Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

133. fundur
Föstudaginn 15. apríl 1994, kl. 16:17:11 (6408)


[16:17]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það hefði þótt lélegur búskapur hér fyrr á árum að hætta heyskap vegna þess að menn hefðu léleg amboð. Ég skil hæstv. ráðherra þannig í raun að hann hafi skilning á því að við verðum að hafa virka sveiflujöfnun í sjávarútvegi áfram. Út frá þeim forsendum finnst mér það ábyrgðarleysi

að byrja á því að fella algjörlega niður það sem við þó höfum áður en menn í nokkru segja hvað á að taka við. Hæstv. ráðherra nefndi ýmsa galla á því verðmiðlunarsjóðskerfi sem við höfum haft. Vissulega hafa verið á því gallar en menn voru þó búnir að sníða ýmsa agnúa af því kerfi. Við ættum miklu frekar að hafa burði til þess að halda þeirri vinnu áfram og ég tel að hæstv. ráðherra geti átt stuðning stjórnarandstöðunnar varðandi það mál.
    Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um endalok eigna í sjóðnum sem voru greiddar út á árinu 1992 þá var búin að vera mikil gagnrýni á sjóðinn og menn sögðu að reglurnar væru þannig að það kæmi aldrei til með að vera greitt út úr sjóðnum. Menn sáu ekki lengra fram í tímann þá. Ég var að ræða við útgerðarmenn í gærkvöldi sem bentu mér á að menn sáu ekki lengra fram þá en sem nemur því að við óbreyttar reglur þá væru útgreiðslur fyrir löngu hafnar. Þannig að sjóðurinn var kannski ekki alveg eins ónýtur eins og menn vildu vera láta.