Meðferð og eftirlit sjávarafurða

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 18:00:45 (6572)


[18:00]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegur forseti. Svo sem fram kemur í nál. á þskj. 979 þá sat ég fundi hv. sjútvn. sem áheyrnarfulltrúi og var þar við afgreiðslu þessa máls sem og í öðrum málum. Ég vil gera grein fyrir því að ég er í hópi þeirra sem standa að afgreiðslu þessa máls með fyrirvara. En þar sem illa er nú hægt að orða það svo að ég hafi setið fundi nefndarinnar með fyrirvara þá hefði ég kannski átt að hafa vara á og láta það koma fram í þessu nál. að ég hef nokkurn fyrirvara á því að standa að afgreiðslu þessa máls. Ég hef að sjálfsögðu ekki tök á að skrifa sér nál. enda held ég að ég geti allt eins komið mínum sjónarmiðum á framfæri hér í ræðu.
    Það er raunar við báðar efnismálsgreinar þessa frv. sem ég hef athugasemdir. Varðandi 1. gr. þá er það vissulega rétt að þarna er um töluvert miklu betri texta að ræða en var á því frv. sem var hér til umræðu á sl. ári og náði ekki fram að ganga. Ég held að það geti varla nokkur maður velkst í vafa um að það hefði verið slæmt ef það orðalag sem þá var uppi hefði verið samþykkt þar sem var hægt í undantekningartilfellum að setja sérstaka aðgreiningu á hráefni eftir uppruna og ráðherra var í sjálfsvald sett hvernig það væri. Það var því gert ráð fyrir þeirri meginreglu að þarna væri sem sagt ekki um aðgreiningu að ræða og það var auðvitað gjörsamlega óviðunandi og engan veginn í takt við afgreiðslu þessa máls sem var eftir mikla vinnu í nefndinni og var afgreitt 20. nóv. 1992 svo sem sjá má á heiti frv.
    Það sem mér finnst í rauninni áhyggjuefni og fram kom í umfjöllun nefndarinnar nú er það að smásölukaupandi erlendis á alls ekki skýlaust kost á því að vita hvaðan varan er sem hann kaupir. Hins vegar geta kaupendur erlendis sem kaupa vöru til dreifingar erlendis mjög glögglega vitað hvaða vöru þeir eru að kaupa. Það er að sjálfsögðu algjörlega í takt við það sem á að vera. En þegar í smásölu er komið þá er algjörlega undir hælinn lagt hvort neytandi er að kaupa íslenskan fisk frá Íslandi, veiddan af íslenskum aðilum eða fisk sem landað er á Íslandi og unninn á Íslandi. Ég hef athugasemdir fram að færa við þetta. Mér finnst þetta ekki heppilegt. Þetta kom fram í upplýsingum frá Árna Kolbeinssyni þegar hann kom á fund nefndarinnar og var hann svo sem ekki að verja þetta út af fyrir sig. Við getum ekki sett erlendum dreifingaraðilum skilyrði um það hvernig þeir merkja þá vöru sem þeir dreifa hjá sér. Þvert á móti hefur komið fram t.d. að það eru örfá stórfyrirtæki sem ráða u.þ.b. 90% smásölumarkaði í Frakklandi. Þau hafa það nánast algjörlega í hendi sér hvernig vara er kynnt og merkt á þeim markaði. Við erum í rauninni ofurseld þeim ákvörðunum sem þar eru teknar og við eigum það á hættu að ef sá sem sér um smásöludreifingu í erlendu landi gerir ekki þennan greinarmun þá munum við hugsanlega gjalda þess ef ekki er um sambærileg gæði að ræða á því hráefni sem leyft er og ekki er flokkað sérstaklega frá hinu sannanlega íslenska hráefni. Þetta finnst mér mikið áhyggjuefni. Hins vegar kom það mjög skýrt fram í nefndinni að það eru önnur atriði, sérstaklega varðandi loðnuvinnslu í fiskimjöl, sem valda því að þessar breytingar eru lagðar til og eru núna í 2. umr., komnar út úr nefnd og þá með þokkalegri sátt. Þetta er vandamál sem menn viðurkenna og eru að bregðast við. En ég hef dálitlar efasemdir og þær efasemdir hafa ekki vikið frá mér að við séum að gera þetta með réttum hætti að gefa færi á svona mikilli opnun. Mér finnst miður að svo skuli vera en ber eins og aðrir ábyrgð á því að hér náðist ekki betri niðurstaða. Þetta var einfaldlega niðurstaða nefndarinnar og ég held að það hafi allir verið sammála um að það væri þessi skilningur fyrst og fremst að hér væri verið að bregðast við vandræðum varðandi vinnslu loðnumjöls sem við værum að leysa. Ég hef í sjálfu sér enga athugasemd um það fram að færa.
