Verkfall meinatækna

138. fundur
Miðvikudaginn 20. apríl 1994, kl. 16:56:20 (6526)


[16:56]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ekki flýti það mjög mikið fyrir lausn þessarar deilu þó að hv. þm. reyni að yfirbjóða hvern annan í lýsingum á sannanlega mjög erfiðu ástandi inni á sjúkrastofnunum. Það er mönnum allt of ljóst og ekki síst þeim sem hér talar. Þegar ég sagði áðan að ég mæti það þannig að það væri kannski styttra í lausn þessarar deilu en margir vildu vera láta, þá var það mitt mat þegar skoðuð eru gagntilboð sem ganga á milli manna, á milli borða í kjaradeilum aðila á þeim vettvangi sem þar er um fjallað. Ég held hins vegar að það yrði ekki til þess að flýta fyrir lausn þeirrar deilu ef ég færi að rekja það hér fyrir hv. þm. upp á punkt og prik, ég held að það yrði ekki til þess. Mitt mat er það, og ég endurtek það, að ég bind við það vonir. Ég veit það að af hálfu samninganefndar ríkisins og af hálfu fulltrúa ríkisins er vilji fyrir því að þessu ástandi linni og samningar takist. Ég trúi því líka eftir tal mitt við forsvarsmenn meinatækna ítrekað að sá vilji sé gagnkvæmur og með það í farteski trúi ég því að menn nái landi fyrr en síðar.
    Hér er spurt um það beint og til þess að taka af öll tvímæli í því: Um hvað er deilt? Það er deilt um skilgreiningar á starfsheitum. Það er deilt um það hvernig skuli síðan raða þessum starfsheitum og það er deilt um það hvernig menn skuli bera saman sambærileg starfsheiti heilbrigðisstétta. Þetta eru ekki ný deilumál, því miður, í kjaradeilum heilbrigðisstétta og viðsemjenda þeirra. Ég get út af fyrir sig tekið undir með hv. málshefjanda að vissulega er efni til þess að skoða og skilgreina launakerfi ríkisstarfsmanna í

heild og þá ekki síst heilbrigðisstéttanna. Það er hins vegar auðveldara um að tala en í að komast og úr að leysa.