Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:19:19 (6454)


[15:19]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp sem er afar brýnt. Ég vil vitna til orða hæstv. dómsmrh. þar sem hann lýsir vinnubrögðum samráðherra sinna á þá leið að hér sé um tafarleiki að ræða og hann sé orðinn þreyttur á slíkum tafarleikjum. Það er alveg hárrétt að

menn sjást ekki fyrir í þessum tafarleikjum sínum. Hingað kemur tilboð frá Bandaríkjamönnum sem er svo gott að menn hafa enga trú á því, ekki nokkra trú á því, en þeir ryðjast samt fram í fjölmiðla og birta þetta tilboð til þess eins að leika enn einn tafarleikinn. Síðan er málflutningurinn slíkur að hann er kolrangur og ósannur. Hæstv. starfandi utanrrh. sagði það blákalt fyrir nokkrum dögum að það tæki 12 til 18 mánuði að þjálfa flugmenn á þessar þyrlur. Ég hringdi til Landhelgisgæslunnar í morgun og ræddi þar við þyrluflugmenn. Þeir segja mér að það taki sex vikur og meira að segja eftir sex vikur hafi þeir réttindi til þess að taka sjálfir að sér þjálfun á slík tæki. Menn sést því ekki fyrir í því að reyna að tefja þetta mál.
    Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að það væri spurning hvort Bandaríkjamenn gætu boðið þrjár þyrlur sem fullnægðu þeim kröfum sem við setjum. Það liggur fyrir á borðinu að Bandaríkjamenn geta ekki boðið slíkar þyrlur. Þær hafa ekki þá burðargetu sem við höfum krafist. Þær hafa burðargetu upp á 8 manns en við erum að tala um rúmlega 20 manns. Þær hafa flotþol sem dugar í 2--3 mínútur eða aðeins til þess að bjarga flugmönnum úr þyrlunni en ekki tækinu sjálfu. Þær hafa ekki viðurkenndan afísingarbúnað, þær hafa það sem kallað er hernaðarstaðall en ekki borganlegan staðal og Landhelgisgæslan mætti ekki fljúga þeim hér vegna reglna og laga um loftferðir. Þannig mætti lengi telja. Þær hafa ekki sömu burðargetu. Þær eru tæknilega langt frá því að vera eins fullkomnar og sú þyrla sem dómsmrh. hefur mælt með og ég styð hann eindregið í því.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, segja það að þetta mál er orðið til slíkrar hneisu fyrir alla ríkisstjórnina að undanskildum hæstv. dómsmrh. sem virðist vera einn í sinni baráttu innan ríkisstjórnarinnar að það tekur ekki nokkru tali.