Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:07:25 (6563)


[17:07]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það hafi verið á Alþingi á árunum 1979--1981 að hv. þm. Karvel Pálmason flutti fjöldann allan af þingsályktunartillögum, fyrirspurnum og frumvörpum sem snertu sérstaklega lífeyrisréttindi sjómanna og það að þeir fengju lífeyri við 60 ára aldur. Haustið 1981 varð það að samkomulagi í tengslum við kjarasamninga að breytt skyldi tvennum lögum til að koma til móts við þessi sjónarmið. Annars vegar lögum um almannatryggingar, um það að sjómenn gætu fengið ellilífeyri samkvæmt þeim 60 ára gamlir og hins vegar lögum um Lífeyrissjóð sjómanna um það að sjómenn gætu fengið lífeyri úr þeim sjóði 60 ára gamlir.
    Þegar frá þessu máli var gengið var það alveg ljóst öllum þeim sem að því stóðu að hér væri um að ræða tilteknar skuldbindingar sem Lífeyrissjóður sjómanna og ríkissjóður væru að taka á sig. Lífeyrissjóður sjómanna annars vegar vegna sjálfs sín og hins vegar ríkissjóður vegna almannatrygginganna og framkvæmd þeirra laga. Þess vegna hefur það alltaf verið dálítið sérkennilegt þegar talsmenn lífeyrissjóða og jafnvel sjómanna hafa verið uppi með að það væri sérstaklega íþyngjandi fyrir þennan sjóð að sjómenn ættu rétt á því að taka lífeyri 60 ára gamlir. Ótrúlegustu yfirlýsingar hafa birst um það efni jafnvel frá einum og einum manni í sjómannasamtökunum og þótt kannski megi segja að hámarki hafi sérkennilegheitin í tengslum við þetta mál náð núna á dögunum þegar það birtist, ég hygg að það hafi verið á Stöð 2, frétt þess efnis að árið 1981 hefði verið gefin út yfirlýsing um að ríkissjóður ætti að standa undir þessum auknu skuldbindingum Lífeyrissjóðs sjómanna, en yfirlýsingin hefði týnst og þess vegna væru menn núna að flytja það frv. sem hér liggur fyrir.
    Staðreyndin er sú að yfirlýsingin var aldrei gefin. Hún var aldrei gefin með óyggjandi og skuldbindandi hætti. Hins vegar var það alveg ljóst öllum sem að þessu máli stóðu að þarna var sjóðurinn að taka á sig tilteknar viðbótarskuldbindingar.
    Síðan verð ég að segja alveg eins og er að mér finnst það dálítið sérkennilegt --- og ég bið afsökunar á því að ég skuli ekki hafa haft tækifæri til að taka þátt í umræðum um þetta mál fyrr en núna, hæstv. forseti, --- að hér er flutt frv. sem er fyrst og fremst flutt vegna þess að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna óskaði eftir áliti lagadeildar Alþingis á því hvort rétt væri að fella niður lög um sjóðinn og taka upp reglugerð í staðinn. Ég hefði gaman af því að sjá framan í þá lagadeild við tækifæri. Byggðist sú ósk stjórnarinnar m.a. á athugasemdum sem fram komu á Alþingi við meðferð lagafrv. um sjóðinn. Í greinargerð segir: ,,Í áliti lagadeildar þingsins kom m.a. fram að þrátt fyrir að Lífeyrissjóður sjómanna hafi um margt sérstöðu, t.d. varðandi tíð sjó- og vinnslys og ellilífeyrisréttindi frá 60 ára aldri í sérstökum tilvikum, verði ekki séð að almenn rök standi til þess að halda í lögbindingu reglna um skipulag og starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna fremur en annarra starfsstétta né að ástæða sé til þess að Alþingi fjalli um breytingar á reglum þess sjóðs fremur en flestra annarra lífeyrissjóða. Þó var bent á``, segir í greinargerð, ,,að í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna væru ákvæði sem aðeins geta staðið í lögum en ekki reglugerð, og er þar sérstaklega átt við ákvæðið um lögveð í skipum til tryggingar innheimtugjalda. Í því sambandi var bent á að heppilegast væri að flytja frv. til nýrra laga um Lífeyrissjóð sjómanna þar sem kveðið væri á um tilvist sjóðsins og höfð inni ákvæði sem nauðsynlegt væri að hafa lögbundin. Á grundvelli laganna yrði síðan sett reglugerð þar sem kveðið væri á um aðrar reglur sem gilda ættu um starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna.``
