Vegalög

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 13:36:38 (6440)

[13:36]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. til vegalaga var lagt fyrir síðasta Alþingi. Samgn. tók málið fyrir á því þingi og sendi frv. til umsagnar víðs vegar um þjóðfélagið. Frv. var flutt að nýju í upphafi þessa þings og þegar vinna samgn. hófst varðandi frv. lágu þegar fyrir fjölmargar umsagnir og nokkrar bættust við meðan á verki nefndarinnar stóð. Þessar umsagnir eru frá eftirtöldum aðilum:
    Það er í fyrsta lagi frá flestum héraðsnefndum landsins, frá ýmsum samtökum sveitarfélaga, þar á meðal frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og frá skrifstofu borgarstjóra í Reykjavík.
    Umsögn barst frá Verktakasambandi Íslands, frá Búnaðarfélagi Íslands, frá Landssambandi hestamannafélaga og frá Hestaíþróttasambandi Íslands. Enn fremur bárust ábendingar um einstök atriði í frv. frá samgrn. og dómsmrn.
    Í starfi nefndarinnar voru kvaddir á fund hennar nokkrir aðilar til að ræða einstök efnisatriði frv. Það voru m.a. starfsmenn Vegagerðar ríkisins, Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri, Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóri og Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs Vegagerðarinnar. Enn fremur ráðuneytisstjórinn í samgrn., Jón Birgir Jónsson. Þá fékk nefndin á fund sinn frá Reykjavíkurborg þá Stefán Hermannsson borgarverkfræðing og Jón G. Tómasson borgarritara og fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og frá Sambandi hestamannafélaga þá Guðmund Jónsson formann, Guðbrand Kjartansson, Jón Levi, Kristján Auðunsson og Sigurð Þórhallsson.
    Nefndin lagði mikla vinnu í starf sitt varðandi þetta lagafrv. og kafaði vandlega ofan í þær umsagnir sem bárust, en í þeim voru fjölmargar ábendingar og sumpart athugasemdir við hinar ýmsu greinar frv. Í öllu starfi nefndarinnar naut hún aðstoðar ráðuneytisstjórans í samgrn. og þeirra starfsmanna Vegagerðar ríkisins sem fyrr eru taldir og eru þessum aðilum hér færðar þakkir fyrir þeirra aðstoð við afgreiðslu þessa máls.
    Frv. fjallar um þýðingarmikið efni, vegalög, sem snerta margvíslega hagsmuni og eru um málefni sem mjög margir hafa áhuga á, eins og skýrt kom fram í öllum þeim umsögnum sem nefndinni bárust. Ég vil þakka sérstaklega ágætt samstarf nefndarmanna og góðan vilja til þess að ná saman um þau atriði sem helst gat orðið ágreiningur um í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Árangur af því starfi var með þeim hætti að nefndin skilar samhljóða nál. sem birtist á þskj. 932 og flytur sameiginlega allmargar brtt. sem birtast á þskj. 933. Ég ítreka að ég þakka fyrir það samstarf sem átt hefur sér stað innan nefndarinnar og leitt hefur til þessarar niðurstöðu. Hér er vissulega um ýmis álitaefni að ræða. Sum þeirra gátu verið viðkvæm og hægt að teygja þau og toga ef ekki hefði verið svo góður vilji sem raun ber vitni um að ná sameiginlegri niðurstöðu.
    Ég tel að það sé rétt að fara hér nokkrum orðum um brtt. nefndarinnar. Sumar þeirra eru þó eingöngu með þeim hætti að þar er um orðalagsbreytingar að ræða, aðrar eru mjög tæknilegs eðlis þannig að samræmis sé gætt, en nokkrar þeirra fela í sér efnisbreytingar og þurfa skýringa við.
    Í II. kafla frv. er lögð til sú breyting að inn í 4. gr. verði sett almenn reglugerðarheimild fyrir ráðherra og er hún nokkuð á sama veg og sú reglugerðarheimild sem nefndin lagði til að sett væri inn í hafnalög sem afgreidd voru fyrr á þessu þingi.
