Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 14:06:44 (6396)


[14:06]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. heilbr.- og trmrh., þá er þetta frv. einn hluti af þessu EES-máli. Um þá leið sem valin var til þess að tryggja stöðu Brunabótafélags Íslands til framtíðar náðist samkomulag í þeirri nefnd er hæstv. ráðherra skipaði á sínum tíma eða í mars 1993. Það má auðvitað endalaust deila um það hvaða leið sé heppilegust í þessum efnum. Á það ætla ég beinlínis að leggja mat hér og nú. Þessi leið sem valin er sem gagnkvæmt tryggingafélag er þekkt fyrirbæri. Um margt held ég að sú leið geti verið gölluð. Hún getur að mörgu leyti líka hentað vel. Við þekkjum og vitum hvaða aðstæður hafa skapast hjá tryggingafélögum sem þannig hafa búið um hnútana. Hin leiðin hefði auðvitað verið sú að gera þetta að hlutafélagi og finna út hverjir væru þá hluthafar. Það er önnur leið í þessu.
    Eigendur í 5. gr. frv. eru skilgreindir. Það má líka endalaust deila um hverjir séu í raun og veru eigendurnir. Í 5. gr. er þess getið að þeir sem hafa brunatryggt fasteignir hjá Brunabótafélagi Íslands þegar lög þessi taka gildi eru fluttir til vátryggingarfélagsins skv. 4. gr. Það eru í fyrsta lagi eigendur. Í öðru lagi eru þeir eigendur sem vátryggðir voru hjá Brunabótafélaginu 31. des. 1988 og færðir voru þá með leyfi tryggingamálaráðherra yfir til Vátryggingafélagsins og svo í þriðja lagi er það þessi sameignarsjóður sem þegar fram líða stundir mun eiga allt en þeir sem eru tilgreindir í 1. og 2. tölul. munu ekkert eiga. Og það er hárrétt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að þarna er um algjörlega óvirka eign í félagi að ræða nema komi til slita félagsins. En komi til slita félagsins, þá hefði það náttúrlega víðtæk áhrif líka gagnvart því vátryggingarfélagi sem starfandi er og þetta félag á helminginn í þannig að það er auðvitað hárrétt að það er ekki um neina virka eign að ræða í þessu samhengi. Ég sagði að það megi endalaust deila um það hverjir séu eigendur. Ég held hins vegar á þeim tíma er Brunabótafélagið var stofnað, ef ég man rétt 1. jan. 1917, þá megi telja að þeir, sem þá greiddu iðgjöld og lögðu það á sig að stofna þetta félag og lögðu grunninn að öllu því starfi og öllu því sem núna er til, þeir eru sjálfsagt ekki á lífi margir, séu upphaflegu eigendurnir og þeir sem síðan hafa erft eignarhlut þeirra í þessu félagi. Með þeirri leið sem núna er valin eru þessir eigendur allir þurrkaðir út og það má endalaust deila um það við hvaða tímamörk á að miða í þessum efnum. Ég ætla ekkert að fara að hártoga það í einu eða neinu atriði. Þetta er sú leið sem nefndin komst að samkomulagi um að skynsamlegt sé að fara.
    Ég mun eiga þess kost í hv. heilbr.- og trn. að skoða málið og mun skoða það með jákvæðu hugarfari vegna þess að ég geri mér ljósa grein fyrir því að það er mikilvægt fyrir Brunabótafélagið að það sé skýrt hver sé lagaleg staða þess. Það er mikilvægt fyrir þá sem eru vátryggingartakar hjá Vátryggingafélagi Íslands að það sé skýrt hverjir það eru sem eiga það félag þannig að þetta fylgist að fyrir utan þriðja atriðið sem mér skildist á hæstv. ráðherra að væri aðalástæðan fyrir því að frv. væri flutt, þ.e. krafan um það vegna samnings okkar um hið Evrópska efnahagssvæði. En ég mun skoða málið í hv. nefnd með opnum huga og í ljósi þess hvað þarna er í húfi.