Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:24:25 (6515)


[16:24]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd. Það er grundvallarmisskilningur sem hv. þm. tönnlast á að stöðlun á reglum um smíði bifreiða og tæknibúnaðar hafi það að markmiði að setja upp viðskiptahindranir. Það er alveg þvert á móti. Með því að kveða á um samræmdar reglur um lágmarkskröfur til slíks búnaðar er verið að samræma reglur sem nú eru með mismunandi hætti í hinum einstöku löndum. Það er verið að segja við samkeppnisaðila utan svæðisins: Ef þið fullnægið þessum lágmarkskröfum þá hafið þið greiðan markaðsaðgang að svæðinu. Það stendur fyrir dyrum að afnema innflutningskvóta að því er varðar innflutning á bifreiðum, svo að ég taki nú það dæmi, og þegar þessar reglur eru að fullu komnar í kring þá er verið að auðvelda innflutning, greiða fyrir samkeppni og stuðla að lækkuðu verði til neytenda. Það er því algerlega þveröfugt við það sem hv. þm. fullyrti.