Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:21:12 (6564)


[17:21]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Þessi ræða var eilítið furðuleg. Við erum að ræða um um Lífeyrissjóð sjómanna. Það skal tekið fram að þetta frv. er flutt að tilhlutan stjórnar sjóðsins, enda er það siður að stjórnir lífeyrissjóðanna óski eftir því við fjmrn. að fjmrh. flytji á þingi þau frumvörp sem þarf að flytja til þess að breyta lögum um viðkomandi sjóði. Ég vil fyrst taka það fram að í athugasemdum um þetta frv. kemur fyrir ,,lagadeild Alþingis``. Þetta er það orðalag sem stjórn sjóðsins notaði en það sem átt er við að Elín Blöndal, starfsmaður nefndadeildar þingsins, fékk þessi mál til skoðunar vegna fyrirspurnar frá stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna. Það mun síðan vera misskilningur að kalla þá deild lagadeild Alþingis nema það viti á einhverjar breytingar í þeim efnum sem ég þekki ekki fremur en hv. þm.
    Það sem undrar mig hins vegar dálítið í þessu máli er að nál. var gefið út, 2. umr. hefur farið fram og undir nál. skrifa allir hv. þm. sem í nefndinni eru og enginn pólitískur ágreiningur um málið. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm., eða ég skildi hann svo, að á sínum tíma var lögum um sjóðinn breytt í þá veru að greiða skyldi sjómönnum lífeyri fyrr en ella. Það eina sem var að þeirri ákvörðun var að enginn virtist ætla sér að borga brúsann. Þegar slíkt gerist lendir það á sjóðnum sjálfum og nú er staðan sú að sjómenn verða að taka á sig þessa skerðingu til þess að sjóðurinn verði ekki eignalaus og geti ekki borgað út í samræmi við sínar reglur.
    Þetta vil ég að hér komi fram því að það ódýrasta sem menn geta gert, sérstaklega ráðherrar, er að breyta lögum um sjóði, lofa útborgun fyrr en ella en síðan eru engir fjármunir til að standa við þau loforð sem gefin eru. Ég ætla ekki að kenna hv. þm. um þetta mál, síður en svo, en ég hygg þó að hann geti frekar skýrt þingheimi frá hvernig á því stóð að sú ákvörðun var tekin á sínum tíma en sá sem hér stendur. ( SvG: Ég gerði það áðan ef ráðherrann hefði nennt að hlusta á mig.) Það er kallað hér fram í, virðulegi forseti, af hálfu hv. þm. sem er mjög ókyrr í sæti sínu, að hann hafi lýst þessu áðan og þá er ég ekkert að gera annað en endurtaka það sem hann sagði.
    Varðandi reglugerðardrög um sjóðinn þá er það svo að reglugerðina semur stjórn sjóðsins. Reglugerðina þarf hins vegar að senda til fjmrn. til staðfestingar. Það er því ekki fjmrn. sem semur reglugerð fyrir sjóðinn heldur er það fjmrn. sem staðfestir reglugerð sem sjóðurinn sendir til fjmrn.
    Ég vil að þetta komi fram, virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og ég hygg að það sé skynsamlegast á þessari stundu að hinkra eilítið með framhald umræðunnar, gera hlé á henni, ég held að það sé skynsamlegast. Enda tel ég að það hafi verið beiðni hv. þm. til þess að nefndinni gefist kostur á að kynna sér málið frekar. En þess skal getið að bæði Árni Guðmundsson og Guðmundur Ásgeirsson hjá Lífeyrissjóði sjómanna komu á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir sjónarmiðum stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna. Aðild fjmrn. að þessu máli er ekki önnur en sú að flytja þetta frv. að beiðni lífeyrissjóðsins og ég held að flestum þyki eðlilegt að lög Lífeyrissjóðs sjómanna séu í takt við lög annarra lífeyrissjóða í landinu og að reglugerðir séu mjög svipaðar frá einum lífeyrissjóði til annars. Það er í takt við það sem er að gerast í þjóðfélaginu þar sem verið er að reyna að samræma lífeyrisréttindi eins og hægt er og þar sem lífeyrissjóðirnir eru að taka til í eigin ranni til þess að sjóðirnir standi undir þeim skuldbindingum sem þeir eiga að gera, að geta greitt sjóðfélögum, þeim sem eiga sjóðinn, út þá fjármuni sem þeir eiga samkvæmt sjóðsreglunum þegar þeir komast á þann aldur að þeir eiga að fá slíka útborgun.
    Ég tel, virðulegi forseti, þess vegna full efni til þess vegna orða hv. þm. að nefndin skoði málið, enda treysti ég því að nefndin þurfi ekki lengri tíma en svo að þetta frv. geti orðið að lögum í tíma. Það er flutt af brýnni þörf að mati stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna.