir síðan hugann að umræðu um sjávarútvegsmál á þessu kjörtímabili sem hefur einkennst af stöðugum vandræðagangi og kannski því öðru fremur að þar hefur ekkert samkomulag verið milli stjórnarflokkanna frekar en á öðrum sviðum og er okkur þó sagt að það sé búið að leggja í mikla vinnu. Alþfl. hefur haldið sig við þá stefnu að þetta mál ætti að leysa með auðlindaskatti. Þeir hafa hins vegar ekki útfært þá leið á nokkurn hátt. Þeir hafa á sama tíma sagt að núverandi kerfi sé byggðafjandsamlegt, það færi aflaheimildirnar á stöðugt færri hendur og oft og tíðum hafa menn uppi stór orð um sægreifa og önnur orð þaðan af verri. Nú er ég ekki að segja að orðið ,,sægreifi`` sé út af fyrir sig slæmt en það hefur verið notað í neikvæðri merkingu og önnur orð þaðan af verri um duglega athafnamenn sem hafa á síðustu árum byggt upp sín fyrirtæki.
    Ég hlýt að spyrja fulltrúa Alþfl. í þessari umræðu --- og nú ber verra við því ég sé það að hér í þingsalnum er enginn alþýðuflokksmaður og síðast þegar ég leit á töfluna var enginn alþýðuflokksmaður í húsinu. Ég hlýt að spyrja virðulegan forseta hvort hafi verið ráðin bót á því.
    ( Forseti (VS): Forseti getur svarað því að það mun ekki vera.)
    Já, það mun svo vera, það er enginn alþýðuflokksmaður í húsinu. Þá er eftir sá möguleiki að einhverjir þingmenn Alþfl. sem ekki leggja í að vera við þessa umræðu og ætla hæstv. sjútvrh. og hv. 3. þm. Reykn. að bera þessa umræðu uppi og koma þessu máli í gegn fyrir stjórnarflokkana, það getur verið að einhverjir alþýðuflokksmenn horfi á þessa umræðu á Sýn og ég mun því halda ræðu minni áfram hvað snertir viðhorf þeirra.
    Alþfl. skuldar okkur skýringar á því hvernig auðlindaskatturinn á að bæta úr þeim vanköntum sem þeir telja vera á núverandi kerfi og ég nefndi hér áðan. Þeir skulda okkur skýringar á því hvernig auðlindaskatturinn á að koma í veg fyrir að það verði hrun í einstökum byggðarlögum og hvernig hann á að koma í veg fyrir það að aflaheimildirnar og rétturinn til að sækja í sjóinn færist á færri hendur. Ég er þeirrar skoðunar og ég byggi það m.a. á því að meðan við búum við eins takmarkaða auðlind og nú er þá hljóti auðlindaskatturinn að byggjast á aflamarkskerfi og ég er þeirrar skoðunar að ef það ætti eingöngu að ráðast af því hver gæti boðið hæst í þann pott sem væri boðinn upp hjá ríkinu einu sinni á ári eða sjaldnar þá sé það alveg augljóst að það muni flýta en ekki seinka þeirri þróun að aflamarkið færist á færri hendur.
    Alþfl. segir einnig að smábátaútgerð sé sú hagkvæmasta og það beri að hlúa að henni. Landssamband smábátaeigenda er aftur á þeirri skoðun að þeir geti við núverandi kerfi engan veginn keppt við stærri aðilana og hvernig í ósköpunum ættu þeir þá að geta gert það eftir að það verður ekkert annað heldur en það hver getur á einhverju árabili boðið hæst í aðganginn að miðunum? Staðreynd málsins er nefnilega sú að við núverandi kerfi hafa menn þá vörn að þeir ráða yfir sínu aflamarki og það getur í raun enginn tekið það af þeim nauðugum. Vissulega horfi ég fram hjá því að upp geta komið þær aðstæður hjá einstaklingum og fyrirtækjum rekstrarlega að menn sjái ekki aðra leið en selja sitt aflamark. En það sem ég er að reyna að rökstyðja hér er það að við núverandi kerfi hafi menn þó ákveðna vörn og að oft og tíðum sé það þannig að það að menn fá þessum aflaheimildum úthlutað, einstakir útgerðarmenn og einstakar byggðir, það geti reynst mönnum nokkur vörn gagnvart því sem annars væri.