    Og það sem mér finnst að sé gert hér, hæstv. forseti, er að það er verið að smeygja inn í þingið frv. til alveg nýrra laga fyrir Lífeyrissjóð sjómanna með tæknilegum rökum, eingöngu með tæknilegum rökum. Ég segi alveg eins og er að mér finnst það ekki gott að nota álit lagadeildar Alþingis eins og hér er reynt að gera því að síðar í grg. segir, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af áliti lagadeildar Alþingis samþykkti stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna að stefna að því að felld yrðu úr gildi núgildandi lög sjóðsins en sett yrðu í staðinn stutt lög og síðan reglugerð í þeim tilgangi að auðvelda nauðsynlegar breytingar á reglum sjóðsins án atbeina Alþingis. Samhliða þessum breytingum yrðu reglur sjóðsins endurskoðaðar í heild, sérstaklega í ljósi fjárhagsstöðu hans.``
    Með öðrum orðum er það þannig að í umræðum um Lífeyrissjóð sjómanna í hittiðfyrra féllu einhver orð um það að kannski væri best að vera bara með lífeyrisréttindi sjómanna eins og önnur lífeyrisréttindi í almennum lífeyrislögum, þ.e. í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og reglugerð á þeim grunni. Af hverju er verið að hafa sérlög um Lífeyrissjóð sjómanna? Í framhaldi af því stekkur stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna á það hálmstrá að biðja lagadeild Alþingis um álit á því hvort það sé rétt að gera þetta svona eða ekki. Og niðurstaða lagadeildar Alþingis verður svo sú samkvæmt þessu að það sé betra að hafa stutt lög um Lífeyrissjóð sjómanna, alls ekki löng, og síðan reglugerð á grundvelli hinna stuttu laga. En hvað er raunverulega verið að gera, hæstv. forseti? Samkvæmt reglugerðardrögum sem mér hafa borist og fyrir liggja í fjmrn. þá er gert ráð fyrir því að skerða sérstaklega rétt sjómanna til lífeyris við 60 ára aldur. Það er bersýnilega gert ráð fyrir því því að í þeim reglugerðardrögum sem ég hef séð segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er sjóðfélaga, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur og verið lögskráður á íslensk skip í 180 daga að meðaltali á ári, þó ekki skemur en 120 daga ár hvert, að hefja töku ellilífeyris þegar hann er fullra 60 ára. Skal þá upphæð ellilífeyris lækka um 0,4% fyrir hvern mánuð eða brot úr þeirri tölu sem vantar á 65 ára aldur er taka lífeyris hefst.``
    Það er því augljóslega verið að skerða þennan umsamda rétt sem sjómenn hafa haft alveg frá árinu 1981. Ég segi alveg eins og er að auðvitað má gagnrýna þann sem hér stendur fyrir að hafa ekki vakið athygli á þessu máli fyrr. En engu að síður er 3. umr. til þess að laga hlutina allt til loka meðferðar þeirra á Alþingi og ég segi alveg eins og er að ég sem aðili að þessu máli á sínum tíma, sem flytjandi þess frv. sem var um að ræða í upphafi, sætti mig ekki alveg við að verið sé að smeygja lagabreytingum hér í gegn á algerlega tæknilegum forsendum þó að það sé bersýnilega fyrst og fremst ætlunin að skerða réttindi sjómanna til lífeyris við 60 ára aldur. Og ég spyr: Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað hér er í raun og veru á ferðinni? Ég segi alveg eins og er að ég dreg það í efa vegna þess að menn hafa horft á hinar tæknilegu röksemdir en ekki gert sér grein fyrir því að hér er um efnislega skerðingu á kjörum sjómanna að ræða.