    Við 5. gr. er smábreyting. Hún verður ekki gerð hér að umtalsefni heldur hitt að mér hafa borist ábendingar um að e.t.v. hefði verið skýrara í greininni þar sem fjallað er um að vegamálastjóra sé heimilt að fela einstaklingi, fyrirtæki, sveitarstjórn, stofnun eða samtökum þessara aðila veghald einstakra vegarkafla að nokkru eða öllu leyti, að nefna í þessari upptalningu héraðsnefndir. Ég vil taka það fram að ég tel að það orðalag sem hér gildir nái yfir héraðsnefndir, þar sem eru sveitarfélög og samtök þeirra, en héraðsnefndir eru samstarfsvettvangur sveitarfélaga í sýslum landsins. Ég tel rétt að nefna þessa ábendingu

þannig að enginn velkist í vafa um hver vilji nefndarinnar er ef þetta skyldi einhvern tíma upp koma og þykja einhver vafi leika á um afskipti héraðsnefnda af þessum málum. En það er sem sagt skilningur nefndarinnar að það orðalag sem hér er sé fullgilt og nái yfir þennan samstarfsvettvang sveitarfélaganna.
    Í III. kafla frv. er lagt til að ákvæði 8. gr. verði víkkað út þannig að safnvegir og tengivegir verði látnir ná til mikilvægasta athafnasvæðis í þéttbýli, en í frv. er gert ráð fyrir að þeir nái til mikilvægasta athafnastaðar. Hér er einvörðungu um blæbrigðamun að ræða sem er þó aðeins víðtækara að okkar skilningi heldur en sá texti sem upphaflega var í frv. Þá er lagt til að tengivegir, sem nú eru nefndir svo í þessu frv., nái að þriðja býli frá vegarenda þar sem búseta er í stað fjórða býlis eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
    Við gerð frv. var gert ráð fyrir að þessu yrði breytt frá gildandi lögum þannig að tengivegir nái að fjórða býli en ekki þriðja býli og það var gert með tilliti til þess að með því væri nokkuð aukið verksvið héraðsnefnda og annarra heimaaðila sem, ásamt Vegagerð ríkisins, fjalla um skiptingu fjármagns til þessara vega sem tengja eftir því þrjú síðustu býlin við tengivegi. Í nefndinni komu fram athugasemdir við þetta efni og hér er því lagt til að það sé horfið að sama skipulagi og er í gildandi lögum og tel ég ekki þurfa að hafa um það fleiri orð.
    Í IV. kafla frv. eru gerðar nokkrar lagfæringar á þeim greinum sem fjalla um einkavegi. Í frv. er gert ráð fyrir þeirri miklu einföldun að allir vegir sem ekki falla undir III. kafla, þar sem er upptalning á þjóðvegum, skuli teljast einkavegir. Þannig verða meginflokkar vega aðeins tveir og allir vegir í þéttbýli sem ekki teljast til þjóðvega falla undir hugtakið einkavegir. Fólki er á hinn bóginn tamt að telja einkavegi þá vegi sem lúta að einkarétti einhvers aðila og eigi er heimil umferð um nema með sérstöku leyfi og í umferðarlögum er ákvæði um torfærutæki þar sem skilningur er lagður í orðið einkavegur. Af þessum sökum leggur nefndin til þá breytingu að inn í IV. kafla verði tekið hugtakið almennir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Þá er einnig lagt til að hætt verði að nota hugtakið opinberir vegir en í staðinn komi þjóðvegir og í þess stað talað um þjóðvegi og almenna vegi. Áfram verður þá talað um einkavegi þar sem um er að ræða vegi sem eru einvörðungu til einkaafnota.
