Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:39:11 (6554)


[16:39]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Einungis út af þeim fyrirspurnum sem komu hér fram þá vil ég segja það fyrst að ég hygg að það séu fullnægjandi heimildir fyrir hendi til þess að Vegagerðin geti fylgst með og lokað vegum vegna snjóflóðahættu, það er a.m.k. svo þar sem ég þekki best til, í Ólafsfjarðarmúla, að ekki hefur verið undan því kvartað að heimildir væru ekki fyrir hendi. Eins og hv. þm. er kunnugt er þar enn töluverð hætta á snjóflóðum og það hafa ekki komið upp athugasemdir eða kvartanir yfir því að Vegagerðin hafi ekki fullnægjandi heimildir til að loka þeim vegi og gefa aðvaranir ef svo ber undir enda er vegurinn undir mjög ströngu eftirliti Vegagerðarinnar og rétt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að Vegagerðin hefur gjarnan þetta eftirlit með höndum út um þjóðvegi landsins. Hins vegar verður að vera á þessu föst regla og ég hygg að þar sé samstarf milli þeirra sem standa að Almannavörnum mjög gott og öllum ljóst hversu brýnt það er að þessum málum sé vel fylgt eftir.
    Um girðingarmálin þarf ég ekki að ræða, það liggur alveg ljóst fyrir að það mál verður tekið til athugunar í sumar. Tillögur munu verða uppi á haustdögum og þær athugasemdir sem samgn. bárust verða teknar til athugunar.
    Ég hygg að það sem hér standi um einkavegi sé fullnægjandi. Ég geri ráð fyrir því að það kunni að vera svo sums staðar, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði, að hluta landsvega, einkum ef um troðninga er að ræða, hafi verið breytt í einkavegi. Þetta frv. breytir engu þar um og auðvitað geta eigendur ekki tekið að sér veghald nema með samþykki og skilyrðum Vegagerðar.
    Að síðustu veit ég ekki hvort ég á að segja það um hina fróðlegu og gagnmerku ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um stofnbrautir og tengivegi, safnvegi, landsvegi --- ég bið afsökunar, stofnvegi. ( Gripið fram í: Já.) Það er þá einhvers staðar annars staðar sem braut stendur. ( Gripið fram í: Það var í gamla daga.)
          Afhvarf mikið

          er til ills vinar,
          þótt á brautu búi,
          en til góðs vinar
          liggja gagnvegir,
          þótt hann sé firr farinn.
    Menn eru að reyna að skilgreina fyrir sér þjóðvegakerfið í heild sinni. Hér eru þessi orð valin, stofnvegir, tengivegir, safnvegir, landsvegir. Ég tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þetta er kannski svolítið flókið þegar verið er að tala um það að stofnanir standi við stofnvegi en:
          Ég hlýt að virða að vettugi
          þótt vefjist fyrir Hjörleifi
          stofnanir við stofnvegi
          sem stofnað er til á Alþingi.