Réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um herafla í Evrópu

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:03:27 (6562)


[17:03]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er til lokaumræðu frv. til laga um réttindi eftirlitsmanna vegna samnings um hefðbundinn herafla í Evrópu og samnings um opna lofthelgi. Þetta mál er komið í gegnum 2. umr. og lá þá fyrir nál. frá hv. utanrmn. sem fjallaði um frv. og lagði til að það yrði samþykkt. Hér kann að vera hið merkasta mál á ferðinni, ég skal ekki vísa því út í neitt hafsauga, en nokkuð kemur það spánskt fyrir sjónir að það skuli þurfa á Alþingi Íslendinga að lögfesta efni af því tagi sem hér er um að ræða og kveðið er á um í 1. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Eftirlitsmenn og flutningsáhafnir, sem starfa á grundvelli samnings frá 19. nóv. 1990 um hefðbundinn herafla í Evrópu og samnings frá 24. mars 1992 um opna lofthelgi, skulu njóta þeirrar friðhelgi, forréttinda og undanþága hér á landi sem kveðið er á um í samningunum.``
    Síðan er í athugasemdum við þetta mál vísað í málsskjöl, sem eru ekki lítil að vöxtum sem tengjast þessu máli, sem er staðfest fullgilding samnings sem hér að lýtur þann 14. des. 1991 og auglýsingar þar að lútandi sem vitnað er til. Í samningnum er gert ráð fyrir takmörkun ákveðinna tegunda hefðbundinna vopna í Evrópu og er aðildarríkjunum heimilt að senda eftirlitssveitir til annarra aðildarríkja til að tryggja framkvæmd samningsins.

    Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég tel það nokkuð merkilegt að við skulum hér á Alþingi vera að fjalla um mál af þessum toga og það sé þörf fyrir okkur að lögfesta ákvæði eins og hér er um að ræða. Ég hef ekki haft aðstæður til eða tekið mér tíma til að fara ofan í rökin í hólf og gólf fyrir því að fara að lögfesta samninga af þessum toga en ég leyfi mér að láta efasemdir koma fram um að nauðsynlegt sé að skapa þau forréttindi og þær undanþágur sem er verið að lögfesta með frv.