Breyting á reglugerð um Atvinnuleysistryggingasjóð

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 13:45:34 (6585)


[13:45]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þær áskoranir sem hér hafa komið til ríkisstjórnarinnar en ég vil vekja sérstaka athygli á því að fyrir þinginu liggja einnig a.m.k. tvö önnur frv. sem varða breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, mjög brýn að mínu mati. Annað er flutt af okkur kvennalistakonum og hitt af Tómasi Inga Olrich og ég geri ráð fyrir því að stjórnarsinnar styðji við bakið á honum í því máli. En það varðar það að gefa fólki meiri möguleika á því heldur en nú er að nýta atvinnuleysistímabil til frekari menntunar heldur en nú er gert. Ég held að það sé mjög brýnt að það verði einnig hugað að þessu, hvernig svo sem hægt verður að taka utan af því þá skora ég á hæstv. félmrh. að gefa þessu gaum hvort sem það verður með þeim hætti að taka þessi frumvörp sérstaklega til athugunar núna fyrir þinglok eða að líta á hvaða möguleikar eru ef reglugerðir eru eins opnar og sveigjanlegar og hér hefur komið fram.