Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:35:32 (6518)


[16:35]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum með hv. 18. þm. Reykv. og málshefjanda hér af ástandinu á sjúkrahúsum og við þær ástandslýsingar sem hún rakti og vitnaði til lækna og annarra starfsmanna sjúkrahúsanna þarf ekki neinu að bæta. Verkfall meinatækna er auðvitað tilfinnanlegt fyrir alla starfsemi sjúkrahúsanna og þann stóra hóp fólks sem þangað þarf að sækja sjálfsagða þjónustu. og það gefur einnig auga leið að eftir því sem lengri tími líður aukast þessir erfiðleikar og um leið áhyggjur allra af þeirri þjónustu sem sjúkrahúsin eiga að sinna.
    Það er hins vegar nauðsynlegt að undirstrika það að neyðarþjónustu er vitaskuld sinnt á sjúkrahúsunum hér eftir sem hingað til. Um það þarf ekki að deila. Á hinn bóginn er það ekki jafnfyrirséð í öllum tilvikum við sjúkdómsgreiningu hvenær um neyðarástand er að ræða og þar er kannski stærsti vandinn, þ.e. þetta mikilvæga hlutverk meinatækna við sjúkdómsgreininguna sjálfa. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að það eitt að ná ekki landi með sjúkdómsgreiningu eins nákvæma og öll tæki og tól og faglegur mannafli segir til um skapar auðvitað erfiðleika og vaxandi áhyggjur.
    Ég vil hins vegar árétta það og endurtaka sem hv. þm. sagði að hinir eiginlegu kjarasamningar eru á hendi samninganefndar ríkisins og á forræði fjmrh. Á hinn bóginn hef ég auðvitað fylgst með og haft samband við deiluaðila, annars vegar fulltrúa ríkisins í samninganefnd og einnig hef ég átt tal við forsvarsmenn meinatækna um stöðu þeirra mála frá einum tíma til annars. Ég skynja það þannig að það sé fullkominn vilji af hendi beggja deiluaðila í þessari kjaradeilu um það að ná samkomulagi, um það að ná saman í frjálsum samningum. Ég held að báðir aðilar skynji það og skilji mjög rækilega hvílík alvara hér er á ferð, hversu miklu máli það skiptir að sjúkrahúsin í landinu geti gegnt sinni skyldu við sína skjólstæðinga.
    Ég hef sagt það opinberlega áður að ég viðurkenni að vissu leyti rétt meinatækna til ákveðinna kjarabóta. Þeir hafa um sumt setið eftir, enda verið samningslausir nú um allt of langt skeið. Um það er heldur ekki deilt. Á hinn bóginn er ævinlega álitamál hvar menn mætast í þessari vandmeðförnu umræðu sem kjaradeilur einatt eru, þ.e. hvar niðurstaðan mun liggja. Ég hygg að það liggi nokkuð ljóst fyrir að illmögulegt sé, raunar ógjörningur við þessar aðstæður sem nú eru á tímum þjóðarsáttar að ganga að öllu leyti til móts við ýtrustu kröfur meinatækna.
    Á hinn bóginn, og það hefur samninganefnd ríkisins viðurkennt í raun, er vilji til að koma til móts við sanngjarna niðurstöðu máls og þess vegna segi ég það, virðulegi forseti, að ég er fullviss um það, þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða að við séum ekki jafnlangt frá niðurstöðu þessara mála, frá því að ná samningum í þessari kjaradeilu og margir vilja vera láta. Ég ætla hins vegar ekki hér á hinu háa Alþingi að rekja það lið fyrir lið, enda er það út af fyrir sig ekki verkefni hv. Alþingis að dæma um kaup og kjör, prósentur, um röðun starfsheita hjá einstaka starfsmönnum ríkisins. Það hlýtur að vera verkefni þeirra sem kallaðir eru til slíkra verka.
    Vegna þess að hér hefur borið á góma dagvistarmál, þá vil ég nefna það til sögu að þegar blönduðust þessari kjaradeilu þau áform sem voru uppi um það að börn meinatækna fengju ekki vistun á meðan foreldrarnir væru í verkfallsaðgerðum, þau mundu ekki gjalda þess, þá beitti ég mér fyrir því að þau fengju sína vist eins og venja væri til hvort heldur foreldrar þeirra væru í störfum á Ríkisspítölum. Þessa afstöðu mína byggi ég ekki síst á því sem ég hef ævinlega sagt og sagði hér í umræðu að öðru gefnu tilefni sl. haust að leikskólar sjúkrahúsanna eru fyrir börnin en ekki foreldra þeirra.
    Í lokin, virðulegi forseti, bind ég við það vonir eins og ég sagði fyrr í ræðu minni að úr þessari kjaradeilu megi leysast til hagsbóta fyrir meinatækna og ekki síður fyrir það fólk sem á að njóta þessarar sjálfsögðu þjónustu inni á sjúkrahúsanna.