Vegalög

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 15:54:55 (6468)


[15:54]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka samgn. fyrir hennar vinnu í þessu frv. því ég held að það sé tilfellið að hún hafi unnið, ef við mættum orða það svo, sjálfstæðara en algengt má teljast um nefndir í þinginu í dag. E.t.v. er það vegna þess að hún nýtur forustu þingmanns sem hefur starfað nokkuð lengi á Alþingi Íslendinga og jafnframt verið ráðherra og tekur ekki þátt í þeim vinnubrögðum sem algeng eru, að keyra mál í gegn án þess að sjálfstæð athugun fari fram í nefndum.
    Ég held engu að síður að það sé eitt og annað sem rétt sé að hugleiða og hvað það raunverulega getur kostað, því gallinn við alla umræðu um vegagerð til þessa hefur verið á þann veg að mönnum sé slíkur hagur í að fá veginn að það megi eiginlega hirða af eigendum landsins hvað sem mönnum dettur í hug. Ég ætla að byrja á því að biðja hv. þm. Pálma Jónsson að kíkja á 33. gr. frv. þar sem komið er að föstum mannvirkjum. Hér segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja, nema leyfi Vegagerðinnar komi til, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega.
    Verði ágreiningur um hvar miðlína vegar muni verða sker Vegagerðin úr.
    Loftlínur má ekki strengja yfir veg nema lægsti hluti línu sé a.m.k. 5 m frá yfirborði vegar.``
    Nú vill svo til að hv. þm. Pálmi Jónsson þekkir vel til hjá Rafmagnsveitum ríkisins, en einmitt þetta ákvæði sem hér er verið að fást við er ekkert nýtt af nálinni. Norður í Strandasýslu var verið að setja niður spennistöð við bóndabæ og Vegagerðin var að mæla fyrir vegi. Vegagerðin fór fram á það að bóndinn samþykkti að spennistöðin yrði höfð fjær þessum bóndabæ heldur en Rafmagnsveitur ríkisins lögðu til. Afleiðingin er sú að í dag kostar það fleiri hundruð þúsund að hafa gefið þetta eftir á sínum tíma. Ástæðan er einfaldlega sú að orkubúið sem leggur línu frá spennistöð og heim á kostnað eiganda horfir náttúrlega aðeins á þessa vegalengd en það er ekkert spurt hvers vegna vegalengdin er svona mikil. Það er ekkert spurt um það að það voru opinberir aðilar sem knúðu á um að fjarlægðin skyldi vera svona mikil. Það getur verið að bónda muni um það hvort hann þarf að greiða kannski aukreitis nokkur hundruð þúsund vegna svona reglu eins og hér er verið að setja fram.
    Þetta var á sínum tíma gert af tillitssemi af viðkomandi eigendum jarðarinnar, en í dag blasir það blákalt við að staðsetning slíkra mannvirkja, eins og spennistöðvar, er þarna háð Vegagerðinni og í verulegri fjarlægð, undir sumum kringumstæðum, frá eðlilegri staðsetningu miðað við hagsmuni bóndabæjarins. Og kostnaðurinn af tiltækinu lendir allur á einstaklingnum. Það fer ekkert á milli mála.
    Ég held að það sé líka orðið þó nokkurt umhugsunarefni, af því að stofnbrautir Íslands liggja um láglendi þessa lands, að taka 60 m lands undir vegi. Menn mega vera nokkuð ryðgaðir undir stýri ef þeir halda bílnum ekki á öllu mjórri braut. Þetta er sama og flugvél þarf til að lenda á eða komast á loft sé um eðlilegar aðstæður að ræða. Þeir menn sem þannig standa að að telja að þessi breidd, 30 m frá miðlínu, sé eðlilegt rými, bera ekki mikla virðingu fyrir landi í sjálfu sér. Þeim finnst að það sé óhætt að taka af gróðurlendi Íslands ansi væna spildu. Mér finnst þetta mikið rými og þetta tengist svo því sem ég mun minnast á seinna varðandi eignarréttinn og þá hluti.
    Hér er í 39. gr. vikið af girðingunum: ,,Skylt er eiganda girðinga að halda þeim við svo að aldrei geti þær hindrað eða bagað umferð um veginn. Þyki þessa ekki gætt er Vegagerðinni heimilt að framkvæma viðgerð á kostnað þess sem að réttu ber að halda girðingunni við.``
    Nú er það náttúrlega spurning ef girðingin er fjarlægð á hvers ábyrgð eigi þá viðhaldið að vera. Eitt af því sem hefur verið að gerast á undanförnum árum er að við snjóruðning, sem stundum er hagsmunaatriði viðkomandi bæja, stundum hagsmunaatriði sveitarinnar sem heildar, hafa stórvirk vinnutæki gjörsamlega lagt girðingu sem við veginn stendur á hliðina.
