Framtíðarskipan Hæstaréttar

139. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 15:30:26 (6544)


[15:30]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það liggur í hlutarins eðli að dómsmálayfirvöld, dómsmrn., hefur þær starfsskyldur að fylgjast með framkvæmd dómsmála og hafa frumkvæði að nauðsynlegum endurbótum og nýrri löggjöf eftir því sem tímarnir breytast og Alþingi tekur síðan ákvarðanir þar um og býsna furðulegt að heyra þingmenn halda að önnur skipan eigi að vera á þeim málum í ljósi þess við hvaða stjórnarskrá við búum.
    Vegna fsp. hv. þm. um það hver sé afstaða mín til þriðja dómstigsins eða millidómstigs milli héraðsdóms og hæstaréttar þá kom það alveg skýrt fram í umræðum um þau mál, sem ég hef áður getið um, á þinginu fyrr í vetur og hv. þm. hefði átt að vita ef hann hefði fylgst með framgangi þeirra mála. Þar kom það mjög skýrt fram að ég teldi ekki rétt að koma á þriðja dómstiginu og jafnframt kemur mjög skýrt fram í gögnum og athugasemdum með frumvörpum sem fyrir liggja, sem þeir vita sem hafa lesið þau frumvörp og þær athugasemdir, að tillögurnar sem samþykktar voru í vetur eru tillögur réttarfarsnefndar sem ekki gerði tillögu um þriðja stjórnsýslustigið og formaður þeirrar nefndar er forseti Hæstaréttar sem hv. fyrirspyrjandi hefur getið hér nokkrum sinnum um.