Rannsóknarráð Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 26. apríl 1994, kl. 17:19:53 (6602)


[17:19]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 1031, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, skrifar Kristín Ástgeirsdóttir, fulltrúi Kvennalistans í menntmn., undir nál. með fyrirvara. Kristín Ástgeirsdóttir er veik í dag og getur því ekki gert grein fyrir fyrirvaranum svo að ég hef tekið að mér það hlutverk að skýra að einhverju leyti í hverju hennar fyrirvari er aðallega fólginn.
    Eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar hefur nokkuð verið gagnrýnt það skipulag við úthlutun styrkja sem gert er ráð fyrir í frv. og að fyrirkomulagið væri nokkuð flókið og e.t.v. væri þar um margverknað að ræða, a.m.k. tvíverknað. Það komu m.a. fram tillögur frá Háskóla Íslands varðandi þetta atriði en Kristín taldi að það hefði þurft að kanna það miklu nánar og betur og það hefði þurft lengri tíma til að skoða þetta atriði. Þar sem hún taldi að það væri mikilvægt að þetta mál næði fram að ganga á þessu þingi, þá taldi hún eðlilegt að styðja þetta frv. eins og það verður eftir brtt. nefndarinnar og þess vegna skrifar hún undir nál. með þessum fyrirvara sem þó kannski hugsanlega getur verið mikilvægur að því leyti að það þyrfti að kanna úthlutunarreglurnar nokkuð nánar.
    Í 25. gr. frv. eru endurskoðunarákvæði þar sem kemur fram að lög þessi skuli endurskoða innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Sá tími þykir mér nokkuð langur og hefði kosið að hann yrði eitthvað styttri þannig að það væri hægt að skoða þessar úthlutunarreglur fyrr en gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar útilokar 25. gr. ekki að endurskoðunin fari fram fyrr þannig að ef í ljós kemur að úthlutunarreglurnar eru eins flóknar og erfiðar og lítur út fyrir, þá sé rétt að endurskoða alla vega þann þátt fyrr.
    Ég tel, herra forseti, að þær brtt. sem nefndin hefur lagt til að gerðar verði á frv. séu allar til bóta. Eins og fram kom við 1. umr. málsins þá hefði ég gjarnan viljað ganga nokkuð lengra að því er varðar sameiningu Vísindaráðs og Vísindasjóðs, þ.e. að sameina sjóðina einnig. Ég tel eðlilegt og vænti reyndar að það verði tekið til athugunar þegar sú endurskoðun fer fram sem frv. gerir ráð fyrir.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en vil lýsa ánægju minni með það að nefndinni skuli hafa tekist að vinna þetta mál eins og hún hefur gert og lagt fram brtt. sem eru til bóta að mínu mati og vona að þær verði samþykktar og mun ég styðja þær.