Vegalög

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 14:14:32 (6445)


[14:14]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. formanni samgn. að mikil vinna hefur verið lögð í umfjöllun um þetta frv. og nánast búið að fjalla um það meira og minna í allan vetur. Það hefur verið tekið mikið tillit til þeirra athugasemda og ábendinga sem hafa komið fram í nefndinni hvort sem það hefur verið frá þeim sem hafa sent umsagnir eða frá nefndarmönnum. Mér finnst alveg fullkomin ástæða til þess sem nefndarmaður í samgn. að þakka hv. formanni fyrir þá alúð sem hann lagði í það að skoða allar ábendingar og athugasemdir nefndarmanna.
    Hins vegar náðist auðvitað ekki allt fram sem við í nefndinni höfðum við þetta frv. að athuga, m.a. það sem formaður nefndi áðan með girðingarmálin. Því var frestað til haustins að ganga frá því máli eða koma með tillögur til frekari úrbóta þar. Við töldum að það þyrfti meiri umfjöllun um þann kafla og fá fleiri til viðtals og skoða með hvaða hætti væri hægt að leysa það mál.
    Það er orðið mjög aðkallandi að finna einhverja viðunandi lausn á því hvernig gæta skuli öryggis vegfarenda og þeirra sem um vegi fara hvort sem það eru menn eða málleysingjar. Það gildir ekki hvað síst um vaxandi umferð hestamanna um vegina. Inn í þetta frv. kemur einnig sterkari áhersla á að veita fé til reiðvega sem er liður í því að gera reiðvegaáætlun og leggja reiðvegi um landið þar sem brtt. hér kveður ekki á um að það sé heimilt eins og hefur verið og var lagt til áfram í þessu frv. heldur segir í 10. lið brtt. að það skuli veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun. Það er búið að gera áætlun um reiðvegi um Suðvesturland í samráði við hestamenn og mig minnir að Vesturland væri þar inni líka en það var alla vega búið að gera áætlun um nokkurn hluta landsins þar sem segja má að mesta umferð hestamanna sé. Verður unnið áfram að því að gera slíkar reiðvegaáætlanir og er þá komið inn í vegáætlun að veita skuli fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög.
    Auðvitað má spyrja hvort verið sé að taka inn viðbótarkostnað til þess að greiða af núverandi tekjustofnum vegáætlunar og það er svo ef ekki kemur til viðbótarfjármagn til þeirra verka. Það hefur nokkuð verið rætt um það þó að það sé ekki inni í þessu frv. hvernig afla skuli viðbótarfjár til þess að geta staðið myndarlega að gerð reiðvega um landið og mér er raunar engin launung á því að ég tel alveg fullkomna ástæðu til þess að skattleggja einhverjar vörur hestamanna til þess að auka tekjur til reiðvegagerðar.
    Þeir sem hafa haldið uppi miklu af þeim tekjustofnum sem notaðir eru til vegagerðar í landinu eru bíleigendur. Þeir borga allmikla skatta og gjöld af sínum samgöngutækjum og það er ekki óeðlilegt að mínu mati að hestamenn geri það einnig ef á að fara að gera sérstaka reiðvegi, sem er nauðsynlegt, til þess að auka öryggi þeirra og koma til móts við kröfur sem kalla á reiðvegi þar sem umferð hestamanna hefur aukist mjög mikið.
    En svo að ég víki aftur að girðingarmálunum, þetta eru nokkuð tengd mál, þ.e. bæði reiðvegir og

girðingarmál. Þetta eru líka hvort tveggja öryggismál og ég hef allan fyrirvara á því að ég tel að það þurfi að skoða betur þessi girðingarmál. Nú er það svo að meðfram mörgum helstu þjóðvegum eru girðingar. Þær eru engan veginn fullnægjandi. Þær halda engum skepnum stóran hluta úr árinu, bæði vegna lélegs viðhalds og snjóalaga, t.d. á fjöllum uppi. Þar liggja girðingarnar í kafi stóran hluta úr árinu og engum til gagns ef þar væru á ferð einhverjar skepnur. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum að því en það er eitt af skilyrðum fyrir því að ég hef skrifað upp á nefndarálit með þessu frv. að þetta mál verði skoðað mjög gaumgæfilega sem allra fyrst og eins og formaður lýsti, það verði gert í haust strax og þing kemur saman að nýju.
