Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 14:40:09 (6504)


[14:40]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka þessum ábendingum. Ég geri ráð fyrir því að þá verði þeim sem hér hafa verið stöðvaðir í málflutningi gefinn kostur á að halda sínu máli áfram í fyrri umræðu þannig að það sé ekki talið að þeir séu þar með búnir að tala í annað skiptið.
    Það er eins með þetta mál sem komið er hér til umræðu og annað í sambandi við EES að það er mjög stórt mál og nægir að benda hér á bunkann á borðum þingmanna eins og við höfum raunar áður gert. Ég hef bent á það hér áður í umræðum að það er ekki enn séð fyrir endann á því sem þessi EES-samningur mun leiða yfir okkur í slíkum bókum sem hér eiga eftir að koma fram þar sem við verðum nánast að samþykkja tilbúnar reglugerðir, tilbúin lög og tilbúnar bókanir sem koma hér inn á borð. Þó að við höfum hér að nafninu til umsagnarrétt um þessi mál, þá er þetta mál sem búið er að ganga frá áður en það kemur hér inn og ekki miklu hægt að breyta.
    Það má að vísu segja það að hvert ríki hafi neitunarvald um þessa þáltill. og um þær bókanir sem hér er verið að samþykkja, en í raun er það þó þannig að ríkin verða að koma sér saman um það áður en málið er lagt inn til þjóðþinganna.
    Ég gagnrýni það mjög hvernig að þessum EESsamningi hefur verið staðið og hvernig áframhald mun verða á því. Það er verið að gagnrýna það að við skulum sífellt þurfa að taka við nýjum lögum og tilskipunum frá Evrópusambandinu sem munu síðan áfram knýja okkur til að breyta okkar lögum til samræmis við það en ekki vegna þess að við höfum sjálf skoðað okkar lög og tekið ákvörðun um að breyta þeim.
    Það má einnig nefna það að hér er t.d. verið að tala um breytingar í sambandi við tryggingamál og hér hefur tvisvar sinnum verið inni á þingi, bæði á þessu og síðasta, frv. um breytingar í vátryggingarmálum. Það kemur síðar í ljós með þeirri þáltill. sem hér er verið að leggja fram að þau frumvörp eru gagnslaus. Þau eru orðin marklaust plagg áður en lokið hefur verið umræðu um þau, hvað þá heldur að búið sé að samþykkja þau þannig að enn verður að smíða það frv. upp á nýtt og leggja það fram með hliðsjón af því sem er í þessari þáltill. og verður þess vegna lagt fram nýtt frv. með öllum þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til samræmis við þær tilskipanir sem hér eru auk síðan eldri reglna sem þegar hafa tekið gildi.
    Við samþykktum samkeppnislög á síðasta þingi og mikil vinna var lögð í það í hv. efh.- og viðskn. að vinna vel þær samkeppnisreglur sem þar áttu að taka gildi. Þær voru samþykktar hér á hinu háa Alþingi af flestöllum þingmönnum og náðist um það víðtæk samstaða. Hins vegar kemur hér inn ný reglugerð þar sem stórfyrirtækjum er gefið meira svigrúm til samráðs heldur en samkeppnislögin eins og þau líta út gera ráð fyrir. Það þarf því að veita undanþágu frá samkeppnisreglunum þar sem þær ganga þá þvert á það sem hér er verið að leggja til. Þannig mun áfram verða með hin ýmsu lög, hinar ýmsu reglur sem við höfum verið að leggja vinnu í að færa í það horf sem við viljum hér á hinu háa Alþingi. Þannig mun það áfram verða svo að við verðum að taka á okkur breytingar frá Evrópusambandinu sem skapa okkur vinnu við það að breyta því sem nýbúið er að gera. Við höfum sem sagt ekki lengur neitt ákvörðunarvald um það í stórum málum, í mörgum málaflokkum höfum við ekkert ákvörðunarvald um það lengur hvað við eigum að ræða og samþykkja og hvað verður að lögum hér á hinu háa Alþingi. Því er nánast plantað yfir okkur hér án þess að við fáum rönd við reist.
    Virðulegi forseti. Ein reglugerðin í þessum tilskipunum sem hér eru til umræðu fjallar um ökuleyfi. Sú reglugerð kveður á um það að þeir sem taka ökupróf á bíla sem eru beinskiptir fá útgefið ökuleyfisskírteini á beinskipta bíla. Þeir fá ekki ökuleyfi fyrir sjálfskiptum bílum. Og sama gildir á hinn veginn. Þeir sem taka próf á sjálfskipta bíla fá ekki heldur leyfi samkvæmt ökuskírteini til þess að aka beinskiptum bílum. Það er kannski rétt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hefur kannað það hvernig með þessa reglugerð verði farið.
    Svo er önnur reglugerð sem snertir nokkuð bændur þessa lands. Nú vitum við það að hér á Íslandi hefur það verið venja að búsmali gangi úti að sumrinu, m.a. mjólkurkýr. En samkvæmt því sem hér segir í einni tilskipun reglugerðar, þá má ekki lengur mjólka kýr í fjósi sínu þegar búið er að láta þær út að sumrinu. Til þess verður að vera sérstakt gerði eða sérstakt hús sem er í ákveðinni fjarlægð frá hinu eiginlega fjósi. Það væri nokkuð forvitnilegt að vita hvort það sé þá fyrirhugað að bændur þurfi að fara að koma sér upp sérstöku húsi til þess að mjólka kýrnar í yfir sumarið. Og hvað þá með allar vélar sem þeir eru búnir að koma sér upp í sínum fjósum? Er þá ætlast til að þeir þurfi að vélvæða þessi hús líka eða er hugsanlegt að breyta þessari reglugerð til samræmis við það sem við getum gert hér á Íslandi? Maður sér það raunar á bóndabæjum víða í öðrum löndum að kýrnar eru mjólkaðar í einhverju sérstöku gerði alllangt frá eða í ákveðinni fjarlægð frá skepnuhúsinu. Hingað til hefur hér á landi verið talið alveg óhætt vegna mengunar eða sýklahættu að kýrnar sem úti ganga geti einnig farið inn og það sé hægt að mjólka þær án þess að hætta sé á sýkingu. En það skilst mér að sé skýringin á þessari reglugerð að þarna sé hætta á sýkingu. Ef skepnurnar ganga úti þá sé ekki óhætt að mjólka þær í fjósi sem þær eru annars í að vetrinum.
    Það eru ýmsar skrýtnar reglugerðir í þessu og hv. þm. Páll Pétursson tók hér fyrir nokkrar um daginn sem ganga kannski ekkert í ósvipaða átt og þetta. En það væri nokkuð mikið ef það ætti að fara að fara hér yfir allar reglugerðirnar sem eru í þessum sex bókum, 3.000 blaðsíðum sem við höfum fengið hér síðustu dagana. En af því mér heyrðist það koma hér í umræðum áðan hjá hv. 7. þm. Reykn. að hann efaðist ekki um það að hæstv. utanrrh. væri búinn að lesa allar þessar bækur spjaldanna á milli og hefði haft tækifæri til þess á sínum ferðalögum að gera það þá hlýtur hann að geta upplýst okkur hér um það hvernig honum líst á þessar tvær tilteknu reglugerðir sem ég var hér að nefna áðan.