Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 16:32:18 (6594)


[16:32]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að láta koma fram að það tókst ágæt samstaða um þetta mál í hv. menntmn. þar sem unnið var að málinu þannig að allt fólkið lagði eitthvað í púkkið og niðurstaðan er samstaða um málið. Það er út af fyrir sig viðeigandi sem fram kemur í máli hv. 10. þm. Reykn. að vitna í hinar dýrustu bókmenntir á þessum örlagaríku tímum þegar við erum að hefja 2. umr. um frv. til laga um Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn, eins og við leggjum til að þessi stofnun heiti, og velta því fyrir sér hvaða sess hún mun hafa í íslenskri þjóðmenningu á komandi árum sem verður örugglega allt annar sess en sá sem bókasöfn gegndu fyrir öldum eða fyrir kannski einni öld eða svo þegar voru lögð drög að Landsbókasafninu í Safnahúsinu, að ég tali nú ekki um þau söfn sem Arnas Arnæus dró gögn í fyrir nokkur hundruð árum og brunnu að nokkru leyti. Það rifjast upp frásögnin af því þegar skinnpjatlan dýra, sú dýra membrana, var dregin undan kerlingunni á Rein við Akranes þegar þau komu þar, hann og Snæfríður og hún sagði: ,,Vinur hví dregurðu mig inní þetta skelfilega hús?`` Það segir örugglega enginn þegar hann kemur í húsið vestur á Melum. Það er nokkuð öruggt hvað sem öllu öðru líður að það verður talið heldur gott hús auk þess sem það er rautt sem er talsvert miklu betra eins og liggur í augum uppi. Ber lit hjarta blóðs eins og vera ber fyrir miðstöð bókasafns og menningar í landinu.
    Það sem er kannski líka vert að rifja upp á þessari stundu er að þessi bygging hefur verið mjög lengi á döfinni. Ég hef tekið eftir því að núv. hæstv. menntmrh. hefur lagt á það mikla áherslu að hann hafi gert þetta að forgangsverkefni í sinni tíð og það liggur fyrir að það hefur hann gert. Það er mikið álitamál hvaða verkefni það eru sem á að gera forgangsverkefni fyrir hvern menntmrh. Ég tel að það komi til álita að taka stofnanir eins og þessa, Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn, út úr og ljúka því, en ég tel að það komi líka til álita að leggja t.d. enn þá meiri áherslu á aðra þætti sem undir ráðuneytið heyra og menntun landsins barna, t.d. grunnskólann og uppbyggingu hans eða aðra þætti eins og Lánasjóð ísl. námsmanna eða rannsóknar- og vísindastarfsemi. Allt fer þetta eftir því hvað menn telja brýnast og skynsamlegast og í rauninni þarf ekki að felast í þessu neitt annað en það að menn telji að rökin fyrir hlutunum séu mismunandi eftir því hvernig þeir horfa á hina menningarlegu þróun þjóðarinnar, þróun þjóðarinnar í menntamálum.
    Ég held að á þessari stundu sé kannski líka rétt að rifja það upp áður en ég kem að sjálfum efnisatriðum breytingartillagnanna að það eru fáeinir þættir sem vert er að fara yfir áður en lengra er haldið. Fyrst það að við eigum löggjöf um uppbyggingu menningarstofnana og sérstaka skattlagningu í sjóð til að byggja þær upp og að halda þeim húsum við sem þar er um að ræða. Ég teldi skynsamlegt að það yrði gerð áætlun til nokkurra ára, kannski fimm eða tíu ára, um endurbætur á þeim húsum sem um er að ræða í þessu samhengi sem eru Þjóðminjasafn, Þjóðleikhús, Þjóðskjalasafn og e.t.v. fleiri. Ég nefni líka í því sambandi af því að við erum einmitt núna að tala um bækur, Amtsbókasafnið á Akureyri. Ég veit að það er ekki hluti af þessu frv. en ég segi alveg eins og er að ég tel mjög brýnt að sýna Akureyrarbæ samstöðu varðandi þau verkefni sem þar er verið að vinna við uppbyggingu á bókasafninu sem hafa dregist úr hömlu vegna fjárkorts en eru engu að síður óhjákvæmileg meðan Amtsbókasafnið er skilaskyldusafn.
    Ég vil af þessu tilefni leyfa mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. menntmrh., af því að hann sagði það í blaðagrein fyrir nokkru að það lægju fyrir drög að áætlun um notkun endurbótasjóðs menningarstofnana, hvernig hann sér fyrir sér vinnuna við þá áætlun.
