Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 12:05:20 (6383)


[12:05]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir almennt jákvæðar undirtektir við frv. því sem ég hef hér kynnt. Ég hygg að þegar saman er dregið sé tiltöluleg góð og almenn sátt um meginefni þessa frv. og innihald þess. Ég mun stikla hér á þeim atriðum sem upp hafa vaknað í þessari umræðu og kannski hefja leikinn viðvíkjandi álitamál sem borgarritari hefur sérstaklega vakið máls á og sumir hv. ræðumanna hafa tekið upp og gert að sínum skoðunum. Það er þessi spurning hvort frv. til laga um brunatryggingar ætti að vera í tvennu lagi, þ.e. hvort ein lög ættu að gilda um Reykjavík og önnur um landið og dreifbýlið. Mín skoðun er sú að vitaskuld sé langeðlilegast að ein lög gildi um landsmenn alla og það eru engin efnisrök til þess að í Reykjavík skuli gilda sérlög um brunatryggingar hér í höfuðborginni og önnur lög, raunar sambærileg lög, um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Það eru engin efnisatriði til þess. Og því sem hér hefur verið hreyft að það mundi einfalda málið í meðferð þingsins að gera lítils háttar breytingar á gildandi lögum um brunatryggingar í og utan Reykjavíkur, það held ég að sé ekki rétt því eins og komið hefur fram

í máli ræðumanna, þá er þessi lagasetning í sex greinum og tveimur ákvæðum til bráðabirgða ákaflega einföld og skýr, getur ekki einfaldari verið hygg ég. Þannig að ég sé engin efnisrök standa til þess að skipta þessu lagafrv. upp í tvö eins og verið hefur, heldur hafa þær breytingar og sú þróun mála sem orðið hefur undirstrikað hið rétta og sanna og þannig skuli það vera að ein lög gildi í þessu landi.
    Varðandi skyldur húseigenda til trygginga, þá er það auðvitað alveg skýlaust. Hér var lýst nokkrum áhyggjum með það að svo kynni að fara í tilfærslum í þessa veru þegar vátryggingartaki af einhverjum ástæðum óskar eftir því og tekur um það ákvörðun að breyta um vátryggingarfélag, að það verði einhverjir dauðir blettir, það verði einhver tímabil sem geti orsakað það að viðkomandi húseign reynist ótryggð. Fyrir það er girt í 1. gr. með þeim hætti að vátryggingartaka skal gert að láta fylgja staðfestingu á að húseigandi hafi stofnað til nýrrar skylduvátryggingar áður en fyrra tryggingafélagi er heimilt að taka uppsögn hans gilda á fyrri skylduvátryggingu. Þarna er algjörlega skýlaust að ekki komi til þess að einhver tími renni upp þar sem viðkomandi húseignir eru ótryggðar.
    Varðandi 2. gr. laganna sem ræðumenn flestir hverjir hafa staldrað við og lýtur að Fasteignamati ríkisins og þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir í þá veru, þá nefndi ég það í minni inngangsræðu að vissulega væru þar álitamál uppi. Meginhugsunin á bak við þessa tillögu í frv. um að færa þessa matsgerð á hendur Fasteignamats ríkisins liggur í augum uppi. Þar eru tæki og tól og mannafli til að inna þessa vinnu af hendi og hún er og hefur verið um margt unnin og innt af hendi í því fasteignamati sem Fasteignamat ríkisins hefur lögum samkvæmt framkvæmt og ber að framkvæma. Það hefur verið á það bent í gegnum árin að í mörgum tilfellum er um tvöfalda vinnu að ræða. Og allt of lengi raunar hefur það verið þannig að niðurstaða fasteignamats annars vegar og brunabótamats hins vegar er eitthvað algjörlega ólíkt og þar skildi mjög á milli. Gjarnan var það þannig að brunabótamatið var miklu hærra en fasteignamatið miklu lægra. Ég skal ekki út af fyrir sig segja til um ástæður þessa. Því var hins vegar gjarnan fleygt hér á árum áður að vátryggingartaki hefði kannski eitthvað um það að segja í samráði við hina dómkvöddu matsmenn hvernig niðurstaða mála yrði, en ekki áhugasamur um það að raunvirði húseignarinnar skilaði sér í brunabótamati og það væri gagnkvæmur vilji vátryggingartakans og matsmanna að lyfta þessu upp. Þegar aftur á móti kom að fasteignamati sem er ekki síst skattstofn, þá væri nálgun málsins með öðrum hætti og kannski frekar vilji til þess að hafa það lægra en hærra. Um þetta vil ég ekki fullyrða, það vil ég árétta, virðulegur forseti. En í tímans rás hafa þessi tvö möt nálgast hvort annað.
