Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 15:36:25 (6507)


[15:36]
     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. taldi að þingmenn væru með smámunahætti hér og skemmtan nokkra held ég að hann hafi orðað það. Ég vil bara fullvissa hann um það að svo er ekki með mig. Ég tel þetta vera ákaflega mikið alvörumál og reyndar baðst ég afsökunar á því að hafa ekki kynnt mér þetta stóra mál eins og ég hefði gjarnan viljað vegna umfangs þess. Ég heyrði það að hæstv. utanrrh. taldi að það sem við værum að samþykkja hér væri raunar ekkert öðruvísi en farið er með venjulega milliríkjasamninga að þeir eru annaðhvort samþykktir eða felldir. Það er rétt eins langt og það nær en ég man ekki eftir einum einasta milliríkjasamningi sem er þannig úr garði gerður að hinn aðilinn getur síðan sent okkur alls konar viðbætur við þann samning og ef við samþykkjum þær ekki þá fellur grunnsamningurinn út gildi. Þetta er stóri munurinn sem er á þessu tvennu. Við erum að taka hér við alls konar ákvæðum sem við höfum ekki nokkra möguleika á að breyta nema fella þá grunnsamninginn úr gildi eða standa ekki við ákvæði hans.
    Mig langar til að nota tækifærið og spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann viti hvenær hæstv.

forsrh. fer til Brussel og hvort hann muni fara með. Ég vil lýsa ánægju minni með heimsókn hans til Kína. Ég fór þangað 1986. Þá fór með mér fjölmenn sendinefnd frá Verslunarráðinu og við töldum okkur leggja grunn að miklum viðskiptum við Kína. Því miður kom ekki nálægt því eins mikið út úr því og ég hafði vonast til. En ég vona svo sannarlega að svo verði a.m.k. nú.