    Nú getur auðvitað vel verið að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna standi að einhverju leyti að þessu máli og mér sýnist að svo sé og þar með fulltrúar sjómanna þar inni. Það eru engin rök í mínum huga vegna þess að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna er fangi þess veruleika að sjóðurinn á við gífurlegan vanda að stríða. Auðvitað hefði verið eðlilegt að gera Alþingi grein fyrir þeim vanda og að leita leiða með Alþingi til þess að kanna hvort ekki mætti taka á þeim vanda alveg sérstaklega.
    Hvað er þetta stór hópur sjómanna sem er verið að tala um? Þeir eru 200 talsins. Það eru 200 sjómenn í dag á 60 ára reglunni hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Þó nokkur hluti þessara manna er enn þá úti á vinnumarkaði. Um þriðjungur þessa hóps er vinnandi í landi. Um þriðjungur þessa hóps er vinnandi á sjó. Þriðjungur þessara sjóðfélaga sem hér um ræðir eða um 60--70 manns eru hættir störfum. Hér er sem sagt samtals um að ræða 200 menn af alls 7.600 sjóðfélögum. Ég segi alveg eins og er að ég trúi því ekki að það sé nauðsynlegt við þær aðstæður sem nú eru að skerða þennan rétt einhliða, þennan 60 ára lífeyrisrétt sjómannanna, þegar þess er gætt að rekstrarkostnaður Lífeyrissjóðs sjómanna á ári er 36 millj. kr., á hverju einasta ári. Ég hygg að það sé vandfundinn miklu dýrari lífeyrissjóður í rekstri heldur en Lífeyrissjóður sjómanna.
    Þess vegna segi ég það fyrir mitt leyti að ég tek ekki að fullu niðurstöður stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna, þó að þar séu fulltrúar sjómanna, sem dóm í þessu máli. Ég mundi vilja skoða það aðeins betur.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að í frv. er að vísu gert ráð fyrir því að það þurfi að nást samkomulag um reglugerðirnar en það segir svo í 5. gr., með leyfi forseta:
    ,,Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skal setja í reglugerð sem stjórn sjóðsins semur og staðfest er af Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og fjmrh.``
    Það er því bersýnilegt að fjmrh. hefur neitunarvald þegar kemur að því að skrifa niður þessa reglugerð þegar búið er að taka 60 ára ákvæðið út úr lögunum eins og er verið að gera tillögu um. Hér er uppi tillaga um að fella 60 ára ákvæðið út úr lögunum um Lífeyrissjóð sjómanna eins og þau eru í dag.

    Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram þá fyrirspurn við hæstv. fjmrh., ef ég gæti náð eyrum hans þótt síðar væri í ræðu minni sem getur varað eftir þörfum, hvernig hann hyggist hafa þessa reglugerð. Ég vildi inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort reglugerðardrög liggja fyrir og hvort það er ætlunin og þá hvernig að skerða 60 ára lífeyrisrétt sjómannanna samkvæmt þeim reglugerðardrögum sem fjmrn. hefur verið að vinna með.
    Ég vil síðan benda á annað í þessu sambandi, hæstv. forseti. Þetta eru ekki einu lögin sem fjalla um 60 ára lífeyri sjómanna. Það gera líka lög um almannatryggingar. Hér eru sem betur fer engar tillögur uppi um að skerða þann rétt, en ég vil spyrja af þessu tilefni: Hefur það komið til tals að skerða líka rétt sjómanna til lífeyris við 60 ára aldur samkvæmt almannatryggingalögum?
    Ég held með öðrum orðum, hæstv. forseti, að þetta frv. verði að skoða pínulítið betur. Það liggur ekkert á að afgreiða málið. Það þarf að skoða það miklu betur. Það þarf að fá það til meðferðar í þingnefnd og víðar og fara yfir þessi mál vegna þess að í raun og veru er um það að ræða að menn eru að gera tillögu um kjaraskerðingu hjá fullorðnum sjómönnum með tæknilegum röksemdum sem eru ekki aðalatriði málsins. Ég sætti mig ekki við það, hæstv. forseti, og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. sé reiðubúinn til að svara ábendingum mínum og við getum átt umræður um málið.