Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:17:00 (6453)


[15:17]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir fáránleik í þyrlukaupamálum ríkisstjórnarinnar er mér ekki skemmt. Ég ítreka það enn og aftur að það var fyrst árið 1988 og síðan árið 1991 að Alþingi samþykkti ályktun um kaup á björgunarþyrlu. Síðan hafa árin liðið og ekkert hefur gerst. Ríkisstjórnin hefur gersamlega hunsað vilja Alþingis í þessu mikilsverða máli þrátt fyrir ótal umræður og eftirrekstur bæði hér á Alþingi og úti í þjóðfélaginu. Á þessum tíma hafa mörg góð tækifæri gengið okkur úr greipum og það sem alvarlegast er, oft verið teflt á tæpasta vað með öryggi á sjó og landi. Við vitum vel hvaða kostir eru raunhæfir og fullnægjandi. Á nú að fara að tefja málið enn með óljósum hugmyndum einstakra ráðherra um þyrlukaup frá Bandaríkjunum? Svo virðist vera. Ég álasa ekki Bandaríkjamönnum fyrir þeirra þátt. Það er ljóst að mistök geta alltaf átt sér stað og við hljótum sjálf að bera ábyrgð á björgunarmálum á Íslandi og getum ekki skellt skuldinni á aðra.
    En ríkisstjórnin hefur svo árum skiptir staðið í vegi fyrir framgangi málsins og ábyrgðarlaust hjal hæstv. utanrrh., sem jafnvel hefur léð máls á kaupum á allsendis ófullnægjandi þyrlum, vekur bæði undrun og hryggð.
    Hæstv. viðskrh. segir í viðtali við dagblaðið Tímann í dag að þrjár vikur til eða frá skipti ekki máli. Virðulegi forseti. Þetta er alrangt. Samkvæmt tímaskyni hæstv. ríkisstjórnar í þyrlumálum er hver vika óralöng og aldrei styttri en nokkrir mánuðir. Þannig sagði hæstv. forsrh. á hv. Alþingi þann 25. febrúar 1993, fyrir um það bil 60 vikum, að ríkisstjórnin mundi innan fárra vikna ganga til samninga um kaup á þyrlu. Þessi skilgreining á fáum vikum er ekki til þess fallin að vekja hjá manni traust um að þrjár vikur séu skammur tími eftir tímatali hæstv. ríkisstjórnar.