Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 14:20:44 (6400)


[14:20]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er stjfrv. og ég vil lýsa því hér við þessa umræðu að ég styð það. Það hafa verið að gerast miklar breytingar á tryggingamarkaðinum á undanförnum árum, stóru og stærstu tryggingafélögin, Brunabótafélag Íslands og Samvinnutryggingar voru sameinuð á sínum tíma undir nafni Vátryggingafélags Íslands. Það var á sínum tíma mjög umdeild aðgerð og það voru ýmsir sem höfðu sitthvað við það að athuga. Brunabótafélag Íslands, sem er enn þá til og er eignaraðili að Vátryggingafélaginu, hefur verið rekið undanfarna áratugi í mjög nánum tengslum við sveitarfélögin í landinu. Að vísu hafa ekki öll sveitarfélög tryggt hjá því félagi en það fer ekkert á milli mála að Brunabótafélagið veitti sveitarfélögunum mjög mikla þjónustu, bæði sem tryggingafélag og ekki síður veitti Brunabótafélag Íslands sveitarfélögunum beinan stuðning og styrk í gegnum lánafyrirgreiðslu. Framlag Brunabótafélagsins var allt saman mjög mikilvægt, sérstaklega hvað varðaði lánafyrirgreiðslu vegna brunavarna, vatnsveituframkvæmda o.s.frv.
    Það frv. sem hér er til meðferðar fjallar hins vegar um breytta skipan á eignarhaldi þessa fyrirtækis og ég tel að með þeirri niðurstöðu sem þar er fengin sé komist að bærilega ásættanlegri niðurstöðu. Ég hef látið þá skoðun í ljósi á öðrum vettvangi að ég tel og hef talið að sveitarfélögin, sem hafa tryggt og í rauninni stýrt í gegnum fulltrúaráðið Brunabótafélaginu, ættu þetta félag. Með því frv. sem hér er til umfjöllunar er fallist á þessi sjónarmið.
    Ég tel ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu en lýsi yfir stuðningi við frv. og vona að hv. heilbr.- og trn. taki það til skoðunar og kalli til umsagnir frá þeim aðilum sem málið varðar þannig að sem fyrst megi ljúka afgreiðslu þessa máls hér á Alþingi.