Fjáröflun til vegagerðar

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 16:38:31 (6472)


[16:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð til viðbótar um það mál sem hér er lagt fram. Ég ætla þó að segja hér nokkur orð fyrst og fremst vegna þess að ég hef notað hvert það tækifæri sem hefur gefist í þinginu og hvert það tilefni sem hefur gefist til þess að ræða einmitt þetta mál, þ.e. skattlagningu dísilbíla, sem að mínu mati er löngu tímabært að breyta. Við erum orðin eina þjóðin í Vestur-Evrópu sem heldur í það kerfi sem hér er með annaðhvort fasta krónutölu á ári eða greitt eftir mæli. Þetta kerfi er meingallað. Það hefur reynst nánast ókleift að framfylgja því, sem kemur þannig fram, m.a. gagnvart atvinnubílstjórum, að þar eru í gangi sjóræningjaútgerðir bæði í vöruflutningum og fólksflutningum sem stunda sína starfsemi en smeygja sér undan því að greiða þessi gjöld.
    Í öðru lagi þá þýðir þetta fornaldarkerfi okkar það að við njótum einskis góðs af þeirri miklu þróun sem hefur orðið í framleiðslu dísilvéla í minni bíla. Að óbreyttum lögum þá kemur það ekki til að bílar með slíkar vélar séu fluttir hér inn og er það mjög bagalegt því mjög víða er um að ræða mjög hentugan kost, ef annað væri í lagi, fyrir þá sem þurfa að aka mikið. Væri til að mynda athugandi fyrir framsögumann nefndarinnar þegar hann endurnýjar bíl næst að fá sér dísilbíl, ef búið verður að breyta lögunum og reglunum.