Lyfjaverslun ríkisins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 10:56:34 (6374)


[10:56]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er kunnuglegt ákvæði sem hér er á ferðinni í síðari málsl. 3. gr. þar sem stendur til af hálfu löggjafans að ákveða það með lögum að tiltekin ákvæði laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna skuli ekki eiga við. Nú er það ekki hlutverk löggjafans að túlka lög með þessum hætti heldur dómstólanna og enn fráleitara að standa í afgreiðslu á ákvæði af þessu tagi þegar mál af sambærilegum toga eru fyrir dómstólum.
    Með vísan til þess einnig sem fram hefur komið um viðræður ríkisvaldsins og opinberra starfsmanna, þá er afgreiðsla þessa ákvæðis alveg fráleit við núverandi aðstæður. Ég gerði grein fyrir því við umræðu málsins og jafnframt því að ég áskil mér allan rétt til að hverfa frá stuðningi við þá málamiðlun sem hér er á ferðinni í formi tillögu efh.- og viðskn. ef ekki tekst ásættanleg niðurstaða varðandi meðferð þeirra mála sem snúa að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. En efh.- og viðskn. mun væntanlega kanna málið milli umræðna og vita hvernig þau mál standa áður en kemur til lokaafgreiðslu á málinu.