Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 14:06:02 (6499)

[14:06]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að biðja virðulegan forseta afsökunar á því að ég skuli taka til máls í sambandi við þessar miklu bækur sem liggja hér á okkar borðum því að ég hef ætíð lagt það nokkuð í metnað minn að kynna mér málin vel og helst að lesa þau mál sem liggja fyrir, en því miður verð ég að viðurkenna að mér hefur ekki tekist að lesa þessar sex bækur þannig að ég geti talað um þær af miklu viti. Reyndar óttast ég að þeir séu fáir alþingismenn sem hafa lesið þessar bækur og er þó ætlað að blessa það sem í þeim er. En engu að síður ætla ég að freistast til þess að segja hér fáein orð.
    Ég vil í fyrsta lagi minna á það að ég greiddi atkvæði á móti aðild okkar að EES, ég taldi það ekki samrýmast stjórnarskránni íslensku. Ég skal út af fyrir sig ekki dæma um það hvort það sem í þessum sex bókum stendur samrýmist stjórnarskránni. A.m.k. er það siðferðislega óþolandi að okkur Íslendingum skuli vera ætlað að taka við nánast óskoðuðum tilskipunum frá erlendri stofnun í erlendri höfuðborg og samþykkja hér á Alþingi í einum stórum pakka og tek ég undir það sem ég veit að var sagt fyrr í umræðunni að réttast væri að taka þessar bækur og brenna þær. En málið er alvarlegt því að í þessum bókum mun ýmislegt vera sem ég tel nauðsynlegt að við skoðum. Mér er tjáð, og ég heyrði það á þeim sérfræðingum sem mættu hjá utanrmn., að t.d. eru í þessum bókum viðskiptahindranir. Þarna eru t.d. settar reglur um útbúnað á bifreiðum sem gera það að verkum að ýmsar amerískar bifreiðar verða ekki heimilar hér á landi og ekki í Evrópu. Reyndar vakti ég athygli á því í þeim upplýsingum sem við fengum um svipað leyti og EES-samningurinn var samþykktur, þá fengum við bók sem skýrði frá ýmsum tilskipunum sem yrði að taka fyrir síðar og ég vakti athygli þar á tilskipun um ljósabúnað bifreiða og sitthvað fleira, en mér heyrðist menn taka heldur lítið mark á því.
    Mér er einnig tjáð að í þessum bókum séu tilskipanir um það að japönsk lækningartæki verði ekki heimiluð, þau fullnægi ekki kröfum Evrópuþjóðanna. Þarna er augljóslega um tæknihindrun að ræða og ég efa ekki að svona er fjölmargt fleira. Ég ákvað að lesa ekki upp úr þessum bókum ýmislegt af þeim fáránleika sem þar er.
    En ég vil út frá þessu tvennu sem ég hef nefnt spyrja fáeinna spurninga. Ég vil í fyrsta lagi minna á það að þegar við hæstv. utanrrh. ákváðum á sínum tíma að skoða hugsanlega samninga við Evrópubandalagið, sem svo hét þá, um hið Evrópska efnahagssvæði, þá töldum við ljóst að með því að semja um aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði en ekki aðild að EB, eða ES, þá gengum við ekki inn fyrir tollmúra bandalagsins og þetta áleit ég a.m.k. vera ákaflega mikilvægt og mikinn greinarmun gerði ég á því og fullri aðild. Ég leyfi mér reyndar að fullyrða að það hafi hæstv. utnarrh. einnig gert og þeir aðrir ráðherrar sem að því stóðu að hefja þá samninga.
    Hvernig samrýmist þetta því sem við trúðum þá og ég vil leyfa mér að fullyrða að okkur var sagt? Ég sé ekki betur en hér sé verið að taka við gagnrýnislaust nánast og algjörlega af stjórnvöldum tilskipunum sem að ýmsu leyti færa okkur inn fyrir þessa tollmúra og ég tel að slíkt eigum við alls ekki að þola. Ég vil gjarnan fá að heyra hvaða kvaðir það eru í EES-samningnum sem gera okkur skylt að taka við slíkum viðskiptahindrunum. Hvað er það sem gerir okkur skylt að beygja okkur undir slíka tollmúra hjá þessum þríhöfða þurs sem hæstv. utanrrh. kallaði svo gjarnan? Hvað er það?