    Í 14. gr. frumvarpsins segir að helmingur þeirra sem afnotarétt hafa af einkavegi geti tekið bindandi ákvarðanir fyrir hina. Í brtt. nefndarinnar er hins vegar lagt til að meiri hluta þurfi til.
    Þá er lagt til að 16. gr. frv. verði nokkuð breytt. 16. gr. fjallar um heimildir til að veita fé til framkvæmda við vegi sem ekki teljast til þjóðvega. Þar er allmikil upptalning. Aðfararorðum þeirrar upptalningar er í fyrsta lagi breytt þannig að í staðinn fyrir að heimilt verði veita fé til framkvæmda við eftirtalda vegi komi heimild til að veita fé til greiðslu kostnaðar vegna þeirra framkvæmda sem hér er um að ræða. Úr greininni er í fyrsta lagi lagt til að fella niður ákvæði um reiðvegi og ákvæði um þá er tekið upp sérstaklega annars staðar. Í greininni komi hins vegar ákvæði um heimild til að veita fé til greiðslu kostnaðar við ferjur sem ekki fullnægja skilyrðum 23. gr. Með hliðsjón af því þykir mér rétt að fara örfáum orðum um þau ákvæði frv. sem lúta að ferjumálum.
    Í 23. gr. frv. eru ákvæði um heimild til að greiða af vegáætlun fé til ferja, eins og þar segir. Við 23. gr. er í fyrsta lagi gerð tillaga um þá breytingu að bætt verði við textann þannig að Vegagerðinni sé heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, svo og eiga aðild að félögum sem hafa eignarhald á þeim.
    Í þessari grein segir enn fremur, með leyfi forseta:     ,,Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg a.m.k. hluta úr ári. Einnig er heimilt að greiða hluta kostnaðar við bryggjur fyrir slíkar ferjur. Í vegáætlun skulu ferjuleiðir taldar upp og gerð grein fyrir stofnframlögum til einstakra ferja.``
    Með þessum ákvæðum er mótuð sú aðalregla að gert er ráð fyrir því, eða heimildir eru í frv., að greiða fé til ferja og kostnaðar við þær, sem þjóna því hlutverki sem hið almenna vegakerfi gerir annars staðar. Það lýtur til að mynda að því þar sem um er að ræða ferjuleiðir yfir sund og firði, eins og segir í greininni sjálfri, þar sem ekki er haldið uppi vegasambandi allt árið.
    Frá þessari meginreglu eru síðan frávik í frv. sjálfu og þau frávik eru nokkuð aukin í brtt. nefndarinnar. Í fyrsta lagi er um að ræða ákvæði til bráðabirgða þar sem í frv. er gert ráð fyrir því að heimilt sé í þrjú ár að greiða fé vegna kostnaðar við ferjur sem ekki falla undir þessa 23. gr. Í brtt. nefndarinnar er þetta svigrúm fært upp í fimm ár. Síðan er gert ráð fyrir því í 16. gr., sem ég hef hér verið að ræða, að inn í þá grein komi einnig heimild til þess að greiða fé varðandi ferjur sem ekki fullnægja skilyrðum 23. gr. Þar með eru komnar viðbótarheimildir til greiðslu kostnaðar við slíkar ferjuleiðir ef Alþingi sýnist rétt, að taka ákvörðun um að greiða hluta kostnaðar við þær.
    Um þetta var allmikið rætt í nefndinni en náðist samkomulag um þær brtt. sem hér hefur verið lýst varðandi þessi efni.
    Önnur atriði er lúta að 16. gr. eru sumpart til þess að gera ákvæði skýrari um þær heimildir sem þar er um að ræða. Þar segir t.d. í stað orðanna ,,vegi að sjúkraflugvöllum`` í 1. mgr. komi: vegi að flugvöllum sem ekki eru áætlunarflugvellir en taldir eru upp í flugmálaáætlun sem þjónustuvellir eða lendingarstaðir. Hér er auðvitað um heimild að ræða eins og áður sagði.
