Áburðarverksmiðja ríkisins

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 17:57:57 (6491)


[17:57]
     Frsm. minni hluta landbn. (Sigurður Hlöðvesson) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf svo sem ekki að vera langorður um þetta mál. Ég er búinn að tala einu sinni en vil þó aðeins koma inn á málið aftur. Ég tel að í 6. gr. frv. um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins séu ákvæði sem séu alsendis óásættanleg. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Hér er sem sagt verið að afnema með einni lagagrein í frv. þau réttindi sem starfsmenn Áburðarverksmiðjunnar, sem unnið hafa þar margir hverjir áratugum saman, hafa áunnið sér og þau eru afnumin með einu pennastriki í þessu frv. Það er alveg óásættanlegt að það sé gert og sú óvissa sem er um þetta mál og hefur komið fram í umræðum um önnur mál eins og lyfjaverslunarmálið og fleiri mál er óásættanleg.
    Ég vil aðeins koma inn á það sem mér finnst líka vera kjarni málsins. Það er staða verksmiðjunnar, hvernig hún er og hvernig hún verður í ársbyrjun árið 1995. Staðreyndir málsins eru þær að Áburðarverksmiðja ríkisins er mjög stöndugt og gott fyrirtæki eins og það er í dag. Eins og ég sýndi fram á áðan hefur eignastaða fyrirtækisins batnað, það hefur verið hagnaður á undanförnum árum. Áburðarverð hefur lækkað á undanförnum árum og hagnaður sem hlutfall af eigin fé fyrir skatta var á sl. ári 5%. Það sem ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra er: Er vilji til að gera eitthvað til að treysta áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar? Í öðru lagi: Getur hæstv. landbrh. upplýst mig um það hvort sambærilegar verksmiðjur á Evrópska efnahagssvæðinu njóti einhverra styrkja eða hlunninda sem skekkir samkeppnisaðstöðu Áburðarverksmiðjunnar?
    Eins kemur fram í umsögn Búnaðarfélags Íslands þá er það mjög alvarlegt mál ef ekki verður brugðist við með það að tryggja áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar eftir næstu áramót. Hér er um að ræða fyrirtæki sem er með veltu á annan milljarð. Og 110 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu og það er eins og ég segi algerlega óásættanlegt annað en að framtíð Áburðarverksmiðju ríkisins verði tryggð þannig að áfram geti þetta fyrirtæki blómgast og dafnað eins og það hefur gert á undanförnum árum.