Brunatryggingar

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 12:28:58 (6388)


[12:28]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði hér áðan að þetta efni frv. væri samfélagslegt öryggismál, tryggingar almennt, og ég er alveg sammála honum um það. En hvað tryggir það samfélaginu að málaflokkar séu vistaðir í heilbr.- og trmrn.? Ég hef ekki séð það almennt um heilbrigðismál að það sé nein trygging. Og hvað er það raunverulega sem tryggir hagsmuni neytenda betur í heilbr.- og trn. en í viðskrn. nú þegar þetta er allt frjálst?
    En bíðið aðeins við. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að það ættu að gilda ein lög í landinu um allar tryggingar. Ég get líka verið sammála því og það er alveg hægt að láta þau ein lög gilda þannig að Brunabótafélag Íslands fái sama rétt og Húsatryggingar Reykjavíkur og þá er það alveg frjálst fyrir alla landsmenn að tryggja hjá Brunabótafélagi Íslands, þeir sem það vilja áfram.