Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:16:07 (6418)


[15:16]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hygg að hæstv. forseta hljóti að vera það ljóst að ef Alþingi Íslendinga er farið að hugleiða það í alvöru hvort koma eigi í veg fyrir að gögn í máli sem eru fyrir dómstólum séu birt, þá er Alþingi Íslendinga að taka afstöðu með framkvæmdarvaldinu gegn dómsvaldinu í landinu, gegn því að það fáist réttar niðurstöður í málaferlum á Íslandi. Gera menn sér ekki grein fyrir alvöru málsins? Er það niðurstaðan að menn láti sér detta það í hug, hvað þá að framkvæma það, að Alþingi Íslendinga eigi að fara í einhvern sambræðing með framkvæmdarvaldinu gegn dómsvaldinu í landinu? Ég segi nei. Það hlýtur að vera frumskylda Alþingis Íslendinga að stuðla að því með öllum ráðum að niðurstöður dómstólanna séu réttar, hverjar sem svo niðurstöðurnar verða. Þá fyrst væri spillingin orðin alvarleg ef Alþingi Íslendinga væri komið á mála hjá framkvæmdarvaldinu til að koma í veg fyrir það að niðurstöður dómstóla séu réttar. Ég vona að hæstv. forseti geri sér grein fyrir alvöru málsins. Þetta mál hlýtur að sjálfsögðu að halda áfram upp í Hæstarétt. Ætla menn að geyma þessa skýrslu í salti þangað til og þá til hvers?