Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 16:53:12 (6597)


[16:53]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. menntmn. fyrir vel unnin störf í sambandi við afgreiðslu á frv. og góða samstöðu um afgreiðslu þessa mikilvæga máls í nefndinni. Til þess að gera langa sögu stutta þá vil ég segja það að ég fellst á allar brtt. sem hv. menntmn. flytur og þarf svo sem ekki að eyða neinum orðum í einstakar brtt.
    Við 1. umr. ræddum við nokkuð um nafnið á frv., frumvarp til laga um Þjóðarbókhlöðu. Ég lét þess getið að ýmsar aðrar hugmyndir höfðu komið fram og raunar hefði frv. heitið öðru nafni eins og nefndin sem samdi það gekk frá því, en ég nefndi í minni framsögu að m.a. hefði ég fengið ábendingu um það að safnið skyldi heita Landsbókasafn og ég tek það sérstaklega fram að ég get mjög vel fallist á þá brtt. um að safnið heiti Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn.
    Aðrar einstakar brtt. ætla ég ekki að eyða neinum tíma í að ræða. Ég fellst á þær allar.
    Hér hefur aðeins borið á góma nýting Safnahússins við Hverfisgötu og hv. þm. Svavar Gestsson spurði um viðhorf mitt til nýtingar hússins. Ég ræddi það nokkuð á fundi á hv. Alþingi 18. mars þegar við ræddum einmitt um þjóðarbókhlöðuna og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka neitt af því sem ég þá sagði, en efnislega var það í þá veru að ég teldi rétt og eðlilegt að húsið yrði nýtt til safnastarfsemi áfram. Það væri endanlega afgreitt mál að Hæstiréttur yrði þar ekki. Það var m.a. fyrir tilstuðlan fulltrúa míns í þeirri nefnd sem kannaði málið á sínum tíma hvort húsið skyldi nýtt fyrir Hæstarétt og ég lít svo á að það mál sé endanlega úr sögunni.
    Ég tek að sjálfsögðu eftir lokaorðunum í nál. hv. menntmn. og er ánægður með þau orð sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að lokum skal þess getið að í umræðum um frv. til laga um Þjóðarbókhlöðu kom fram að nefndarmenn leggja ríka áherslu á að Safnahúsið við Hverfisgötu hýsi í framtíðinni safna- og menningarstarfsemi.`` Undir þessi orð tek ég.
    Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi nokkuð um forgangsverkefni einstakra menntamálaráðherra og nefndi þar réttilega að ég hefði gert þetta mál að sérstöku forgangsverkefni. Raunar var það ákvörðun ríkisstjórnarinnar þegar hún tók við völdum vorið 1991. Ég hef lagt áherslu á að því ákvæði yrði komið í framkvæmd og hillir nú undir lok þessa viðfangsefnis sem hefur tekið allt of langan tíma. Auðvitað má um það deila hver forgangsverkefni skuli vera, hvernig skuli raðað í forgangsröð. Hv. þm. nefndi grunnskólann, lánasjóðinn o.fl. o.fl. Allt eru þetta mikilvæg viðfangsefni sem sjálfsagt allir ráðherrar mundu vilja sjá sem best borgið. Forveri minn, hv. þm. Svavar Gestsson, lagði t.d. mikla áherslu á endurbyggingu Þjóðleikhússins sem var vissulega verðugt viðfangsefni en er því miður ekki lokið. Þar er verk að vinna enn þá og vonandi verður hægt að taka til við það fyrr en síðar.
    Þá nefndi hv. þm. það sem ég hafði látið frá mér fara í blaðagrein fyrir skömmu að drög að áætlun væru til í ráðuneytinu um endurbætur á ýmsum menningarbyggingum og þar verða helst fyrir þær byggingar sem byrja á þjóð. Fyrir utan þjóðarbókhlöðu er það Þjóðskjalasafn, Þjóðminjasafn og Þjóðleikhús. Ég hef látið vinna að slíkri áætlanagerð að undanförnu í ráðuneytinu og nú liggja fyrir drög að áætlun um þessi efni, ekki eingöngu varðandi menningarbyggingar heldur raunar alla skóla sem undir menntmrn. heyra. Ég hef látið í ljós það álit áður að slíka áætlun væri nauðsynlegt að leggja fyrir Alþingi þannig að Alþingi væri ljóst hvaða viðfangsefni blöstu við í þessum efnum. Það sýnir sig, sem menn svo sem vissu en hafa nú staðfest í drögum að þessari áætlun, að þarna er um margra milljarða framkvæmdir að ræða sem að sjálfsögðu þurfa að dreifast á allmörg ár.
    Ég hef hér í höndum fyrstu drög sem eru ekki þannig unnin að þau séu til birtingar enn þá en þar er um að ræða ráðstöfun á endurbótasjóðnum til aldamóta, til ársins 2000, og þegar við teljum með það sem til ráðstöfunar er á þessu ári er um að ræða fjármuni að upphæð tæplega 2,6 milljarðar kr. Svo að ég nefni bara það sem helst blasir við, ég taldi upp nokkrar stofnanir, þá er þar um að ræða Þjóðminjasafnið. Raunar lagði ég fyrir ríkisstjórnarfund í morgun skýrslu byggingarnefndar Þjóðminjasafns þar sem hún leggur fram þrjá kosti í byggingarmálum safnsins og ég lagði fram ákveðna tillögu til kynningar í ríkisstjórninni. Hún verður að sjálfsögðu ekki afgreidd í dag en verður rædd á næstunni vonandi í ríkisstjórninni. Þar er það alveg ljóst að endurbætur á núverandi húsnæði munu kosta sennilega um 600 millj. kr. Einnig er þarna hreyft hugmyndum um nýbyggingu, sérstakt nýtt sýningarhús sem mun kosta 400--500 millj. kr. Þegar við horfum til þessarar stofnunar einnar, þá er þar fjárþörf upp á 1 milljarð til 1.100 þús. kr.
    Varðandi aðrar menningarbyggingar sem við sjáum fyrir að þarf að verja verulegum fjármunum til nefni ég Þjóðleikhúsið. Ef við dreifum þeim fjármunum sem endurbótasjóður menningarbygginga mun hafa til ráðstöfunar á þessu árabili til ársins 2000 og að því ári meðtöldu, þá má ætla að til Þjóðleikhússins gæti farið um það bil 0,5 milljarðar á þessu árabili og til Þjóðskjalasafnsins nálægt 400 millj. kr. Þannig yrði fjármunum endurbótasjóðs hugsanlega varið til næstu aldamóta og eins og ég sagði áðan er þar um að ræða nálægt 2,6 milljörðum kr. Þetta á að sjálfsögðu eftir að ræða frekar. Það er sérstök stjórn yfir endurbótasjóðnum sem á eftir að fjalla um þær hugmyndir sem hafa verið settar fram.
    Varðandi Þjóðskjalasafnið liggur hins vegar fyrir nákvæm verkáætlun, framkvæmda- og kostnaðaráætlun sem nær yfir árin 1994--1999 og ég hef alveg nýlega fengið í hendur. Þetta vildi ég segja í sambandi við þessar áætlanir.
    Ég held að það hafi ekki verið fleiri beinar spurningar til mín. Ég vildi aðeins ítreka þakkir mínar til hv. menntmn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu á þessu mikilvæga máli.