Ættleiðingar

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:45:50 (6431)


[15:45]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir jákvætt svar við minni fsp. í báðum tilfellum og þó sérstaklega í því fyrra þar sem það síðara gaf kannski ekki bein svör en þó sagði hæstv. ráðherra að hann mundi kynna sér hvernig að þessum málum væri staðið hjá nágrannaþjóðum okkar og tel ég það jákvætt.
    Ég vil leyfa mér að líta á þetta mál svolítið í samhengi við það sem verið er að gera með glasafrjóvgunum. Nú er það þannig að þegar fólk ættleiðir börn erlendis frá og yfirleitt ættleiðir börn þá er það vegna sjúkleika í langflestum tilfellum. Í mörgum tilfellum er um það að ræða að konur geta orðið þungaðar en geta ekki fætt af sér heilbrigð börn. Í slíkum tilfellum þýðir ekki að benda á glasafrjóvgun og því verður þetta að niðurstöðu hjá þeim foreldrum sem svona er ástatt um. Við vitum það að kostnaður er þó nokkur við glasafrjóvgun þó enginn held ég að horfi í sjálfu sér í þann kostnað en það má reikna með því að hver meðferð í glasafrjóvgun kosti um 200 þús. kr., hvort sem af því verður þungun eða ekki því það getur í sjálfu sér mistekist. Mér finnst að þessar staðreyndir verði að vera með í þessari umræðu vegna þeirra einstaklinga sem þarna eiga í hlut og taka þann kostinn að ættleiða börn erlendis frá.
    Svo vil ég að allra síðustu láta það koma hér fram, hæstv. forseti, að ég tel að það hafi tekist mjög vel til með þau börn sem ættleidd hafa verið til Íslands. Þessi börn hafa spjarað sig engu síður en alíslensk börn, af íslenskum uppruna, og þeim hefur til allrar guðslukku verið tekið vel í íslensku þjóðfélagi.