    Fyrir utan þessi tvö mál var einnig mikið rætt um ferjumálin og var uppi allmikill ágreiningur innan nefndarinnar um þau. Niðurstaðan varð sú að eftir að breytingartillögur höfðu komið fram um það að felldur væri niður hluti af 1. mgr. í 23. gr. þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg``, þ.e. málsgreinin hljóðar þannig öll:
    ,,Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg a.m.k. hluta úr árinu.``
    Það er seinni hluti þessarar setningar sem við vildum helst að hefði dottið út, hefði verið felldur út, og þar með hefði ekkert meira þurft um það að segja hvernig þetta ákvæði um ferjur væri inni í þessu frv., en þrátt fyrir ítrekaðar umræður og athugasemdir náðist það ekki fram að öllu leyti. Það er inni ákvæði til bráðabirgða í frv. þar sem segir að heimilt sé að greiða hluta kostnaðar við ferjur samkvæmt 3. gr. í allt að þrjú ár frá gildistöku laga þessara þó ekki sé fullnægt skilyrðum greinarinnar. Þetta hefur nú verið lengt í fimm ár samkvæmt brtt. og þar að auki tekið inn í 16. gr. að í vegáætlun sé heimilt að veita fé til greiðslu kostnaðar við eftirfarandi samgönguleiðir í staðinn fyrir eftirfarandi vegi eins og er í frv. Þar komi síðan inn ákvæði þar sem segir í d-lið 9. gr., 1. mgr.: ferjur sem ekki fullnægja skilyrðum 23. gr. Þó að það megi segja að það sé nokkuð verið að fara í kringum málið með því að hafa þetta inni í 23. gr. en setja síðan ákvæði til bráðabirgða um að þetta gildi ekki í fimm ár og setja síðan inn í 16. gr. að þar megi veita fé til framkvæmda við þessar samgönguleiðir, m.a. ferjur sem ekki fullnægja þessum skilyrðum, þá töldum við hér að það væri allnokkur sigur unninn og ég segi fyrir mig að miðað við þessar aðstæður stend ég að því að þetta fari á þennan veg. Ég tel að hér hafi áunnist það að Alþingi sé það í sjálfsvald sett á hverjum tíma hvaða ferjur það rekur eða leggur fé til og það sé þá annaðhvort sjálfstæð ákvörðun Alþingis að leggja fram fé til þess eða það sé inni í vegáætlun eins og hér kveður á um og það er á engan hátt bannað að leggja fé fram til þessara mála.
    Þá má auðvitað geta þess líka svona í leiðinni að það er ekki víst að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi ástæðu til þess að framfylgja þessu frv. eftir fimm ár þegar undanþáguákvæðið er komið út þannig að við sem gagnrýndum þetta höfum von um það að hugsanlega væri annaðhvort hægt að lengja þetta ákvæði eða breyta 23. gr. Ég tel því að við þetta sé hægt að una á þessu stigi málsins.
    Hvað varðar frekari greinargerð fyrir þessu frv. þá hefur hv. formaður farið vel yfir þær breytingartillögur sem nefndin stendur öll að. Ég vildi þó aðeins nefna eitt sem hefur komið fram eftir að nefndin lauk umfjöllun um þetta mál. Það er það sem segir í breytingartillögunum, það er 9. liður við 16. gr., að í stað orðanna ,,vegi að sjúkraflugvöllum``, sem er á bls. 4 í frv. í 16. gr., það er heimilt að veita fé til greiðslu kostnaðar við þær samgönguleiðir eins og búið er að breyta því og í staðinn komi samkvæmt brtt.: vegi að flugvöllum sem ekki eru áætlunarflugvellir en taldir upp í flugmálaáætlun sem þjónustuvellir eða lendingarstaðir.