    Ég held að tengja þurfi þá hugmynd sem kemur fram í 39. gr., ,,Vegagerðinni er heimilt að flytja girðingar og fjarlægja tré og annan gróður, ef nauðsyn ber til af öryggisástæðum eða til framkvæmdar viðhaldi, svo sem snjómokstri,`` þeirri staðreynd að það eru stjórnarskrárvarin réttindi, eignarrétturinn yfir landinu. En það er fleira sem getur hafa haft áhrif á það hvernig snjór sest á vegi. Eitt af því er hvernig menn leggja vinnuvélum og stórvirkum tækjum. Er þeim lagt fast við veginn? Þannig getur myndast skafl sem stöðvar alla umferð. Ég held að það mætti örlítið hugleiða það líka því það er einu sinni svo að stórvirk vinnutæki eru geymd misjafnlega vel staðsett í þessum efnum. Persónulega hef ég af því reynslu hvaða afleiðingar það getur haft.
    Ég ætla að víkja að 47. gr. sem lýsir líka vissum vanköntum sem eru á grunnhugsuninni í samningu frv., því það sem nefndin hefur breytt er til bóta, er alveg gegnumgangandi. En með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að lesa upp úr 47. gr.:
    ,,Við matið skal taka tillit til árlegs afrakstrar af landi því er um ræðir, svo og til þess hvort girðingar þurfi að flytja eða nýjar að setja og athuga vandlega allt það er getur haft áhrif á verðmæti þess er meta skal. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef ætla má að land hækki í verði við vegagerðina.``
    Hefði nú ekki mátt standa þarna ,,hækki eða lækki í verði við vegagerðina``? Það er nefnilega stórkostlegur munur á því að fá friðsælan sveitaveg í gegnum land sitt eða hraðbraut. Annað er náttúrlega hrein plága fyrir allan búskap í landinu, hraðbrautirnar, á sama tíma og sveitavegurinn getur verið til bóta. Ef þetta á að vera svona sett upp þegar afrakstur landsins, eins og hér er sett fram, --- hvernig færi nú ef þessi regla yrði notuð við mat á eignaupptöku í þéttbýli? Hverjir skópu það verðmæti sem þar hefur orðið til? Voru það eigendurnir sem skópu það verðmæti? Voru það ekki fjárfestingarnar sem skópu það verðmæti? Stenst það þá ákvæði stjórnarskrárinnar að það skuli hægt að líta svo á að ef menn búa í dreifbýli þá eigi opinberar framkvæmdir að koma til frádráttar rétti manna gagnvart eignarnámsbótum, en ef menn búa í þéttbýli þá skuli opinberar framkvæmdir, sem hafa orðið til að hækka landið, verða alveg sérstaklega til þess að mennirnir fái hærri bætur. Það er í sjálfu sér ekkert samræmi í þessu. Og þegar menn hafa verið að kaupa heitt vatn eða taka það eignarnámi þá hefur aldeilis ekki verið spurt um hver afraksturinn hafi verið af viðkomandi eign á undanförnum árum.
    Ég er þeirrar skoðunar að þegar svona lög eru samin verði Alþingi Íslendinga að gæta jafnræðis, þ.e. að líta svo á að Alþingi á bæði að gæta réttar einstaklingsins og réttar samfélagsins og það á að miða uppsetningu sinna laga við það að á hvorugan aðilan sé hallað. Þar blasir náttúrlega við að það er alveg sama hvaða texta við setjum í almenn lög, ofar þeim standa ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarréttarbætur og þær eignarréttarbætur eru á þann veg að það er talað um, ,,enda komi fullt verð fyrir``.
    Ég er sannfærður um að hæstv. formaður samgn. er ekki stuðningsmaður þess að eignir séu hirtar af mönnum án bóta. Ég hefði talið að það væri ekki óeðlilegt þó nefndin skoðaði það á milli 2. og 3. umr. hvort ekki væri eðlilegt að bæta þarna inn í ,,að land hækki eða lækki``. Að það verði sett þar inn í þannig að menn átti sig á því að það er svo komið að hraðbrautir á Íslandi geta gert land gjörsamlega verðlaust. ( JGS: Var þingmaðurinn ekki að tala um landris?) Það er nú svo með landrisið að samþykktir á Alþingi munu trúlega minnstu breyta þar um, hvort heldur menn eru kosnir á landsvísu eða eftir einstökum kjördæmum.
