Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 11:48:06 (6381)


[11:48]
     Svavar Gestsson :
    Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er engin þörf á því að setja hér á langar umræður um þetta mál eftir þær ágætu ræður sem fluttar hafa verið og ég er sammála.
    Ég vitna til þess að á síðasta þingi urðu talsverðar umræður um þessi mál þegar það átti að breyta allri tryggingalöggjöf okkar til samræmis við EES-samninginn. Sem betur fer tókst að stöðva það frv. í lok þingsins í fyrra í þeim miklu sviptingum sem þá urðu. Þetta var eitt af þeim stjfrv. sem stjórnarandstaðan knúði á um að væru tekin út á síðustu dögum þingsins og af þessu sést m.a. nú í þessum umræðum að það kemur fyrir að stjórnarandstaða getur gert gagn sem bersýnilega allir viðurkenna í dag og það er ástæða til að þakka fyrir þá óbeinu lofræðu um stjórnarandstöðuna sem hér var flutt af hv. síðasta ræðumanni.
    Varðandi Húsatryggingar Reykjavíkur þá er það ljóst að Húsatryggingar Reykjavíkur er gott fyrirtæki, félagslegt fyrirtæki sem hefur skilað bæði ótrúlega lágum iðgjöldum Reykvíkinga af brunatryggingum og sömuleiðis staðið undir kostnaði við slökkviliðið og brunavarnir að nokkru leyti. Þegar svo virðist vera að allir flokkar og einnig Sjálfstfl. vilja standa að málum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, þ.e. að reka félagslegt tryggingafyrirtæki, þá stendur ekki á okkur að taka þátt í slíku. Ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli og væri út af fyrir sig ágætt ef hægt væri að breyta því þannig að samstaða yrði um það á þessu þingi þó stutt sé eftir af því. Staðreyndin er sú að hv. heilbr.- og trn. hefur unnið þegar mjög myndarlegt starf í þessum málum með brtt. sem voru fluttar í fyrra af stjórnarandstöðunni þannig að í sjálfu sér má segja að þegar hafi farið fram talsverð þingleg vinna við málið og þess vegna ætti í sjálfu sér ekki að vera neitt að vanbúnaði við það að ljúka málinu núna á yfirstandandi þingi. Það er a.m.k. mín skoðun.

    Ég ætla enn fremur að segja það að ég teldi að það væri alveg fráleitt að standa að þessu máli öðruvísi en að hlusta mjög rækilega á samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur og að ég held einróma samþykkt borgarráðs. Það virðist vera mjög breið pólitísk samstaða um málið í borgarráði og í öðru máli sem hér var á dagskrá fyrir nokkrum dögum, þar sem um var að ræða atriði sem sérstaklega snertir Reykjavík. Þá var verið að koma á nánast afbrigðilegri skipan fyrir Reykjavík í tilteknum málaflokki að því er varðar öldrunarmálaráð. Mín skoðun var sú að öldrunarmálaráð og sú skipan sem þar var gerð tillaga um væri óþarfi en þar sem borgarstjórn Reykjavíkur virtist hafa náð um það samstöðu að gera tillögu af þessu tagi, þá taldi ég sjálfsagt og eðlilegt að hlusta á það a.m.k. mjög rækilega áður en þeim tillögum yrði á nokkurn hátt hafnað hér af þessari virðulegu stofnun. Enda má segja að þrátt fyrir ágreining um meðferð frv. að öðru leyti þá hafi tillögurnar um öldrunarmálaráð verið samþykktar efnislega hér af öllum aðilum og hið sama á við um Húsatryggingarnar. Ég tel að við eigum að standa að því að afgreiða Húsatryggingarnar og reyna að stuðla að sem bestri samstöðu við Reykjavíkurborg um þær.
    Ég vil aðeins, hæstv. forseti, hreyfa þeirri hugmynd hvort það er ekki einfaldast að standa þannig að þessu að ákvæði laganna um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, fái að haldast í öllum meginatriðum, þó auðvitað með hliðsjón af þeim breytingum sem hér er verið að gera tillögur um. Í þeim efnum tek ég algerlega undir þau minnisatriði sem borist hafa frá borgarritaranum í Reykjavík og eru dagsett 7. apríl 1994 varðandi þetta mál, þar sem hann hreyfir breytingartillögum sem hafa það í för með sér að gömlu lögin mundu gilda áfram. Ég vildi beina því til hv. heilbr.- og trn. að íhuga það mjög alvarlega hvort ekki væri hægt að hugsa sér að hún nánast flytji brtt. við lögin eins og þau eru núna, lög nr. 25/1954, með hliðsjón af þeim umræðum sem hér hafa farið fram þar sem mér hefur heyrst að allir talsmenn allra þeirra flokka sem hér hafa átt fulltrúa í þessum stóli hafi í raun og veru stutt þá málsmeðferð í öllum meginatriðum.
    Ég teldi a.m.k. alveg fráleitt, hæstv. forseti, að standa þannig að þessum málum að Reykjavík væri skyldug til að loka þessu fyrirtæki með einum eða öðrum hætti þó það væri eftir mörg, mörg ár. Ég tel að Reykjavík eigi að hafa sjálfstæði og frelsi til þess að reka þetta fyrirtæki áfram og bendi á það í þessu sambandi að á Evrópska efnahagssvæðinu eru tugir húsatryggingafélaga nákvæmlega af því tagi sem Húsatryggingar Reykjavíkur eru burt séð frá kröfum um einkavæðingu, samkeppni og annað sem yfirleitt eru uppi á hinu Evrópska efnahagssvæði þannig að rekstur Húsatrygginga Reykjavíkur rímar í raun og veru í einu og öllu við þær reglur sem þegar hafa verið samþykktar í þessum efnum á hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hið sama gæti gilt í grófum dráttum um Brunabótafélag Íslands. Þar er um að ræða félagslegt fyrirtæki sveitarfélaganna í landinu. Ég sé hins vegar að menn hafa kosið aðeins aðra leið í þeim frumvörpum sem fyrir liggja um það mál og ætla ég ekki að fjölyrða um það hér á þessu stigi málsins, en ég endurtek að ég fagna þeirri samstöðu sem hér virðist vera að nást um húsatryggingar í Reykjavík og vil fyrir mitt leyti stuðla að því að hún geti orðið til og taldi rétt þar sem ég á ekki sæti í hv. nefnd að láta þessi sjónarmið mín koma hér fram.