Vegalög

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:43:46 (6466)


[15:43]
     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegur forseti. Ég tel rétt að svara hér nokkuð frekar en mér auðnaðist í andsvari athugasemdum hv. 4. þm. Austurl. Í fyrsta lagi að því er varðar 9. gr. Miðað við brtt. nefndarinnar skiptist hún nú í tvær málsgreinar. Í fyrsta lagi kemur ný málsgrein eins og segir í brtt. nefndarinnar en síðari málsgrein var í frv. upphaflega og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Einkavegir eru þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opinberum aðilum.``
    Hv. þm. taldi að það hlyti að leika mikill vafi á því að unnt væri að telja til einkavega vegi sem kostaðir væru af opinberum aðilum og að þeir aðilar hefðu heimild til þess að loka þeim vegum. Ég hef rifjað upp þær upplýsingar sem fyrir lágu um að það eru mörg tilvik sem eru í þessu horfi. Það eru allmörg dæmi um að vegum sem byggðir eru af hálfu opinberra aðila er síðan lokað vegna þess að þar er um einkavegi þessara opinberu aðila að ræða. Dæmi þar um er vegur að Skálafelli á vegum Pósts og síma. Póstur og sími hefur talið að sá vegur væri ekki fyrir almenna umferð og eðlilegt að honum væri lokað. Vegurinn er kostaður algerlega af því fyrirtæki, sem er opinbert fyrirtæki, og telst því kostaður af opinberri hálfu. Sömu sögu er að segja um aðra vegi t.d. sem liggja að ratsjárstöðvum og ýmsa slíka vegi sem liggja að starfsemi á vegum opinberra fyrirtækja sem er ekki eðlilegt að séu opnir fyrir almennri umferð. Þetta er sú skýring sem ég tel fullnægjandi fyrir hv. þm., sem því miður er ekki hér viðstaddur, og er fullkomlega eðlilegt að hann hafi ekki í því augnakastinu áttað sig á.
    Þá gerði hv. þm. athugasemdir varðandi lokun vega, að ekki væri finnanlegar í frv. heimildir fyrir Vegagerð ríkisins til að loka vegum t.d. vegna snjóa, vegna hættu á snjóflóðum eða skriðuföllum o.s.frv. sem hann tilgreindi. Í 52. gr. frv. eru ákvæði um þetta efni sem ég mun lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:
    ,,Vegagerðin getur sett þær reglur fyrir umferð, sem nauðsynlegar eru, til þess að girða fyrir skemmdir á vegum eða til þess að greiða fyrir umferð, svo sem um hámarksþunga bifreiða er fara mega um ákveðna vegarkafla.
    Vegagerðin getur enn fremur bannað umferð ökutækja þann tíma árs sem hættast er við skemmdum á vegum. Einnig getur Vegagerðin bannað alla umferð ökutækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið.``
    Þessi grein lýtur að því að Vegagerðin getur bannað umferð um veg sem hún telur annað tveggja hættulegan vegna skemmda ellegar að hætta sé á að vegurinn spillist. Nú svarar þetta ekki nema að hluta því sem hv. 4. þm. Austurl. spurði um. Ef um er að ræða að loka vegi vegna snjóalaga eða vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum eða annarra utanaðkomandi orsaka þá er að því vikið í umferðarlögum. Þar er þessi heimild á hendi lögreglu og í sumum tilvikum, eins og ég sagði í svari til hv. þm., á vegum almannavarnanefnda, en tilkynningar um að vegur sé lokaður eru oftast birtar af Vegagerðinni. Ekki hefur verið talin ástæða til þess að taka ákvæði umferðarlaga sem að þessu lúta upp í þetta frv. Vænti ég að þessi svör séu fullnægjandi fyrir hv. þm.
    Ég hlýddi á ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. þar sem hann lýsti nokkurri óánægju sinni með það að girðingarákvæðum frv. væri frestað og að sú málsmeðferð yrði viðhöfð sem lýst hefur verið á grundvelli þeirrar yfirlýsingar sem hér hefur verið kynnt og hæstv. samgrh. hefur gefið.
    Hv. þm. taldi að það væri mikið samhengi á milli 56. gr. frv. um bann við lausagöngu búfjár og girðingarkaflans og það er rétt. Milli þessara tveggja atriða í frv. er mikið samhengi og 56. gr. knýr mjög á um að breytt sé til varðandi viðhald girðinga og að vörslu meðfram vegum sé komið í viðunandi horf.
    Ég vænti þess að hv. þm. hafi hlýtt á skýringar mínar og skýringar hv. 4. þm. Norðurl. v. á því hvaða orsakir liggja til þess að nefndin kaus að fresta því að taka á þessu máli nú. Þær eru að það er að dómi nefndarinnar nauðsynlegt að viðhafa eðlilegt samráð og samstarf við fulltrúa sveitarfélaganna í landinu og e.t.v. fulltrúa samtaka þeirra, svo sem héraðsnefnda, varðandi meðferð þessara mála ekki síst ef við

færum að þeirri hugmynd sem fram kom innan nefndarinnar að gera sveitarfélögin ábyrga þátttakendur í viðhaldsmálum girðinga um leið og lagt væri fram fé af hálfu ríkisins í gegnum Vegasjóð.
    Nú má út af fyrir sig taka það til athugunar hvort í því felst einhver hætta, sem hv. þm. gat um, ef 56. gr. væri lögfest í vor og tæki gildi og girðingarkafli frv. yrði endurskoðaður og breytingar tækju ekki gildi fyrr en t.d. 1. janúar nk., hvort í þessu er fólgin hætta sem gefur tilefni til þess að fresta gildistöku 56. gr. eins og hann minntist á. Þetta atriði er eðlilegt að ég sem formaður nefndarinnar beri undir hv. nefndarmenn. Til þess hefur eigi unnist tími. Að öðru leyti tel ég að ekki sé tilefni til þess að breyta því sem nefndin hefur orðið ásátt um.