    Nú hefur nefndin hafið umfjöllun um flugmálaáætlun frá því að þetta frv. var tekið út úr nefndinni og þá kemur í ljós að það er verið að taka í flugmálaáætlun út í kringum 20 þjónustuvelli eða lendingarstaði. Þeir eru teknir út úr flugmálaáætlun eins og hún lítur út núna. Hún er að sjálfsögðu ekki afgreidd, hún er enn til vinnslu í nefndinni, en þetta held ég að við þurfum að skoða. Ég vil beina því einnig til hv. alþingismanna sem hafa áhuga fyrir þessum málum að til þess að það megi leggja vegi í stað þess að stóð áður sjúkraflugvöllum þá komi þetta vegi að flugvöllum sem ekki eru áætlunarflugvellir. Það eru margir flugvellir sem eru ekki áætlunarflugvellir, en þeir eru taldir upp í flugmálaáætlun sem þjónustuvellir eða lendingarstaðir og þar af leiðandi getur þurft að skoða það mjög vel hvort það er ásættanlegt að taka út samkvæmt flugmálaáætlun þessa yfir 20 þjónustuvelli eða lendingarstaði sem samkvæmt áætluninni á að gera í dag. Þessu vildi ég koma á framfæri hér til þess að það verði skoðað rækilega hvernig þetta kemur heim og saman við flugmálaáætlun því að ef ekki má leggja fram fé til vega sem liggja að flugvöllum þó að það séu ekki áætlunarflugvellir nema þeir séu taldir upp í flugmálaáætlun, þá geta þarna komið upp andstæð sjónarmið og virkilega athugunarverð að ekki sé hægt að sætta sig við þessa útfærslu. Ég tel því að það þurfi að skoða þetta aftur áður en þetta frv. verður samþykkt af því að þetta er komið upp nú í millitíðinni frá því að þetta var afgreitt út úr nefndinni og einmitt í tengslum við flugmálaáætlun.
    Í 56. gr. þessa frv. eru ákvæði sérstaklega um lausagöngu búfjár. Það er eins og ég sagði áðan ákveðið samkvæmt tilmælum frá ráðherra að það verði skoðað sérstaklega síðar og nefndin gat engan veginn sætt sig við að frv. væri afgreitt nema því aðeins að loforð væri fyrir því að það mál yrði tekið upp að nýju. Þar þarf að athuga girðingarlög til þess að þetta stangist nú ekki á og einnig að ræða við sveitarfélög og aðra aðila. En ég held að það sé orðið mjög nauðsynlegt að taka á því hvernig á að fara með

lausagöngu búfjár á vegsvæðum mikilla umferðarvega, stofnvega, tengivega og hvað þeir heita nú allir saman eftir að búið er að breyta nöfnum á þeim. En það er sem sagt ófrágengið mál hvernig á að fara með þessi girðingarmál. Það hefur allmikið verið rætt um það í nefndinni og ég vænti þess að sú umræða haldi áfram og við finnum á því lausn.
    Það segir einnig í brtt. að samkvæmt 56. gr. sé lögð aukin áhersla á viðhaldsskyldu vegna girðinga. Þá er spurningin: Hver á að kosta það viðhald? Hver er ábyrgur? Hver á að sjá um það?
    Að öðru leyti tel ég að ég sé búin að nefna þau mál sem mest voru rædd og ágreiningur var um og hvernig ég lít á það að afgreiða þetta út núna. Ég vildi kannski aðeins minnast á það sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi áðan í 52. gr. Það er alveg rétt sem formaður sagði að það hefur ekki verið rætt sérstaklega hvað varðar skriðuföll en samkvæmt því sem segir hér í síðustu málsgrein þá stendur hér, með leyfi forseta:
    ,,Einnig getur Vegagerðin bannað alla umferð ökutækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið.``
    Auðvitað verða vegir skemmdir og hættulegir ef á þá hafa fallið skriður þannig að Vegagerðin getur þá bannað alla umferð og það hefur hún gert. Hér er í raun og veru engin efnisbreyting frá 61. gr. sem kveður á um þetta í núgildandi lögum annað en að hér er sagt Vegagerðin í staðinn fyrir ,,vegamálastjóri`` í núgildandi lögum. Þetta var talið fullnægja því sem menn voru að ræða en ég skal viðurkenna að það var ekki sérstalega rætt um skriðuföll. Sú sem hér stendur hefur reynslu af því þegar þarf að loka vegum vegna snjóflóða og ég held að almannavörnum á hverjum stað sé best treystandi til að finna út úr fyrir því hvenær þarf að loka vegna snjóflóða og trúlega einnig vegna skriðufalla ef þau væru í þéttbýli eða næsta nágrenni.