    Ég held líka að það hljóti að verða að skoða 51. gr. sem er mjög rúm fyrir Vegagerðina. Með leyfi hæstv. forseta, hyggst ég lesa greinina:
    ,,Kostnað við vetrarþjónustu skal telja með öðrum viðhaldskostnaði vega. Heimilt er Vegagerðinni að binda vetrarþjónustu því skilyrði að allur kostnaður við hana eða hluti hans verði greiddur með framlagi úr héraði.``
    Það er gjörsamlega út í hött að gera ráð fyrir því að allur kostnaður við vetrarþjónustu verði greiddur heima í héraði því um leið og vegurinn er opnaður og eitthvert farartæki fer eftir veginum þá er það farið að greiða skatt í ríkissjóð til vegarins. Það væri náttúrlega algjörlega út í hött að líta svo á að Vegagerðin ætti að hafa tækifæri til að græða alveg sérstaklega á fáförnum slóðum með því að senda reikning fyrir unnið verk að fullu þó að vegur sé hreinsaður af snjó á vordegi. Þannig að hér finnst mér of langt gengið.
    Ég ætla að víkja hér í lokin að 56. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Lausaganga búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum megin vegar er bönnuð. Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda.``
    Ég brýt dálítið um það heilann í þessu sambandi, þó ég skilji fulla þörf á þessu, hvort það fái staðist að ef ég fæ veðbókarvottorð af ákveðinni jörð þar sem stendur að einhver ákveðin kvöð hvíli á jörðinni, aðrar kvaðir hvíla ekki á jörðinni, og það kemur alveg skýrt fram á veðbókarvottorði, sem er opinbert plagg um eignarrétt, að eigandi að þessu landi sé ákveðinn maður. Fær þá staðist að það sé hægt að handsama búfé á landi umrædds manns og láta hann borga sektir fyrir það að búfé gekk á landinu hans?

Það er spurning. Nú rekur ríkið búskap líka. Það rekur hreindýrabúskap á Austurlandi. Arnarbúskap á Vestfjörðum. Og þó að þessar skepnur valdi spjöllum --- trúlega eiga hreindýrin fyrir austan eftir að sjá um Héraðsskógana fyrir þá að vetrarlagi á Fljótsdalshéraði. Þau eru ekki heimskari en svo að þau gera sér grein fyrir því að þar sem skjólgott er þar er betra að vera en annars staðar að vetrarlagi. Segjum að þau valdi þar miklum spjöllum. Það eru engin ákvæði sem segja að ríkið sé skaðabótaskylt. Það væri aldeilis hægt að senda reikning ef menn færu í að handsama hreindýrin því það yrði að kalla út mikið lið til að framkvæma það verk. Og alveg eins er með örninn þó að hann ákveði að leggja undir sig sérstakt æðavarp eins og eigandi væri og hafa þar matföng eftir þörfum. Ríkið lítur ekki á sig sem skaðabótaskyldan aðila vegna slíks.
    En hér kemur: ,,Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda.``
    Það er nú svo að það má vel vera að menn telji að það skipti þá engu máli hvort Vegagerðin hefur keypt þetta land eða hvort hún á ekki landið. Mér þætti það vægast sagt skrýtið. Ég veit að einn bóndi á Vestfjörðum stendur frammi fyrir því að hann þyrfti að girða um 27 km ef hann væri skyldaður til að girða meðfram stofnbraut og hann mundi tapa allri fjörubeit viðkomandi jarðar og trúlega, ef þessi kvöð yrði á hann sett, að sjá um þessar girðingar að auki. Þá væri óbúandi á jörðinni.
    Vegagerðin hefur aldrei borgað þar bætur fyrir rask á einu né neinu. Hún hefur ekki borgað fyrir efnistöku en samkvæmt veðmálabókum Ísafjarðar stendur það skýrum stöfum hver er eigandi jarðarinnar og það sé kvaðalaust. En það væri engin smáræðiskvöð ef menn stæðu uppi með það að lausaganga á búfé yrði stoppuð með lögum og það standist sem sumir hafa verið að tala um að hægt sé að gera það samkvæmt búfjárræktarlögum. Ég tala nú ekki um ef fulltrúar Vegagerðarinnar ættu að fara að handsama skepnur á svæðinu. Ég er hreint ekkert viss um að verklagið við það yrði miklu betra en hjá sýslumanni Vestur-Barðastrandarsýslu þegar hann ákvað að stjórna smalamennsku í Tálknunum.
