Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 14:17:27 (6399)


[14:17]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær jákvæðu og góðu undirtektir sem frv. þetta hefur fengið. Það er vissulega hárrétt hjá hv. þm. sem hér hafa tekið til máls að uppi voru ýmis álitamál þegar í upphafi hvaða leið skyldi fara og hver væri heppilegust. Þetta var hin sameiginlega niðurstaða þeirra aðila sem frv. sömdu og þeir, eins og ég gat um í inngangi, koma nokkuð víða að, þ.e. frá sveitarfélögum, frá félaginu sjálfu, frá Sambandi ísl. tryggingafélaga, frá Tryggingaeftirlitinu og síðan frá heilbrrn. Vissulega voru uppi álitamál um það hver í raun ætti þetta félag og sviplíkar vangaveltur hafa komið upp um annað félag sem erfiðlega hefur gengið að leysa úr. Ég tek undir það með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að það er út af fyrir sig fagnaðarefni að jafnvíðtæk samstaða takist um þessa leið þó að hún sé auðvitað ekki gallalaus fremur en önnur mannanna verk. Hér var til að mynda nefndur til sögu sá möguleiki einfaldlega að leysa félagið upp, breyta því í hlutafélag og selja eignarhlutina og greiða þá til rétthafa. Það kæmi auðvitað sáralítið í hvers hlut, sérstaklega þeirra einstaklinga sem tryggingu eiga hjá félaginu, þannig að ekki er þar um fjárhagslega hagsmuni þeirra að ræða. Í annan stað legg ég líka talsverða áherslu á það að hvað varðar eignarhald í hinni virku tryggingarstarfsemi hér á landi, þ.e. hjá hinum stóru tryggingafélögum, þá verði ákveðinn stöðugleiki til staðar. Að það verði ekki um umtalsverðar eignabreytingar eða sölu nýrra stórra hluta eins og yrði með sölu hugsanlegs hlutafélags Brunabótafélags Íslands og að vægi á markaðnum mundi hugsanlega breytast stórkostlega í því sambandi, ekki síst þegar við eigum væntanlega von á því að erlend tryggingafélög vilji láta til sín taka hér á landi. Ég held að það sé mikilvægt að viss stöðugleiki ríki í þessu. Á hinn bóginn virðist það liggja nokkuð ljóst fyrir að hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur heldur nokkurra áratuga því það má vænta þess að um virka félagseign verði tæpast að ræða. Sveitarfélögin eru eitthvað sem varanlegt er en við guðs börn erum auðvitað dauðleg og sú óvirka inneign sem menn kunna að eiga hjá Brunabótafélagi Íslands rennur til þess sveitarfélags sem hefur alið önn fyrir þessum einstaklingum.

    Nú er ég orðinn býsna hátíðlegur og læt þessu lokið.