Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 15:40:17 (6509)


[15:40]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var athugasemd hæstv. utanrrh. um það að almennt hefðu þingmenn ekki haft athugasemdir við efnisinnihald þessara viðbótagjörða allra saman sem rak mig í andsvar. En þetta er að sjálfsögðu ekki rétt og ég er ekki alveg sátt við að hæstv. ráðherra dragi þá ályktun, alla vega ekki af minni ræðu. Vissulega er þarna um að ræða bæði jákvæða og neikvæða þætti en ég held að hæstv. ráðherra hafi nú svarað því í sinni ræðu að það er ýmislegt sem hann þurfti að taka þar fyrir og gerði sem gagnrýnt hefur verið. Ég vil enn og aftur árétta það að samkvæmt þeim upplýsingum sem gefnar voru í utanrmn. þá er ekki um að ræða að hér sé verið að loka á örfáar tegundir amerískra bifreiða heldur þvert á móti er verið að loka á með þeim hætti sem þar kemur fram nánar á allmargar tegundir bandarískra bifreiða og eins og ég sagði í ræðu minni og hæstv. utanrrh. hlýtur að vita, þá er allsendis óljóst hvernig Austur-Evrópubúum mun ganga að uppfylla þær kröfur sem gerðar verða á Evrópsku efnahagssvæði.
    Ég gerði líka athugasemd við það og ítreka að verið er að draga úr kröfum varðandi aukefni og aðskotaefni í vörum með þessu og þar með að gera okkur verr stödd en áður varðandi neytendavernd. Og fleira mætti tína til hér en svo sem vænta mátti þá varð hæstv. ráðherra tíðrætt um að það væri allt afskaplega gott í Evrópu og gott að versla við þá. Ég er bara einfaldlega ekki sammála því í öllum atriðum.