Hagræn stjórntæki og umhverfisvernd

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:24:45 (6421)


[15:24]
     Fyrirspyrjandi (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. mjög greinargóð svör og það er greinilegt að hann er vel að sér í þessum málum. Það er ánægjulegt að heyra það að í ráðuneyti hans er áfram unnið að þessum málaflokki og þess er að vænta að það komi frekari tillögur hér fram á þinginu innan tíðar.
    Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Svo greinargóð voru svör hæstv. ráðherra en ég vil einungis nefna eitt atriði og það er að þegar við vinnum að löggjöf í þessum anda þá gætum við þess að auka ekki álögur og skatta á atvinnulífið. Álögur og skattar á atvinnulífið eru í dag á Íslandi þegar of háir og þó að við viljum beita þessum hagrænu stjórntækjum, þá gerum við það á þann hátt að við leiðbeinum atvinnulífinu og beinum því inn á betri og réttari brautir en íþyngjum því ekki.