    Ég vek einnig athygli á því að hæstv. utanrrh. hefur vakið máls á því að við ættum e.t.v. að gera viðskiptasamning við Bandaríkin og reyndar við það sem er skammstafað NAFTA, Norður-Ameríku-Fríverslunarsambandið milli Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó og ég er því hlynntur að það sé skoðað. Reyndar er langt síðan ég hóf að skoða það. Þegar ég var forsrh. gerði ég nokkra athugun á því og fékk þá svör sem voru held ég nokkuð svipuð og hæstv. utanrrh. hefur fengið, að heldur lítill mundi áhugi Bandaríkjamanna í raun vera á því að gera slíka samninga við okkur. En hins vegar er það kannski ekki útilokað.
    Nú spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvernig getum við gert slíkan samning við Bandaríkjamenn eða við NAFTA ef við höfum gengist undir viðskiptahindranir Evrópusambandsins gagnvart Bandaríkjamönnum? Hvernig getum við t.d. gert slíkan samning við Bandaríkin ef okkur er ekki heimilt að flytja inn þær bifreiðar sem hér hafa þótt með þeim allra bestu hingað til, ef nú er ekki heimilt að gera það lengur? Eða heimilt að flytja inn þau lækningartæki sem sjúkrahúsin okkar eru full af og læknar hér telja með þeim allra bestu sem fáanleg eru? Mér er að vísu tjáð að Japanir sæki þar mjög fram og ég veit ekki hvort japönsk tæki eru heimil inn fyrir tollmúra Evrópusambandsins.
    Þetta held ég að sé afar mikilvægt mál og ég hef verið að velta því fyrir mér hvort a.m.k. ekki sé nauðsynlegt að setja þann fyrirvara í það sem við samþykkjum hér að allar viðskiptahindranir, allt slíkt verði tekið til rækilegrar endurskoðunar þegar við gerum tvíhliða samning við Evrópusambandið sem ég vona að verði niðurstaðan.
    Um þetta mál gæti ég fleira sagt eins og t.d. þá ótrúlegu skoðun að því er sagt er meiri hluta Íslendinga að vilja leita samninga við Evrópusambandið. Ég á ekki nema eina skýringu á því og það er sá gegndarlausi áróður sem yfir okkur gengur í fjölmiðlum og frá ráðamönnum og svo kannski það er beinlínis barinn úr mönnum kjarkur í þessu vaxandi atvinnuleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda í þeim efnum sem er út af fyrir sig annað mál, en það stærsta mál sem við eigum nú við að glíma. Ef það virkilega orðið svo að menn ætli að taka hverju því sem Brussel tilskipar eins og þessum viðskiptahindrunum, þá er afar illa fyrir okkur Íslendingum farið.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vildi gjarnan fá að vita hvað hæstv. utanrrh. segir um svona viðskiptahindranir. Hefur hann lesið þessar bækur? Við skulum vona það. Það væri visst kraftaverk --- já, ég sé að menn brosa, það væri kraftaverk en ég veit að hæstv. viðskrh. hefur ferðast mikið um heiminn og besti staðurinn til að lesa er í háloftunum í flugvélum. Kannski hefur hann haft með sér þessi hefti. ( Utanrrh.: Það er rétt.) Það er rétt. Ja sko, ég gat mér þess til því að ég þekki hæstv. utanrrh. að því að vera iðinn mann. Þá getur hann svarað þessu af mikilli þekkingu og kannski upplýst hvort ekki séu fleiri svona viðskiptahindranir þarna í og sérstaklega svarað því hvort hann telji það okkur samboðið samkvæmt þeim samningum sem við höfum gert og hvernig hann ætli að samræma það hugsanlegum viðræðum við NAFTA um einhvers konar fríverslunarsamning í vesturátt og svo væntanlega viðskiptum okkar við Japani sem eru stöðugt vaxandi.