Kaup á björgunarþyrlu

136. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:35:57 (6462)


[15:35]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem áður hefur komið fram að það liggur fyrir mjög vönduð úttekt og mjög vandaðar skýrslur sem við höfum stuðst við í dómsmrn. til að komast að niðurstöðu um það hvaða þyrlukostur væri heppilegastur fyrir Landhelgisgæsluna. Ég treysti fullkomlega þeim sérfræðingum sem þar hafa komið að verki. Þeir hafa tekið alla nýja möguleika sem fram hafa komið og borið saman og þar á meðal borið saman þær þyrlur sem nú eru á Keflavíkurflugvelli við Super Puma og komist að niðurstöðu þar um fyrir heilu ári síðan.
    Varðandi stöðu málsins í dag þá hefur það verið samþykkt að gera Bandaríkjamönnum að svara innan þriggja vikna hvort þeir séu tilbúnir til þess að selja okkur þrjár þyrlur á sambærilegu verði og sú franska kostar og tryggja að rekstrarkostnaður þeirra verði ekki meiri en hennar. Hafi þessi svör ekki borist innan þess tíma verður gengið frá kaupum á þeirri þyrlu af franskri gerð sem ég hef lagt til að keypt yrði. Sá frestur sem við höfum fengið frá söluaðilunum stendur í þrjár vikur en með þeim fyrirvara að ef nýir kaupendur koma og vilja festa kaup á þyrlunni þá þurfum við innan tveggja daga að geta svarað því hvort við viljum halda okkur við kaupin eða ekki. Þannig stendur málið og nokkuð ljóst samkvæmt því að ekki munu líða meira en þrjár vikur þangað til það verður leitt til lykta.