Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:34:51 (6552)


[16:34]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að það komi hér fram að landbn. fjallaði um frv. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hans félaga sem hann sagði frá áðan. Það út af fyrir sig er rétt að það voru ekki horfur á fullu samkomulagi við afgreiðslu málsins í nefndinni en það stafaði m.a. af því eins og kom fram í máli hans áðan að afar skylt mál var til umræðu í samgn. og hlaut þar afgreiðslu eins og hér hefur verið frá sagt. Af þessu tilefni og í samráði við 1. flm. var málið afgreitt í landbn. með bréfi til hæstv. samgrh. þar sem eftir því var leitað að það yrði samtímis tekið til umfjöllunar af þeirri nefnd sem á að fjalla um girðingar meðfram girtum vegsvæðum. Jafnframt því sem þær umsagnir sem nefndin hafði fengið um málið voru að sjálfsögðu látnar fylgja þar með. Þannig að því hefur verið til skila haldið að þær upplýsingar sem fyrir landbn. lágu og af henni var aflað svo og málið sjálft yrði tekið til meðferðar. Vonandi að það fáist efnisleg niðurstaða í það mál með þeim hætti að menn geti þar við unað. Þetta fannst mér rétt að kæmi fram í þessari umræðu þótt að formlegri afgreiðslu af hendi landbn. sé að þessu leyti lokið.