    Varðandi 2. mgr., þá hefur það komið í ljós sem við nokkur og ekki síst við kvennalistakonur bentum á þegar verið var að setja upp þetta mikla píramída- eða topphúfukerfi, með Fiskistofu, skoðunarstofum og síðan því eftirliti sem framleiðandinn sjálfur er með, að hér væri verið að fara út í allt of flókið og viðamikið kerfi sem mundi tvímælalaust leiða til aukins kostnaðar og ég held að þessi viðbót við lög um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra sýni svo ekki verði um villst að þetta var að sjálfsögðu alveg hárrétt.
    Ég lít svo á að þessir milliliðir séu óþarfir. Það hefur komið fram æ ofan í æ að eftir sem áður verður opinber aðili að bera fulla ábyrgð á eftirlitinu rétt eins og gert var á vegum Ríkismats sjávarafurða hér áður. Þessi breyting gerir ekkert annað en að auka kostnað, umfang og skrifræði, sem ég held að sé engri framleiðslu til góðs. Ég legg jafnríka áherslu á að staðið sé vel að gæðamati eins og mér finnst það skipta miklu minna máli hversu mörg vottorð liggja að baki hverri vöru. Mér finnst það í rauninni alveg fáránlegt ef við erum orðin uppteknari við að leggja fram pappíra heldur en í raun að sinna gæðamati. Ég óttast það og er ekki ein um þá skoðun að við séum einmitt að þægja skrifræðinu með því kerfi sem við höfum byggt hér upp.
    Ég vil benda á að þessar 200 þús. kr. fyrir viðurkenningu á skoðunarstofu eru ekkert peningur sem skoðunarstofur taka bara og borga svona úr eigin vasa af gæðum sínum og notalegheitum heldur er þetta að sjálfsögðu nokkuð sem fer úr í verðlagið og ég er hrædd um að gjald sem einu sinni er komið á fari nú ekki svo glatt af. Ég held að reynslan hafi margsýnt það og sannað.
    Það var mikið rætt um það þegar við vorum að breyta lögum um Ríkismat sjávarafurða og samþykkja lögin um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra að hér væri hægt að koma upp algjörlega nýju kerfi sem t.d. félagar okkar í Evrópu litu glaðlega til og litu jafnvel á sem einhvers konar fordæmi fyrir sig og það er það að skoðunarstofur öxluðu meiri ábyrgð en þær gera í öðrum löndum eða hliðstæð battirí, sem ég náttúrlega vona að séu ekki þar en sem sjálfsagt er hægt að finna í einhverjum sanntrúuðum skrifræðislöndum. Þarna áttu sem sagt einkareknar skoðunarstofur að taka af alla ábyrgð og svo kom það náttúrlega í ljós eftir því sem við vorum að vinna þetta mál meira að þarna var um hreina viðbót að ræða í langflestum tilvikum og eftir sem áður var þetta opinbera eftirlit algjör forsenda fyrir því að það væri tekið mark á því eftirliti sem við byðum upp á. Þannig að þetta mikla nýmæli sem við áttum að geta boðið upp á reyndist svo sem ekki nokkur skapaður hlutur og þá var bara verið að halda í þetta nýja kerfi kerfisins vegna og þannig er þetta enn.
    Ég er jafnósátt við þá kerfisbreytingu sem gerð var nú og ég var þegar þetta var afgreitt. Ég minnist þess að hafa haft býsna mörg orð um þetta og ég vildi óska að þau orð hefðu verið tekin eilítið alvarlegar en menn hefðu ekki farið að festa sig í þjónkun á einhverju kerfi sem þeir hvorki þekktu né skildu og sitja nú uppi með og þann aukna kostnað sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja. Þetta er aðeins lítið bort af því sem þar blasir við.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv. að svo stöddu. Mér þótti hins vegar rétt þar sem ekki er sérstaklega tekið fram í nál. að ég hafi fyrirvara við þetta mál að ég geri þá grein fyrir honum hér enda er kannski full ástæða til að gera það hér í heyranda hljóði við 2. umr. þessa máls.