    Ég vil einnig benda á að það er ekkert nýtt og það kom ekki til með kvótakerfinu að einstakar byggðir töpuðu að verulegu leyti lífsbjörginni vegna þess að fyrirtækið færi á hausinn, þyrftu að selja frá sér skip eða þá hitt að útgerðarmenn einfaldlega flyttu á milli landshluta auk þess sem sú staða er nú komin upp, sem allir vita sem fylgjast með, að landið er í raun allt orðið ein verstöð, sá afli sem landað er á Suðurnesjum, það er undir hælinn lagt hvort hann er unninn þar, norður á Sauðárkróki, Siglufirði eða Dalvík svo að ég nefni einhver dæmi.
    Þá hefur það einnig komið fram hjá talsmönnum veiðileyfagjalds, þeim sem eitthvað hafa lagt á sig til að hugsa áhrif þess að við núverandi aðstæður væri ekki hægt að setja það á nema samhliða og í upphafi kæmi nokkuð stór gengisfelling. Það leiðir aftur hugann að því hvers konar hagstjórnartæki gengisfellingar eru og ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti, að með árunum verð ég sífellt minni aðdáandi gengisfellingar sem hagstjórnartækis, tel til að mynda að sú gengisfelling sem gerð var á síðasta ári hafi runnið út í sandinn á ótrúlega skömmum tíma. Staðreyndin er nefnilega sú að gengisfellingar jafnast út á lengri eða skemmri tíma og það er ekki hægt að hugsa sér stóra gengisfellingu sem varanlegt hagstjórnartæki til þess að jafna út skilyrði auk þess sem skuldastaða sjávarútvegsins er slík um þessar mundir að það er nokkuð ljóst að um nokkurt árabil mundi bætt afkoma í sjávarútvegi fara að nokkru leyti í að greiða niður skuldir.
    Það er komið hér fram að útvegsmenn séu á móti Verðjöfnunarsjóði og það séu rökin fyrir því að menn vilji fella hann niður. Það er eflaust rétt að einhver hluti útvegsmanna, hreinna útgerðaraðila, sé á móti þessari aðgerð og vissulega eru þeir á móti þessari aðgerð. Að sjálfsögðu hugsar góður útvegsmaður númer eitt um hag síns fyrirtækis í þrengstu merkingu. Hann er e.t.v. ekkert að hugsa um það hvaða áhrif þetta kynni að hafa á viðkvæmar greinar eins og ferðaþjónustu eða útflutningsiðnað. Og það er heldur ekki hlutverk hagsmunasamtaka þeirra að gera það. En það er hins vegar hlutverk stjórnmálamanna að gera það og þar er hæstv. núv. ríkisstjórn að bregðast. Alþingi og ríkisstjórn ber í þessu máli að hlusta á varnaðarorð Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar. Ég hef að vísu ekki langan þingferil að baki en ég minnist þess ekki áður að hafa séð stjfrv. sem hefur fengið sömu viðtökur hjá öllum þessum stærstu hagsmunaaðilum en sem á engu að síður að knýja í gegn. Og ég hef því miður grun um að hæstv. ríkisstjórn sé hætt að hlusta á þessa ráðgjafa sína.
    Það kom fram á fundi hjá efh.- og viðskn. í morgun um frv. um stækkun atvinnusvæða á Vestfjörðum að það hafi ekkert verið hlustað á forstjóra Þjóðhagsstofnunar hvað það snertir. ( Sjútvrh.: En ef Seðlabankinn vill hækka vexti, eigum við þá að hlusta á hann?) Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra spyr hvort eigi að hlusta á Seðlabankann þegar hann vill að vextir séu hækkaðir. Það hlýtur að fara eftir aðstæðum á hverjum tíma og því miður, hæstv. ráðherra, ef við skoðum síðustu ár, þá var það nú ekki á Seðlabankanum sem strandaði varðandi vaxtalækkun. Ef ég man rétt, þá var það fyrst og fremst viðskrh. sem sat í þeim stóli um 6 ára tímabil sem var harðasti talsmaður þess að það bæri að halda uppi vöxtum. ( Sjútvrh.: Það fer eftir aðstæðum hvort það á að hlusta.) Það fer ekki eftir aðstæðum og allan þann tíma talaði ég með vaxtalækkun. En ég tel, hæstv. ráðherra, að þegar varnaðarorð allra þessara aðila fara saman, verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, samtaka iðnaðarins, Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, þá eigi að hlusta. Ég hygg reyndar líka að meiri hluti þessara samtaka sem ég nefndi hafi öll undanfarin ár sagt að það bæri og það ætti að lækka vexti og það hefði átt að hlusta á samnefnara þeirrar raddar þannig að ég tel að frammíkall hæstv. ráðherra falli í raun um sjálft sig.