    Í öðru lagi vil ég taka mjög eindregið undir það sem fram kemur í síðustu setningu nál. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Að lokum skal þess getið að í umræðum um frv. til laga um Þjóðarbókhlöðu kom fram að nefndarmenn leggja ríka áherslu á að Safnahúsið við Hverfisgötu hýsi í framtíðinni safna- og menningarstarfsemi.``
    Ég vek athygli á þessu og leyfi mér jafnframt að spyrja hæstv. menntmrh. um viðhorf hans til þessarar yfirlýsingar. Ég hefði reyndar talið koma til greina að ganga feti framar og segja: Árnastofnun og þau gögn sem þar eru geymd, handrit af ýmsu tagi, verða í þessu húsi. Ég hefði verið tilbúinn til að taka þátt í því að gefa slíka yfirlýsingu og vil spyrja um hug menntmrh. í þeim efnum. Þó að ég viðurkenni að málið sé sjálfsagt ekki með öllu einfalt, þá er hitt mjög nauðsynlegt að það liggi alveg fyrir hvaða starfsemi á að vera í Safnahúsinu á Hverfisgötu þegar starfsemin hefur verið flutt í þjóðarbókhlöðuhúsið rauða vestur á Melum.
    Varðandi efni frv. og meðferð þess vil ég fyrst segja það að þegar málið kom til meðferðar í hv. menntmn. þá höfðu farið fram hér allítarlegar umræður við 1. umr. og menn höfðu komið á framfæri fjölmörgum athugasemdum, þar á meðal sá sem hér stendur. Um frv. urðu nokkur skoðanaskipti en það komu ekki upp stórfelld ágreiningsefni að mínu mati þó að það örlaði á vissum ágreiningi um grundvallaratriði við 1. umr. þegar í upphafi. Þegar málið kom til meðferðar í hv. menntmn. lá þar fyrir, ég hygg bara á fyrsta fundi eða svo, álit frá millifundanefnd Háskóla Íslands um þetta mál. Háskólinn hafði fjallað um það en hafði ekki komið sínum athugasemdum á framfæri í tæka tíð við ráðuneytið áður en málið var lagt fram.

Þær athugasemdir sem háskólinn gerði við frv. eins og það kom frá ráðuneytinu voru mjög í ætt við það sem höfðu verið gerðar við 1. umr. málsins, m.a. af þeim sem hér stendur.
    Við frekari meðferð málsins reyndist vera sterkur og sanngjarn samkomulagsvilji í nefndinni sem að lokum stuðlaði að því að þó nokkur af þeim sjónarmiðum sem sett voru fram af háskólanum og sett voru fram af undirrituðum voru tekin til greina og eru þar með hluti af brtt. á þskj. 1029.
    Ég vil aðeins víkja að þeim, hæstv. forseti, og í fyrsta lagi sérstaklega að nafninu. Ég held að ég hafi tekið þannig til orða við 1. umr. að þetta væri mál sem við þyrftum að leita samkomulags um. Það væri ekki okkar hlutverk að slá því föstu endilega í ágreiningi við aðra hvað svona stofnun ætti að heita og niðurstaðan er sú sem liggur fyrir á þessum blöðum og ég er prýðilega sáttur við. Í nefndinni gengur þessi aðferð undir nafninu vestfirska aðferðin en það er eftir ábendingu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar sem á sæti í menntmn. og er þar yfirleitt skemmtilegur eins og annars staðar. Hann benti á að þegar leysa þyrfti flókin mál af því tagi sem hér voru uppi sé leiðin gjarnan sú að nefna viðkomandi, jafnvel barn, öllum þeim nöfnum sem ágreiningur hefur verið um að nota á barnið og verður oft býsna langt og erfitt fyrir barnið að bera það nafn ævilangt, sbr. Dósóþeus forðum, en engu að síður samkomulag foreldra og þeirra sem standa að viðkomandi barni. Það er sú niðurstaða sem hér hefur verið viðhöfð, þ.e. vestfirska aðferðin, eftir ábendingu hv. 2. þm. Vestf. og ég held að það sé ágæt lausn á málinu.
    Af því leiðir sú breyting sem gert er ráð fyrir í tölul. 2. Síðan vil ég sérstaklega vekja athygli á þeirri brtt. sem gerð er við 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að því aðeins sé hægt að skipa mann landsbókavörð að meiri hluti stjórnarinnar telji viðkomandi hæfan. Þetta tel ég mikinn áfanga og var eitt úrslitaatriði af minni hálfu varðandi það að standa að nál. óbreyttu eins og það lítur út. Ég hefði að vísu talið koma til greina að nál. og brtt. hefðu verið skarpari að þessu leyti og það hefði verið sagt fullum fetum að viðkomandi þyrfti að fá stuðning meiri hluta stjórnar til starfans en ekki bara að meiri hluti stjórnar teldi viðkomandi hæfan. Þessi varð niðurstaðan, sem er málamiðlun, og ég er prýðilega sáttur við hana.
    Sama er að segja hér um 4. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að landsbókavörður ráði aðstoðarlandsbókavörð. Ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu, en í frv. var gert ráð fyrir því að menntmrh. réði aðstoðarlandsbókavörð. Breyting sú sem hér er gerð tillaga um er í samræmi við önnur frv. sem liggja í þessari stofnun, t.d. frv. til útvarpslaga sem ég hef séð hér á borðum og fleiri mál. Ég hygg frv. til þjóðminjalaga þar sem gert er ráð fyrir því að þjóðminjavörður hafi með að gera veigamikla þætti í ráðningarmálum og mér finnst þetta skynsamlegt. Ég vil einnig segja það að ég tek sterklega undir þá skilgreiningu á þessu máli sem fram kom í framsöguræðu hv. 10. þm. Reykn. og kemur fram í lokum 4. tölul. á bls. 2 í nál.