    Mörg sveitarfélög hafa gengist í því að fara í mjög rækilegt endurmat á fasteignamati húsa í viðkomandi sveitarfélögum sem hefur í mörgum tilfellum leitt til verulegrar hækkunar og þannig nálgast raunvirði viðkomandi húseignar og þar með það mat sem til kvaddir matsmenn hafa látið fara fram vegna brunatryggingar þannig að þarna er munurinn orðinn miklu minni en áður var. Með öðrum orðum er hugmynd frumvarpssmiða sú að þarna megi þegar til lengri tíma er litið tryggja að það sé eitt sambærilegt mat sem gangi yfir, þ.e. fasteignamat og brunabótamat, raunverulegt verðmæti viðkomandi húseignar, en þar þurfi ekki að vera skil á milli auk þess, eins og ég sagði áðan, sem Fasteignamat ríkisins hefur yfir þeim möguleikum að ráða að vinna þetta mat ódýrt og vel. Það liggur ekkert fyrir um það í þessu frv. að Fasteignamat ríkisins ráðist í það að meta upp á nýtt hverja einustu húseign í landinu. Ég held að á því sé ekki þörf.
    Þetta eru þau sjónarmið sem eru að baki þessari breytingu sem er að finna í frv. Á hinn bóginn gat ég þess og vil árétta að mér finnst fyllilega til greina koma að menn skoði það ítarlega hvort núverandi fyrirkomulag mála í þessu veru, þ.e. hinir dómkvöddu matsmenn, hafi ekki gengið ágætlega bæði sökum þess að það hafi verið virt og í annan stað hafi það verið tiltölulega ódýrt fyrir þá sem borga brúsann þegar til lengdar lætur sem er auðvitað neytandinn sjálfur. Ég vil því árétta það enn og aftur sem ég sagði í inngangi að ég tel sjálfsagt að hv. heilbr.- og trn. fari í saumana á þessu atriði sérstaklega. Það er mér ekki á móti skapi þó að menn komist að gagnkvæmri eða annarri niðurstöðu í þessa veru ef sannanleg rök liggja fyrir því.
    Varðandi 3. gr. sem hv. ræðumenn hafa nokkrir hverjir staldrað talsvert við, þ.e. 2. mgr. 3. gr. þar sem getið er um heimild vátryggjenda að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld þegar tjón er gert upp, þá hefur á það verið bent hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa skýrari reglur í þessa veru í frv. sjálfu. Hugmyndin að baki þarna er sú að ráðherra hafi til þess heimild í lögunum að skipa þessum málum í reglugerð og það er fyrst og síðast gert til þess að hafa sveigjanleikann meiri en minni. Í núgildandi lögum er þetta nokkuð njörvað og niður neglt og sveigjanleiki þar af leiðandi til þess að falla frá byggingarskyldu þegar tjón verða er kannski minni en ástæða væri til. Þarna hygg ég, og get tekið undir með hv. ræðumanni, að sé mjög nauðsynlegt að hafa aukið svigrúm. Hvort það er gert með lagatexta eða með reglugerðarsmíð skal ég ósagt látið, en tel þó raunar að reglugerðarsmíð gefi möguleika á því að mæta málum og þróun mála frá einum tíma til annars miklum mun hraðar og betur heldur en lagasetning. Þetta eru hins vegar sjónarmið sem hér hafa verið reifuð almenns eðlis um aukinn sveigjanleika. Þau fara mjög saman við mín. Spurningin er sú, hvaða aðferðafræði er best í þeim efnum og ég vænti þess að þau mál fái ítarlega og málefnalega umræðu í nefndinni.
    Varðandi 4. gr. frv. sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir kom inn á, þá eru þau efnislega óbreytt frá núgildandi lögum um brunatryggingar í Reykjavík og utan Reykjavíkur. Hvað varðar heimildir til þess að innheimta iðgjöld með hörðu, ég skal ekkert útiloka það að tímafrestur þarna sé of skammur, en þetta er

hins vegar óbreytt að efni til frá því sem gilt hefur.
    Helst hafa hv. ræðumenn staldrað við ákvæði til bráðabirgða og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði það að sérstöku umtalsefni af hverju þessi ákvæði laganna væru til bráðabirgða. Ég held að almennt sé því til að svara að við erum að fara úr einu kerfi í annað og þess vegna er ákveðinn yfirgangstími sem þarf að fara fram, þ.e. frá þeim tíma að nýtt fyrirkomulag tekur gildi og hið eldra hættir. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að ákvæði þetta er til bráðabirgða því að síðan væntir maður þess að öll almenn ákvæði laganna geti gengið sjálfstætt og áfram út af fyrir sig.