    Eins og kom fram hér áðan þá sá forstjóri Þjóðhagsstofnunar enga glóru í því frv. sem hafði verið lagt fram um sérstaka aðstoð til Vestfjarða og taldi að það væru engin gögn, það lægju ekki frammi nokkur opinber gögn sem bentu til að til þess væri ástæða. Það er kannski það eina góða við það frv. að það er ekkert í því --- og ég hef nú reyndar trú á því að ég deili þessari skoðun með hæstv. sjútvrh. þannig að samþykkt þess skipti engu til né frá. En það er hins vegar alveg ljóst að þær aðgerðir þó smáar séu eru sértækar af öllu því sértæka sem við höfum séð hér á hinu háa Alþingi því aðgerðin er bundin við einn landshluta, hún er bundin við það að fyrirtæki sameinist og hún er bundin við það að þau séu í sveitarfélögum sem einnig sameinist. En við urðum þess hins vegar áskynja í efh.- og viðskn. þegar við fórum vestur á firði að þar sjá menn e.t.v. við þessari sameiningarumræðu og þau sveitarfélög sem sjá fram á að þau þurfi að sameinast öðru til að geta notið framlags sjái sér þann leik á borði að þau velji sér hvert einn hrepp í Djúpi til þess að sameinast. Lengst mun það vera komið með Hólmavík. Þar eru uppi umræður um sameiningu við innsta hreppinn í Djúpinu, sem ég man nú ekki nafnið á í augnablikinu, ( JónK: Nauteyrarhreppur.) Nauteyrarhrepp. Vestfirðingar hafa alla tíð verið ráðagóðir og þeir munu væntanlega sjá við þessu.
    Ég er hins vegar ekki að segja að það verðjöfnunarkerfi sem hér var í gangi síðast hafi verið heilagt og þar hafi ekki einhverju mátt breyta. Ég sá dæmi þess, það var fyrsta verk sem ég sinnti eftir að ég var kosinn á þing á þessu kjörtímabili að ég var á sumrinu 1991 boðaður á fund norður á Blönduós með öðrum þingmönnum, við vorum reyndar ekki nema tveir sem mættum, til þess að ræða um vanda rækjuvinnslunnar sem taldi sig þá vera í miklum vanda þó svo ég hyggi að þeir teldu sig nokkuð góða í dag ef þeir hefðu búið við þau verð sem þá voru uppi. En mér var eiginlega mest brugðið þegar ég sá hvernig hafði verið farið með öflugan Verðjöfnunarsjóð sem hafði verið byggður upp á miðjum 9. áratugnum. Þá voru reglurnar þannig, nú man ég ekki ártölin nákvæmlega, en einhvern tíma í kringum 1985 var rækjuverð geysihátt og það voru teknar drjúgar upphæðir í verðmiðlunarsjóð. Síðan á árunum 1988--1989 lækkaði verð niður fyrir þau viðmiðunarmörk að ætti að fara að greiða út. Niðurstaðan varð sú að áður en í raun fór nokkuð að halla undan fæti í greininni miðað við það sem seinna var var búið að greiða Verðjöfnunarsjóðinn út að fullu.
    Að sjálfsögðu mega svona hlutir ekki koma fyrir og það verður að byggja sjóðinn upp þannig að hann þjóni betur tilgangi sínum og ég tel reyndar að þar höfum við verið búnir að stíga ákveðin skref. Það var búið að hreinsa mikið til í þessu sjóðakerfi og skilja þar eingöngu Verðjöfnunarsjóðinn eftir og binda hann við einstök fyrirtæki þannig að menn voru á réttri leið og það væri miklu skynsamlegra, hæstv. sjútvrh., að halda áfram á þeirri braut og þróa þetta sveiflujöfnunartæki sem allir eru sammála um að þurfi að

vera til staðar. Ég hlýt að varpa þeirri spurningu til stjórnarliðsins af því að það stendur nú allt saman hér við hlið ræðustólsins, standa hér allir tveir, ég hlýt að varpa þeirri spurningu til þeirra hvort þeir séu ekki sammála mér í því að við verðum að hafa sveiflujöfnunartæki í sjávarútveginum. Ég hygg í það minnsta ef maður má fara svo náið út í persónulega hagi einstakra þingmanna, ég hygg reyndar að mágur hv. 3. þm. Reykn., forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sé eindregið þeirrar skoðunar og reyndar kemur það fram í nefndaráliti sem hér hefur verið lagt fram.
