Framtíðarskipan Hæstaréttar

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:28:42 (6543)


[15:28]
     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgdist nokkuð með þeim umræðum sem hér áttu sér stað um Hæstarétt og veit út á hvað þær breytingar ganga. Auðvitað þarf að láta á reyna hvernig þær koma út og hvort þær bera þann árangur sem til var ætlast. En ég vil leiðrétta það sem kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að ég var ekki að efast um það að Alþingi hefði rétt til þess að skipa dómsmálum heldur sagði ég að það væri spurning hvort ríkisstjórnir, þ.e. framkvæmdarvaldið, á hverjum tíma ætti að hafa bein afskipti af skipan dómsmála en auðvitað er það Alþingis að setja lög þar um og hver sem er getur komið með tillögur þar að lútandi.
    Ég skildi svar hæstv. dómsmrh. þannig að nóg sé gjört að sinni og það séu ekki neinar frekari hugmyndir á ferð um verulegar breytingar. Ég vil þó ítreka það, sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, hvort

dómsmrh. hefur ákveðnar skoðanir á hugmyndum um þriðja dómstigið eða hvort hann telur að þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar geri slíkt dómstig óþarft. Ég minni á það að núverandi forseti Hæstaréttar hefur haft slíkar hugmyndir. Þá er það hugsað þannig að þar með verði hlutverk Hæstaréttar afmarkaðra en nú er og það verði ekki eins mikið um það að málum sé vísað til Hæstaréttar og raun ber vitni og hefur reyndar valdið deilum á undanförnum vikum og mánuðum.