Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:24:17 (6456)


[15:24]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni segja eftirfarandi um þetta mál. Það er yfirlýstur vilji Alþingis, ríkisstjórnar og þeirra félagasamtaka sem helst hafa beitt sér í málinu að íslensk stjórnvöld eignist öfluga og fullkomna björgunarþyrlu. Um það er enginn ágreiningur. Hins vegar hefur stundum mátt draga þá ályktun af umræðum á hinu háa Alþingi um það mál að þyrlubjörgunarmál væru í algerum ólestri, hér væri neyðarástand og því seinustu forvöð að taka kostatilboði, seinasta tilboði sem berst.
    Reyndin er nú reyndar sú að óvíða í heiminum munu vera jafnmargar vel búnar björgunarþyrlur til reiðu miðað við fólksfjölda og öruggt að þær verða það næstu tvö árin. Rétt er að menn hafi í huga björgunarafrekið í Vöðlavík í vetur því til staðfestingar. ( Gripið fram í: Á að fresta þessu í tvö ár til?)
    Að því er varðar hið óvænta frumkvæði bandarískra stjórnvalda sem sett voru fram í viðræðum við hæstv. forsrh. og þann sem hér stendur 4. jan. þá breytti það að sjálfsögðu forsendum málsins. Ríkisstjórnin brást við með því að skipa starfshóp í febrúar. Það hafa farið fram könnunarviðræður sem ekki eru á þessu stigi málsins orðnar að formlegum samningviðræðum. Næsta skref í þessu máli er væntanlega það að hingað komi sérfræðingasveit til samningaviðræðna og ekkert af því sem í þessu máli felst er nein tafaraðgerð. Það er alls ekki verið að stefna að því að drepa málinu á dreif eða tefja málið. Skoðanaskipti íslenskra stjórnvalda og bandarískra hafa þegar leitt í ljós að unnt væri að kaupa nýja vel útbúna björgunarþyrlu af bandarískri gerð fyrir nokkurn veginn sömu upphæð og átta ára gamla þyrlu af franskri gerð. Og hvert yrði endursöluverð átta ára gamallar þyrlu eftir fimm ára notkun?
    Tíminn er naumur, virðulegi forseti, en ég vil taka það fram að nýleg niðurstaða þyrlukaupanefndar, sem hæstv. dómsmrh. hefur vitnað til, var sett fram með fyrirvara. Nefndin tók einvörðungu afstöðu til þeirra tilboða sem þá höfðu borist en tók ekki afstöðu til upplýsinga frá bandarískum stjórnvöldum í tengslum við hugsanlegt samstarf í þyrlubjörgunarmálum.
    Virðulegi forseti. Ég árétta og undirstrika að þær breyttu forsendur sem orðið hafa í þessu máli stafa ekki af vilja eins eða neins til þess að tefja þetta mál. Þvert á móti er staðan sú að málið er í nýjum farvegi og það verður látið á það reyna til lykta og reynt að hraða því eftir föngum að niðurstaða fáist í málinu.