    Þá er gert ráð fyrir, eins og ég hef þegar rakið, að niður falli ákvæði um reiðvegi í þessari grein

en jafnframt að í 16. gr. bætist málsgrein sem er svohljóðandi: ,,Ráðherra ákveður skiptingu fjárveitinga til einstakra framkvæmdaflokka að fengnum tillögum vegamálastjóra og samgn. Alþingis.``
    Sú breyting sem þarna er lýst felur í sér afskipti fulltrúa löggjafarvaldsins, þ.e. að fulltrúar í samgn. koma að tillögugerð varðandi skiptingu á fé til þeirra ýmsu liða sem heimildir liggja fyrir um skv. 16. gr. Síðan er það hlutverk ráðherra að taka ákvörðun, staðfesta þær tillögur ellegar að breyta þeim og hann hefur að lokum ákvörðunarvald.
    Ég tel að þær breytingar á 16. gr. sem hér hefur verið lýst feli í sér að sú grein sé bæði skýrari og eins og áður sagði er hún fyllri og felur í sér að afskipti fulltrúa löggjafarvaldsins koma þar að. Áður var það ráðherra einn.
    17. gr. frv. er breytt á þann veg að þar eru tekin upp ákvæði um reiðvegi. Við 1. umr. um frv. var allmikið rætt um reiðvegi og fulltrúar hestamannasamtaka í landinu, hestamannafélög og Íþróttasamband hestamanna, hafa komið að máli við nefndina varðandi þetta mál.
    Í brtt. nefndarinnar er lögð fram tillaga um að þessi grein orðist svo:
    ,,Í vegáætlun skal veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög.``
    Hér er um nokkuð skarpari ákvæði að ræða heldur en voru í frv. eins og það var þegar það var lagt fram en verður þó að sjálfsögðu ævinlega á valdi Alþingis hversu miklu fé er varið til þessa verkefnis hverju sinni í vegáætlun. Jafnframt er tryggt að samtök hestamannafélaga og sveitarfélög komi að slíkri áætlunargerð.
    Við 29. gr. eru gerðar tillögur um nokkra breytingu. Lagt er til að hún verði svohljóðandi: ,,Vegir skulu lagðir í samræmi við skipulag. Við gerð skipulags skal haft samráð við Vegagerðina um val á legu þjóðvega og tengingar við þá. Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun. Rísi ágreiningur um réttmæti slíkrar kröfu eða um fjárhæð skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.``
    Meginbreytingin er sú að hér er um málskotsrétt að ræða. Þar sem ekki er samkomulag hefur sveitarstjórn í þessu tilfelli rétt til þess að skjóta máli til úrskurðar samgrh. sem þá fellir um það úrskurð, en slík ákvæði voru ekki í frv. þegar það var lagt fram.
    Við 33. gr. frv. er lagt til að felld verði brott ein málsgrein. Upphaflega kom þessi málsgrein inn í lögin áður en landið allt var skipulagsskylt en nú eru allir vegir landsins lagðir í samræmi við skipulag og ákvæði því úrelt og lagt til að málsgreinin verði felld brott.
    Í VIII. kafla er lagt til að í 44. gr. verði lögbundin skylda Vegagerðarinnar til þess að hafa samráð við landeiganda um bráðabirgðaafnot lands.
    Í IX. kafla er lagt til að 3. og 4. málsl. 1. mgr. 47. gr. falli brott en þar er um að ræða ákvæði sem er í fullu samræmi við framkvæmd dóma samkvæmt þessum ákvæðum og þykir ekki ástæða til þess að hafa það sérstaklega í lögum heldur er þar um réttarvenju að ræða.
    Þá er lagt til að ákvæði í 49. gr. verði víkkað þannig að hægt sé að krefjast bóta eftir að verki lýkur þó að skaði komi ekki strax í ljós. Þó er hinn almenni 10 ára fyrningarfrestur látinn marka endalok hinna hugsanlegu skaðabótakrafna.
