Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:14:39 (6452)


[15:14]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli því ekki er vanþörf á. Ég er þeirrar skoðunar til að gera langt mál stutt að það verði að ráðast í að kaupa nýja björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna og sá hráskinnaleikur sem leikinn er í þessu máli núna sé ekki við hæfi. Það eru alveg dæmalaus álög á ríkisstjórnina að geta ekki verið sammála um neitt, stórmál fyrir Landhelgisgæsluna. Ég er þeirrar skoðunar, eins og kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að viðræður við varnarliðið um framtíð björgunarsveitarinnar og kaup nýrrar þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna sé alveg samrýmanlegt. Ég er fylgjandi því að ræða við varnarliðið um framtíð björgunarsveitarinnar, hvernig hún getur komið inn í björgunarmál og sá þyrlufloti og þar á meðal um staðsetningu þyrluflotans. En þetta mál má ekki dragast lengur. Þetta er orðið til vansa. Þingið hefur veitt sínar heimildir fyrir löngu til þessara hluta og ég spyr nú: Ef það er ætlunin að ræða við varnarliðið um framtíð þyrlubjörgunarsveitarinnar, sem telur fjórar þyrlur, hvaða tilgangur er þá að kaupa þrjár í viðbót bara af því að þær fást á svo góðum kjörum? Ég næ þessum rökstuðningi ekki heim og saman. Ég held að það liggi fyrir að endurnýja þyrluflota Landhelgisgæslunnar og ganga svo að hinu málinu og ég sé ekki að það sé ósamrýmanlegt.