Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 11:43:55 (6380)


[11:43]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að hafa langt mál um þetta frv. í ljósi þess sem þegar er fram komið af hálfu annarra ræðumanna um málið.
    Hér er um það að ræða að laga löggjöf um brunatryggingar að þeim reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og þar af leiðandi er hér um að ræða nauðsynlegar og sjálfsagðar breytingar. Inn í það spilar hins vegar sú sérstaða sem verið hefur í Reykjavík að því er varðar Húsatryggingar Reykjavíkur og þá ágætu starfsemi sem þar hefur farið fram á undanförnum áratugum. Það er ljóst að Húsatryggingar Reykjavíkur njóta undanþágu samkvæmt EES-samningnum og um það er að sjálfsögðu ekki deilt. Hins vegar hefur komið fram, eins og vitnað var til af hv. síðasta ræðumanni, nokkur skoðanamunur um það hvernig skynsamlegast sé að ganga frá þessari lagabreytingu þó að í sjálfu sér sé ekki á ferðinni mikill efniságreiningur í þessu máli.
    Ég hygg að það sé nokkuð samdóma skoðun flestra að skynsamlegasta leiðin í málinu sé sú að leggja ekki niður Húsatryggingar Reykjavíkur að svo komnu máli heldur að fara þá leið sem hér er lögð til, þ.e. þá að heimila jafnframt öðrum tryggingafélögum aðgang að þeim tryggingamarkaði sem um er að tefla í Reykjavík.
    Hins vegar hefur borgarritari eins og bent hefur verið á haft uppi nokkuð önnur sjónarmið varðandi það hvernig best sé að því staðið og hann hefur komið þeim á framfæri til alþingismanna og væntanlega heilbr.- og trn. þingsins, auk þess sem hann hefur ritað um það grein í Morgunblaðið.
    Ég held að það eigi að vera tiltölulega einfalt mál að vinna úr þessu í heilbr.- og trn. og er ekki ástæða til annars en að ætla að um það geti náðst góð samstaða.
    Þeir sem hafa fylgst með þessum málum að undanförnu hafa orðið varir við að uppi er nokkur skoðanaágreiningur um það hvort yrði ódýrara fyrir húseigendur í Reykjavík ef Húsatryggingar héldu áfram sinni starfsemi eða aðrir tækju þetta yfir. Þetta er auðvitað ein af þeim spurningum sem enginn veit svarið við fyrir fram. Ég hef tröllatrú á tryggingafélögunum í landinu. Ég held að þau geti staðið sig ágætlega á þessum stóra markaði sem hér er um brunatryggingar í Reykjavík. En auðvitað hlýtur maður líka að horfa til þess að Húsatryggingar Reykjavíkur hafa staðið sig með afbrigðum vel í því að tryggja hús húseigenda hér í Reykjavík og gera það mjög ódýrt.
    Ég vildi eingöngu reifa nokkuð þessi sjónarmið, láta það koma fram að ég tel eðlilegt að hv. heilbr.- og trn. fjalli nákvæmlega um sjónarmið borgarritara í málinu, m.a. það sem lýtur að virðingu húsa í Reykjavík, hvort rétt sé að fela Fasteignamati ríkisins að annast það að öllu leyti, og jafnframt um spurninguna um það hvort kalla eigi til dómkvadda matsmenn þegar tjón verður eða hvort það sé viðunandi að starfsmenn tryggingafélaganna sem greiða bæturnar annist það verkefni. Þetta eru helstu umhugsunarefnin í þessu máli. Ég tel ekki að hér sé um neinn stórfelldan ágreining að ræða milli flokka eða stjórnar og stjórnarandstöðu, síður en svo, eins og þegar er fram komið í umræðunum en hins vegar viðfangsefni sem leysa á í hv. þingnefnd.