Vegalög

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 16:28:23 (6469)


[16:28]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um það sem hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þórðarson, vék hér að áðan, en hann minntist aðeins á 33. gr., þar sem talað er um fjarlægð mannvirkja frá miðlínu vegar. Af því að hann las hér upp úr 3. gr. þá, eins og hann mundi sjá ef hann liti á brtt., fellur þarna út málsgrein: ,,Verði ágreiningur um hvar miðlína vegar muni verða sker Vegagerðin úr.`` Þetta atriði fellur niður samkvæmt brtt. nefndarinnar.
    Svo er hitt líka sem ég vil leggja áherslu á. Ég held að við hljótum allir að átta okkur á að það er ekki óeðlilegt að þetta sé sett inn, þessi fjarlægð frá miðlínu vegar, vegna þess að hér er fyrst og fremst verið að tala um mannvirki, að ég skil, sem eru reist nær miðlínu vegar en þetta. Við vitum að það er mjög óeðlilegt að það sé gert vegna þess að það er mjög víða sem af slíkri mannvirkjagerð skapast t.d. mjög erfiðar og óásættanlegar snjóagildrur. Þannig að ég held nú að hér sé ekki stórmál á ferðinni en nauðsynlegt hins vegar að kveða þar á um.
    Ég vil einnig víkja aðeins að því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar, í sambandi við reiðvegina. Ég verð að segja að ég hef lagt töluvert á mig til þess að reyna að setja mig inn í þessi mál og vita hvernig maður gæti orðið að liði til að ná árangri í þessu máli. Ég trúi því eftir þær viðræður sem ég hef átt við aðila sem með þessi mál fara, Landssamband hestamanna og fulltrúa þeirra, þá vil ég trúa því að það orðalag sem nú er komið inn í vegalögin og er sátt um, að hestamenn muni og geti sætt sig vel við það.
    Ég get aðeins, með leyfi virðulegur forseti, lesið hvað stóð í hugmyndum sem fulltrúar hestamanna settu fram þegar þeir komu til okkar og áttu viðræður við okkur. Þá voru þeir með hugmyndir og þær voru þannig, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Reiðvegi skal leggja með þjóðvegum í samráði við samtök hestamanna þar sem þurfa þykir og telst kostnaður af byggingu þeirra með vegagerðarkostnaði, en kostnaður við viðhald þeirra með viðhaldskostnaði.``
    Lagagreinin er hins vegar þannig orðuð:
    ,,Í vegáætlun skal veita fé til reiðvega samkvæmt sérstakri áætlun`` --- þar er átt við þá reiðvegaáætlun sem þegar er búið að gera um reiðvegi um land allt sem unnin var af Landssambandi hestamanna og Vegagerð ríkisins --- ,,sem gerð er að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélaga.``
    Hér finnst mér vera kveðið fremur fastar að orði en í tillögum og hugmyndum hestamannanna sjálfra þannig að ég á erfitt með að átta mig á því hvað hv. þm. meinar þegar hann segist vilja hafa sterkara að orði kveðið og að við hefðum reynt að ganga lengra til móts við óskir hestamanna. En mér sýnist að með þessu sé fyllilega orðið við óskum hestamanna í þessu máli og ég fagna því alveg sérstaklega.