    Í XIII. kafla er lagt til að í 62. gr. séu almenn ákvæði um að með lögunum falli úr gildi vegalög nr. 61/1977, með síðari breytingum, í stað þess að telja upp sérstaklega allar breytingar sem orðið hafa á gildandi lögum og er þess vegna einvörðungu um tæknilegt atriði að ræða.
    Ég hef áður lýst brtt. nefndarinnar við bráðabirgðaákvæði og sé ekki ástæðu til að endurtaka það.
    Þá vil ég geta þess að í 56. gr. frv. eru ákvæði sem banna lausagöngu búfjár á vegsvæðum þar sem girt er báðum megin vegar. Þannig er lögð aukin áhersla á viðhaldsskyldu vegna girðinga. Miklar umræður urðu um þessi mál á fundum nefndarinnar og allmargar athugasemdir komu fram í hinum ýmsu umsögnum við frv. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að samgrh. mundi skipa nefnd til að endurskoða lagaákvæði VII. kafla, sem fjallar um girðingar, í þessum lögum og á grundvelli þeirrar athugunar yrði lagt fram frv. um framtíðartilhögun þessara mála í þingbyrjun næsta haust. Fyrir nefndinni lá uppkast að yfirlýsingu hæstv. samgrh. sem var með þeim hætti að nefndin í heild féllst á þessa meðferð mála. Innan nefndarinnar komu fram ýmsar hugmyndir um með hvaða hætti reynt yrði að tryggja að viðhald girðinga yrði í lagi en á því er verulegur misbrestur eins og nú standa sakir. Þegar um er að ræða bann við lausagöngu búfjár á vegsvæðum er nauðsynlegt að tryggja, svo sem föng eru á, að girðingum sé haldið við. Meðal hugmynda sem fram komu innan nefndarinnar var sú að hluti af áætluðum kostnaði við viðhald girðinga á hverju ári yrði greiddur af vegafé. Það fé yrði greitt hlutaðeigandi sveitarfélagi og ábyrgð sveitarfélagsins yrði sú að hlutast til um það að úthluta þessu fé til viðhaldsgirðinga í sínu umdæmi en sjá jafnframt til þess að viðhaldsskyldunni yrði sinnt.
    Jafnframt yrði þá að fella inn ákvæði þess efnis að væri þessu ekki sinnt af hálfu heimamanna hefði Vegagerð ríkisins heimild til þess að vinna verkið og þá á kostnað hlutaðeigandi heimaaðila. Þessar hugmyndir voru þannig að nauðsynlegt er að athuga um framkvæmd þeirra og undirbúa slíkar heimildir að höfðu samráði við sveitarfélögin. Að dómi nefndarinnar er of hastarlegt að fella slík ákvæði inn í lagafrumvarp eins og þetta á lokastigi án þess að tóm hafi gefist til að ræða slík mál með eðlilegum hætti

við sveitarstjórnir og samtök þeirra hér og þar á landinu.
    Yfirlýsing hæstv. samgrh. sem sýnd var í nefndinni lýtur að því að endurskoða ákvæði er varða uppsetningu og viðhald girðinga og þátt Vegagerðar ríkisins í þeim málum og leggja síðan frumvarp fyrir á haustþingi.
    Að lokum skal tekið fram að nefndin telur eðlilegt og nauðsynlegt í framhaldi af setningu þessara laga að færa önnur lög til samræmis við þær breytingar á gildandi lögum sem hin nýju lög munu hafa í för með sér. Sérstaklega á það við um ákvæði umferðarlaga sem að ýmsu leyti koma inn á einstaka vegflokka.
    Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég ítreka þakklæti mitt til nefndarmanna fyrir þá miklu vinnu sem lögð var í þetta mál og legg til, fyrir hönd samgn., að þær brtt. sem birtast á þskj. 933 og fluttar eru af nefndinni í heild verði samþykktar og frv. verði samþykkt svo breytt sem lög frá Alþingi.