    Að lokum örfá orð almennt um fiskveiðistefnuna á þessu kjörtímabili. Svona út í frá kemur það þannig út að það sé . . .  Virðulegi forseti. Það hefur rekið á fjörur mínar miða þar sem stendur að fundi verði slitið þegar ég ljúki ræðu minni og þá, virðulegur forseti, þá vil ég tilkynna það að þá hyggst ég ekki tala lengur en svona til tvö. En út á við . . .  ( JónK: Í nótt eða á morgun?) Það var ekki tilgreint. Út á við kemur þetta þannig út að ef Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, byrstir sig, þá skjálfi allt stjórnarliðið. Maðurinn enda stór og hraustur en það eru eiginlega nánast ótrúleg þau áhrif sem þessi samtök hafa á mótun sjávarútvegsstefnunnar vegna þess að á umliðnum árum hafa þau að mínu mati verið sjálfum sér verst og það hefði verið langsamlega heppilegast fyrir þá sem höfðu smábátaútgerð að sinni aðalatvinnu þegar kvótakerfið var sett á, það hefði verið langsamlega heppilegast fyrir þá að þeir hefðu farið undir aflamark þá þegar. Það eru þeir sem hafa verið þolendur þess stríðs sem maður hefur ekki alltaf vitað fyrir hvaða hagsmuni var barist eða gegn hverjum sem Landssamtök smábátaeigenda hafa haldið uppi á umliðnum árum. Enda hygg ég að það sé til þess að gera auðvelt fyrir fámennan hóp að ná þar öllum völdum og tala þar fyrir munn alls hópsins, enda stefnir í það núna í því frv. sem ríkisstjórnin lagði fram í vetur og það sem við höfum séð í blöðum um þær tillögur, sem nú er verið að vinna, að það stefnir í það að 21 þús. tonn af þorski verði sett í þann pott sem smábátunum verði síðan ætlað að takast á um. Og hvaðan er svo þetta 21 þúsund tonn af þorski tekið og hverjir njóta þess? Það er í stuttu máli þannig að þetta verður svo tekið af stærri skipum og togurum sem hafa hæst hlutfall af þorski. Það kemur þyngst niður á norðausturhluta landsins, að einhverju leyti Vestfjörðum. En hverjir njóta? Vegna staðhátta og sóknar verða það ekki smábátaeigendur á því landsvæði. Það verða smábátaeigendur á svæðinu frá sunnanverðum Vestfjörðum og að Reykjanesi.
    Nú segja menn: Þetta er allt í lagi því að þetta eru allt sægreifar sem eiga þennan þorskkvóta fyrir norðan og austan og það er allt í lagi að þeim blæði. En við skulum aðeins skoða það nánar.
    Það gæti nú verið að það kæmi við fleiri en sægreifana og mörg af þessum fyrirtækjum eru reyndar í almannaeigu, eru samvinnufélög, í meiri hluta bæjarfélaga svo að eitthvað sé tínt til. En menn gleyma þarna stærsta hópnum og ég hef stundum velt fyrir mér í þessari umræðu allri. Hvar eru talsmenn togarasjómanna? Hvers vegna heyrist ekki rödd þeirra í þessari umræðu? Menn gleyma því nefnilega að sjómennirnir á togurunum deila reyndar hlut með sægreifunum og það gleymist oft að þetta kemur við fleiri einstaklinga heldur en þá sem gera út smábáta. Þær skipta hundruðum fjölskyldurnar í Norðurl. e. einu sem eiga meiri hluta fjölskyldutekna sinna undir atvinnutekjum sjómanna á togurum og ég skora nú á talsmenn þessa hóps að láta nú til sín heyra varðandi þetta atriði, láta ekki endalaust kæfa þá umræðu með illa rökstuddum upphrópunum um sægreifa.
    Virðulegur forseti. Ég lýk nú máli mínu og ég vona að það valdi ekki sérstökum vonbrigðum að ég nota ekki þann tíma að fullu sem rætt hafði verið um að fundir stæðu í kvöld.