    Og allt leiðir þetta hugann að því að það er eins og það hafi hreinlega gleymst í allri umræðunni það merkilega atriði að í þéttbýli á Íslandi þá dytti engum manni í hug að taka land undir veg af lóð, t.d. í Reykjavík, ef það væri eignarlóð, nema borga fyrir landið. En mönnum finnst kannski eðlilegt að hægt sé að líta svo á að það sé hægt að hirða af óræktuðu landi alveg eins og mönnum sýnist og það eigi ekki að borga neitt fyrir slíka hluti. Ég held að þarna séum við í sjálfheldu í hugsunarhætti, algjörri sjálfheldu. Ég held að menn gleymi því að þrátt fyrir hvað mönnum finnst rétt og sanngjarnt þá er það nú svo að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ná jafnt til þeirra sem í dreifbýli búa og þeirra sem búa í þéttbýli.
    Ég verð að segja það aftur á móti að ég fagna því að sá skilningur hefur orðið að það eigi að fara að leggja í það vinnu að skoða þessi girðingarmál og vörslumál upp á nýtt. En það breytir því hins vegar ekki að það er náttúrlega ekki fyrr en sú vinna hefur farið fram sem hægt verður að leggja mat á gæði verksins. En það er þó orðinn skilningur í þessu sem hér er sett fram og það ber að meta við hv. samgn. að henni er ljóst að það er komið svo í hraða umferðarinnar að eðlilegt er að reyna að aðskilja reiðvegi og þjóðvegi. Það gerist ekki einn, tveir, þrír. Það var hefð frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar að heimilt væri að ferðast um þetta land fótgangandi eða ríðandi og langt fram eftir þessari öld var ekkert vandamál að ferðast eftir þeim vegslóðum sem hér voru, hvort heldur sem menn væru að reyna það á bíl eða á hestum. En nú er svo komið að jafnvel hæstv. landbrh. gerir sér grein fyrir hættunni sem stafar af því að ríða á vegi sem búið er að leggja á bundið slitlag og fara kannski út fyrir af og til en upp á veginn þegar ræsi hamla för og bílar sem koma á um 100 km hraða eiga kannski enga von á því að þeir verði fyrir hindrun á veginum. (Gripið fram í.) Ég veit að hæstv. samgrh. hefur fylgst með því að sennilega er hraðametið, í að stöðva mann fyrir of hraðan akstur, um 201 eða 203 km á klukkustund. Þannig að það er kannski orðið umhugsunarefni hvort þessi umferð á samleið öllu lengur. Þess vegna fagna ég því að menn eru hér að taka til hendinni með þessa hluti og það má spyrja sem svo --- ég hef ekki skorast undan því að taka þátt í því að hestamenn greiddu einhvern kostnað og frv. um sérstakt hóffjaðragjald var einu sinni lagt fram og varð að miklu háði og spéi í þingsölum. En það má líka spyrja: Hvenær töpuðu hestamenn þeirri hefð, þeim rétti, tíu alda rétti, að mega fara eftir ákveðinni slóð um þetta land. Hvenær tapaðist sá réttur? Hvenær var það allt í einu að bíllinn fékk einkaleyfi á umferðinni um vegina? Það eru náttúrlega ýmsar hliðar á öllum málum og það er verið að tala um alls konar hefð sem geti myndast, en ég sé ekki að það sé auðvelt að taka af tíu alda hefð án þess að ætla að þá einhvern rétt í staðinn. Það er athyglisvert hvað Bretar hafa verið harðir í þessum efnum að gefa það aldrei eftir að ríðandi maður eigi rétt á að fara yfir land annarra og að það sé skylda að hafa þar hlið sem hægt sé að opna.
    Nú er það svo að einn er sá réttur sem almenningur í landinu á og má aldrei vera af honum tekinn og það er rétturinn til að ferðast um landið. En ég játa að mér brá þegar ég sá það við Jökulsárgljúfur, í reglugerð, að það þarf að tilkynna það með viku fyrirvara ef maður ætlar að ferðast ríðandi eftir gömlu hestagötunni meðfram gljúfrinu. Þar er tilkynningaskylda viku fyrirvari. Það er óvíst að forsetinn hafi skyldu til að láta vita jafntímalega af sínum ferðum. Þarna er gömul hestagata meðfram Jökulsárgljúfrum en það er búið að taka hana af hestamönnum. Og það er ekki til fyrirmyndar að þeir sem eiga að stunda umhverfisvernd gerist allt í einu framkvæmdaraðilar á kostnað þess umhverfis sem þeim er ætlað að sinna.
