Lífeyrissjóður sjómanna

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 16:41:25 (6473)

[16:41]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Frv. sem hér er til umræðu er flutt að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna í þeim tilgangi að fella úr gildi núgildandi lög um sjóðinn og lögfesta ný lög. Síðan stendur til að setja nýja reglugerð um starfsemi sjóðsins á grundvelli þeirra.
    Þetta er ekki í fyrsta skipti sem reynst hefur nauðsynlegt að breyta lögum um Lífeyrissjóð sjómanna af þeirri einföldu ástæðu að tekjur hans hafa ekki verið nægilegar til að standa undir þeim skuldbindingum sem lög kveða á um. Ekki hefur verið mögulegt að fá aðra, þar með talið ríkissjóð, til að standa undir þeim umframskuldbindingum sem á sjóðnum hvíla.
    Þetta frv. er, eins og ég áður sagði, samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna og hefur verið sent öllum hagsmunaaðilum sem að þessu máli koma til umsagnar og mæla þeir eindregið með því að frv. þetta verði samþykkt. Það var jafnframt íhugað hvort ekki væri rétt að afnema þessa löggjöf með öllu þannig að starfsemi sjóðsins heyrði undir almenn lög um starfsemi lífeyrissjóða. Niðurstaðan varð hins vegar sú að sérstaða hans væri þó það mikil að rétt væri að um hann giltu sérstök lög, en þó mun almennari en nú eru í gildi.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, virðulegur forseti, um það mætti margt segja, en nefndin mælir eindregið með því að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það hefur verið lagt fram. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Guðjón Guðmundsson og Ingi Björn Albertsson.