    Þá vil ég einnig víkja aðeins að 7. gr. frv., sem vafðist talsvert mikið fyrir okkur. Þar er eiginlega talið allt upp sem Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn á að gera. Mér finnst þetta vandræðagrein og satt að segja gerði ég smátilhlaup á hana með því að reyna að kreista úr henni safann í 2--3 málsgreinar og að vísa til þess að nánari ákvæði yrðu sett um þetta mál í reglugerð. Hættan við svona nákvæma lagagrein er fyrst og fremst sú að hún yrði framkvæmd málsins til trafala sem kannski sést best á brtt. 5.a. þar sem gert er ráð fyrir því að alþjóðabóknúmerakerfið (ISBN) verði fellt niður af því að svo geti einhvern tíma farið að alþjóðlegt bóknúmerakerfi heiti kannski eitthvað annað en ISBN þó svo að það sé ólíklegt að svo verði í fyrirsjáanlegri framtíð. Þess vegna hefði ég talið að það væri skynsamlegra að höggva þessa grein aðeins niður en niðurstaðan varð þessi og ég stend að henni.
    Loks vil ég geta um þá brtt. sem er merkt nr. 9 í nál. og lýtur að 14. gr. frv. og réttarstöðu starfsmanna og leggja á það mikla áherslu sem fram kom í ræðu hv. 10. þm. Reykn., formanns menntmn., að við göngum út frá því, ég tel að það sé alveg skýrt, að þeim sem nú eru starfsmenn í þessum stofnunum verði gert tilboð um starf í hinni nýju stofnun og það sé aðferðin sem verði notuð. Það verði því ekki að öðru jöfnu nema alveg brýnar ástæður standi til þess gengið fram hjá neinum þeirra sem nú eru í ákveðinni stöðu í þessum tveimur stofnunum. Það held ég að sé mjög brýnt að komi skýrt fram. Ég segi fyrir mig alla vega að ég stend að þessu nál. fyrirvaralaust í fullkomnu trausti þess að þessu fólki verði öllu boðin staða við hina nýju stofnun þó ég viti að það kann að vera samkomulagsatriði, fyrirkomulagsatriði, og taka einhvern tíma að komast að niðurstöðu um það hvar nákvæmlega í hinni nýju stofnuninni viðkomandi starfsmenn munu starfa.
    Þetta var sem sagt um einstakar breytingartillögur sem ég tek undir og ætla ekki að ræða þær frekar.
    Að síðustu, hæstv. forseti, vil ég endurtaka það sem ég sagði við 1. umr. málsins. Það eru tvö söfn sem ég ber fyrir brjósti og spurði um þau, þ.e. kvennasögusafn og handritasafn Halldórs Laxness. Ég spurði um þau. Hæstv. menntmrh. sagði þá að það yrði fyrir þeim söfnum séð. Mér finnst það mikilvægt að sú yfirlýsing liggi fyrir. Ég tek mark á henni og vil ítreka hér við 2. umr. þannig að ekkert fari á milli mála, alla vega skilningur minn á því.
    Að allra síðustu er það svo það, hæstv. forseti, að þetta þarf að verða miðstöð rannsókna og bókasafna á Íslandi með sann, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Til þess að svo megi verða þarf að vera til peningur til þess að endurnýja og bæta gagnakost safnsins. Ég hreyfði þeirri hugmynd við 1. umr. málsins hvort ekki kæmi til greina, ef nauðsynlegt er þá að breyta lögunum, að taka um það ákvörðun að endurbótasjóður menningarstofnana fari að hluta til á næsta ári til þess að koma þarna fyrir góðum bóka- og

gagnakosti. Ég vil ítreka þessa hugmynd mína vegna þess að ég óttast það, ég segi það alveg eins og er, að ef ekki er tekin ákvörðun strax um eitthvað svona, þá verði safnið vanbúið um lengri tíma.
    Átökin um þetta safn á næstu árum verða aðallega tvíþætt að mínu mati. Þau verða fjárhagsleg og það eru tveir þættir sem menn munu þar láta vegast á. Annars vegar hversu marga nýja starfsmenn er hægt að fá, því að það verður að bæta við starfsliði, og hins vegar hversu mikið af gögnum og bókum er hægt að kaupa í safnið. Það er alveg ljóst að menn gera ekki hvort tveggja fyrir sömu peningana. Ég tel hættu á því að gagnakosturinn, bókakosturinn, verði látinn mæta afgangi í þessu sambandi og þess vegna hreyfi ég þeirri hugmynd með endurbótasjóðinn að hann verði notaður að hluta til í þessu skyni á árinu 1995. Þar með yrði þetta safn það sem það á að vera, flaggskip íslenskra bókasafna og rannsókna á bókasöfnum og þar með yrði það sú stofnun sem við viljum öll sjá að verði opnuð þann 1. des. nk. og fari að iða af lífi þegar frá fyrsta degi.