Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:51:49 (6524)

[16:51]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :

    Hæstv. forseti. Ég hef nú aðeins eina eða tvær mínútur til þess að ræða þetta mál. Það eru auðvitað samningamál sem heyra undir fjmrn. og ég vil vegna ummæla sem hér voru látin falla taka það skýrt fram að ég tel að samninganefnd ríkisins hafi unnið sitt starf af kostgæfni. Samninganefndin hefur lagt fram tilboð í samningaviðræðum við meinatækna og það liggur fyrir. Tuttugu og einn fundur hefur verið haldinn á einum mánuði í þessari deilu og ég held að fjmrn. og samninganefnd ríkisins sé það afar ljóst að nauðsynlegt er að leysa þessa deilu sem allra fyrst og hefði í raun verið best að aldrei hefði þurft til verkfalls að koma.
    Það er mjög erfitt að efna til samanburðar á milli stétta en ég vil fullvissa hv. þm. um það, og einkum málshefjanda, að tilboð ríkisins byggist á því að hægt sé að gera eðlilegan samanburð á milli háskólamenntaðra stétta í heilbrigðiskerfinu. Við skulum síðan, og ég ætla að segja það í lokin, átta okkur því öll í sameiningu að samanburður er erfiður. Við höfum kappkostað að reyna að ná vinnufriði í landinu. Það hefur tekist. Ef einn samningur er gerður með þeim hætti að hann fer langt út fyrir aðra samninga, þá gerist það eitt að allir munu krefjast hins sama og við munum fá eina hringekjuna í viðbót sem við þekkjum svo vel frá fyrri tíma. Þess vegna getur hvorki samninganefnd ríkisins né ríkisstjórnin staðið að því að gera hvaða kjarasamning sem er við tilteknar ákveðnar stéttir. Því miður er staðan þessi.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi fram í þessari umræðu þannig að það sé undirstrikað af þess hálfu sem fer með samningamál ríkisins að við kappkostum að leysa þessa deilu og að ná sanngjarnri niðurstöðu í henni.