Lyfjaauglýsingar í fjölmiðlum

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:54:45 (6435)


[15:54]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru mjög merkileg að mínu mati. Þessi auglýsingaherferð kostar sem sé rúmlega 4 millj. kr. og það er auglýst í flestum fjölmiðlum en ekki í þeim eina fjölmiðli sem rétt hefði verið að auglýsa í, Læknablaðinu, því það er auðvitað verið að beina þessu til lækna að nýta alltaf ódýrasta kostinn sé það jafngóður kostur. En það vill svo til að það stendur á hverjum einasta lyfseðli, með leyfi forseta: ,,Ef læknir heimilar afgreiðslu ódýrasta samheitalyfs skal hann rita S fyrir aftan nafn listans. Ef læknir heimilar ekki afgreiðslu ódýrasta samheitalyfs skal hann rita R fyrir aftan nafn listans. Lyfseðillinn er ógildur sé þessari áritun sleppt.``
    Þetta hafa læknar gert samviskusamlega. Heldur hæstv. heilbrrh. virkilega að læknar í landinu fari eftir auglýsingum í útvarpi frá hæstv. heilbrrh.? Ímyndar sér hann það? Það ímynda ég mér ekki því ég þekki það vel til íslenskra lækna að þeir hugsa bæði um heilsu og um fjárhag sinna sjúklinga, þannig að ég tel að þarna sé hæstv. heilbrrh. að eyða almannafé til einskis. Enn og einu sinni kemur það í ljós að hæstv. heilbrrh. setur samasemmerki við lyf og haframjöl.