    Á hinn bóginn hvað varðar undanþágu Reykjavíkurborgar til rekstrarformsins, þá er það háð ákveðnu undaþáguákvæði EES og undanþága er samkvæmt orðanna hljóðan og samkvæmt raunar ýmsu því sem ætla má tímabundin. Við hvaða tímamörk get ég ekki svarað og kannski engin. En hitt er ekkert launungarmál, og það var rakið hér nokkuð í umræðunni, að fyrir nokkrum mánuðum og missirum var það mat manna og ýmissa sérfræðinga á þessu sviði að þessi undanþága Reykjavíkurborgar hvað varðar óbreytt rekstrarform, húsatryggingar í Reykjavík, mundi falla niður við þriðju tilskipun. Það gerðist ekki og frumvarpið tekur af öll tvímæli í því og engin tillaga er um það gerð af minni hálfu að á því verði nein breyting að frumkvæði heilbrrn. né hv. Alþingis. Með öðrum orðum að Reykjavíkurborg verði heimilt að nýta sér til fullnustu þá undanþágu sem sannanlega er að finna í EES-samningnum.
    Jafnframt er enginn ágreiningur um það heldur að EES-samningurinn tekur af öll tvímæli um það að einokun sú, sem annars vegar bæjar- og sveitarfélög og höfuðborgin og þar með Húsatryggingar hafa haft yfir að ráða hvað varðar sölu þessara trygginga, er afnumin. Mín skoðun er sú að þó að ekki væri það EES sem ýtti því úr vör, þá væru öll efni til þess hvort heldur væri að húseigendur hér á Íslandi hefðu um það nokkurt val hverju sinni að velja sér tryggingafélag vegna þessarar skyldutryggingar. Ég ætla mér það ekki að fara að bera saman kaup og kjör á þessari eyri. Það hafa menn reynt að gera árum og áratugum saman, þ.e. hvort Húsatryggingar hafi í gegnum árin getað boðið betri kjör heldur en önnur tryggingafélög, heldur en Brunabótafélag Íslands í hinum ýmsu sveitarfélögum. Það er ekki aðalatriði þessa máls. Aðalatriði þessa máls er að það eru vátryggjendur sjálfir sem geta metið það og vegið, hafa um það val hvort boðið sé betra af Húsatryggingum í Reykjavík, af einhverjum ónefndum tryggingafélögum víða um land eða af öðrum. Og ég vil að það komi mjög skýrt fram --- og kannski sérstaklega vegna þess að hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir reifaði það hér hvort mál af þessum toga ætti ekki betur heima í viðskrn., væru hrein og klár viðskiptamál --- að þá lít ég alls ekki þannig til. Ég lít fyrst og síðast þannig til að hér sé verið að tryggja ákveðinn rétt vátryggingartakans, launamannsins, og að því leytinu til er hér um samfélagslega þjónustu að ræða en ekki hreinan og kláran bisniss, fyrirgefðu orðbragðið, virðulegur forseti. Það gildir raunar um hinar frjálsu tryggingar líka að stórum hluta að minni hyggju, að hér sé um ákveðið öryggisnet að ræða fyrir almenning í þessu landi og við þurfum ekki síður að nálgast það mál út frá hinni samfélagslegu hlið málsins heldur hinni viðskiptalegu.
    Yfir það hefur verið farið mjög nákvæmlega hvort þetta fyrirkomulag mála sem kveðið er á um í þessu frv. falli ekki að samkeppnnislögum og öllum ákvæðum EES-samningsins og það er niðurstaða okkar sérfræðinga að svo sé. Ég held því að þegar á allt er litið og nokkuð langa forsögu þessa máls, þá geti flestir aðilar verið nokkuð sáttir um þessa niðurstöðu og heyri ég ekki annað en svo sé þó að menn geti haft á því misjafnar skoðanir hvernig þingtæknilega verði best að málinu staðið.
    Ég vil hins vegar enda mína ræðu, virðulegur forseti, eins og ég byrjaði hana, og segja það enn og aftur að ég sé ekki nokkur efnisrök standa til þess að hér gildi sjálfstæð lög um brunatryggingar í Reykjavík og önnur sjálfstæð lög um brunatryggingar utan Reykjavíkur. Næst kæmi kannski að þeir á Skaganum óskuðu eftir sérstökum brunatryggingum um Akranes eða önnur sveitarfélög því að öll meginatriði þessa frv. eru auðvitað jafngild hér í höfuðborginni sem annars staðar á landinu. Það er hins vegar eitt sértækt atriði sem lýtur að undanþágu vegna EES og um rekstrarform Húsatrygginga í Reykjavík sem þýðir það að Reykjavíkurborg hefur ákveðna sérstöðu í málinu. Annað er það nú ekki þannig að ég hafna því að menn fari að sigla þá leið nema náttúrlega það sé almennur vilji á þingi að borgarritarinn í Reykjavík sjái um hinar þingtæknilegu hliðar málsins. Það er ekki mín skoðun. Það kann að vera annarra.
    Virðulegur forseti. Umfram allt legg ég á það áherslu að þessi góða og málefnalega samstaða haldi sem er um meginefni málsins og að hv. þingnefnd, sem í raun og sanni hefur nú þegar fjallað um mörg stór atriði í þessu frv., vinni hratt og vel þannig að við getum afgreitt þetta mál í góðri sátt og góðu samlyndi fyrir mánaðamótin.