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að það verða aldrei samþykkt lög um vegamál þannig að öllum líki. Ég hef vakið á því athygli að það sé dálítið hæpið ef Vegagerðin eigi að eiga snjóinn ofan á veginum og megi banna öðrum að fjarlægja hann, en það hlýtur líka að snúa að eignarrétti á landi ef menn fara að líta svo á að það sé hægt að stoppa slíkt.
    Hér svaraði hv. formaður samgn. þeirri spurningu hvað átt væri við með einkavegi og hvenær heimilt væri að banna umferð um slíka vegi. Ég verð að segja eins og er að meðan Póstur og sími er almenningseign á Íslandi, sem ég vona að verði um ókomna tíma, eign þessarar þjóðar, enda hefur hún greitt hann, þá láti þeir sér ekki detta í hug að loka vegum sem þeir hafa byggt fyrir almannafé ef það má vera einhverjum til yndisauka að ferðast eftir þeim vegi. Sama verð ég að segja um Landsvirkjun eða aðrar stofnanir sem hafa kostað fjármunum til vegagerðar. Það er ákaflega hlægilegt, þó ekki sé meira sagt, ef slíkir aðilar færu allt í einu að líta svo á að það væru eðlileg vinnubrögð að loka þessum vegum. Ég held aftur á móti að undir sumum kringumstæðum geti verið eðlilegt, komi upp mikill ágreiningur milli þessara stofnana, að ríkið sem slíkt yfirtaki þessi mannvirki og tryggi með því að allur almenningur eigi rétt á að hagnýta sér þau. Það er einu sinni svo að opinbert fé er notað til margra hluta. Mér er sagt að Landsvirkjun eigi líka flugvöll uppi á hálendinu og það hlýtur að vera eðlilegt að líta svo á að heimilt sé að lenda á þeim velli, ef nauðsyn krefur, þeim sem fljúga yfir og jafnframt mundi ég telja að það væri hlálegt ef slíkir menn mættu ekki hafa afnot af veginum á leið til byggða á þeirri forsendu að Landsvirkjun ætti veginn. Það þarf að útrýma þeim hugsunarhætti að slíkur vegur geti í reynd verið eign nokkurs annars en þjóðarinnar þegar hann er byggður fyrir opinbert fé.
    Ég vil að lokum segja það að þegar þetta frv. kom fram í fyrra þá hér voru ýmsir hortittir sem mér leist alls ekki á og hreinlega brá við að sjá að málið væri komið fram í þeim búningi, en ég tel að nú hafi samgn. farið í mikla lagfæringu á þessu máli.
    Ég ætla aftur á móti í lokin að geta þess að ég hef ekki skilið það og skil það ekki enn hvers vegna stjórnarmeirihluti, sem tók ákvörðun um að leggja niður Skipaútgerð ríkisins á þeirri forsendu að ríkið ætti ekki að reka skipaútgerð, hvers vegna sá stjórnarmeirihluti telur að Vegagerðin eigi að reka flóabáta. Það er mér óskiljanlegt. Ég geri ráð fyrir að svo verði áfram og geri ekki einu sinni kröfur til samgn. að hún geri tilraun til að útskýra það.
    Mér finnst nefnilega að þegar þessi ákvörðun var tekin hafi menn gleymt því að það vill einu sinni svo til að við eigum fleiri stofnanir sem hafa einhverja þekkingu á sjómennsku og flutningastarfsemi á sjó, eins og vita- og hafnamál, og það hefði þá verið betra ef menn vildu endilega setja þetta undir einhverja stofnun að þeir settu þá dæmið undir stofnun sem hefði valið sér starfsmenn í samræmi við það að þeir þyrftu að hafa einhverja þekkingu á hlutum sem snúa að samgöngumálum á sjó. Þessu verður vafalaust ekki breytt, þetta er stefna sem er tekin og trúlega er ætlunin að prufukeyra það í nokkur ár hvernig þetta gefst.
    Herra forseti. Ég hyggst nú ekki hafa þessi orð fleiri, en vona að menn standi ekki þannig að lagagerð að einstaklingar þurfi að gera mikið af því að stefna Vegagerðinni eða ríkinu, því málaferli á Íslandi eru fimm ára ævintýri, kosta offjár fyrir þann sem sækir sinn rétt og dómskerfið hefur því miður ekki fengið þá fjármuni og þá þann stuðning að það sé nægilega skilvirkt til að nokkurt réttlæti geti verið í því að vísa mönnum á slíkar brautir.