Störf yfirskattanefndar

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:28:48 (6424)



[15:28]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Sem svar við 1. lið fyrirspurnarinnar vil ég segja að yfirskattanefnd tók við 1.154 óafgreiddum málum frá ríkisskattanefnd hinn 1. júlí 1992. Frá þeim tíma og til marsloka 1994 hafa verið skráð á skrifstofu yfirskattanefndar 2.664 ný mál. Á sama tíma hefur 2.398 málum verið lokið fyrir yfirskattanefnd, þar af 2.317 með úrskurði en 69 mál hafa verið afturkölluð eða lokið með öðrum hætti.
    Á árinu 1993 sem er fyrsta heila starfsár yfirskattanefndar úrskurðaði nefndin í 1.262 málum. Úrskurðir á heilu ári urðu flestir 1.151 árið 1991 hjá ríkisskattanefnd sem starfaði á árunum 1980--1992, að meðaltali á árabilinu 1980--1992 kvað sú nefnd upp 894 úrskurði á ári. Af þessu sést að þrátt fyrir aukna skilvirkni hefur hinn mikli fjöldi nýrra mála gert það að verkum að birgðastaða, ef svo má segja, um mitt sumar verður svipuð og þegar yfirskattanefnd tók til starfa. Málin eru hins vegar yngri en áður, enda er áhersla lögð á að ljúka eldri málum. Stefnt er að því að í árslok verði engu máli ólokið sem er eldra en 12 mánaða. Slík mál voru hins vegar 217 um sl. áramót, 185 um áramótin 1992--1993 og 487 um áramótin 1991--1992. Til dómstóla hefur verið vísað tveimur málum.
    Sem svar við 2. lið tel ég að yfirskattanefnd sé óvilhallur úrskurðaraðili. Í lögum um yfirskattanefnd er skýrt kveðið á um að nefndin eigi að vera óháður úrskurðaraðili. Þeir einstaklingar sem veljast til setu í nefndinni hverju sinni vita að niðurstöður nefndarinnar er hægt að bera undir dómstóla. Þegar þeir kveða upp úrskurði í einstökum málum eiga þeir að byggja á því hver er hin lagalega rétta niðurstaða. Og mér finnst ólíklegt að nefndarmenn láti önnur sjónarmið hafa áhrif á niðurstöður sínar.
    Sem svar við 3. lið má segja að samkvæmt 9. gr. laga nr. 111/1992, um yfirskattanefnd, skulu nefndarmenn fullnægja skilyrðum sem sett voru í 86. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um embættisgengi skattstjóra. Samkvæmt þeirri grein má ekki skipa mann skattstjóra nema hann uppfylli þessi

skilyrði:
    1. Hafi óflekkað mannorð eða hafi ekki hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað.
    2. Sé lögráða og hafi forræði fjár síns.
    3. Sé íslenskur ríkisborgari.
    4. Hafi lokið prófi í lögfræði, hagfræði eða viðskiptafræði eða sé löggiltur endurskoðandi. Víkja má frá ákvæðum þessa menntunarskilyrðis ef maður hefur aflað sér víðtækrar sérmenntunar eða sérþekkingar um skattalöggjöf eða framkvæmd hennar.
    Af þessu sést að það er ekki þörf á að breyta ákvæðum um skipan nefndarmanna af þeim ástæðum sem spurningin lýtur að. Hins vegar er rétt að geta þess að heppilegast er að yfirskattanefnd sé skipuð hæfum einstaklingum sem hafi sérfræðikunnáttu í skattarétti, t.d. lögfræðingum, viðskiptafræðingum og löggiltum endurskoðendum.
    Þá kemur svar við 4. liðnum. Þar er líklega átt við samtök t.d. endurskoðenda, lögmanna og fleiri. Ég tel og það er mitt mat að það sé ekki rétt að fulltrúar hagsmunaaðila eigi fulltrúa í yfirskattanefnd. Yfirskattanefnd er og á að vera óháð nefnd sem úrskurðar á stjórnsýslustigi um ágreiningsmál, um ákvörðun skatta, gjalda og skattstofna. Nefndin á ekki að verða háð ríkisvaldinu eða öðrum aðilum. Þetta á að vera tryggt með ákvæðum í lögum og með því að niðurstöður nefndarinnar er hægt að bera undir dómstóla. Hvort nefndarmenn eru skipaðir af fjmrh. eins og í dag eða af öðrum aðila, t.d. dómsmrh., tel ég að skipti ekki ýkjamiklu máli. Hæpið er að halda því fram að dómsmrh. skipi t.d. dómara, valdi því að dómstólarnir séu ekki hlutlausir.
    Af þessu sést hver mín afstaða er til þessa máls, en ég vil taka það fram að ég tel heppilegt fyrir yfirskattanefnd ef þeir sem þar sitja á hverjum tíma sækja reynslu sína og menntun sem allra víðast í þau svið sem nefndin fjallar um í sínu starfi.